Hryggikt
Hryggikt og sjúkraþjálfun
Grein eftir Þórunni Haraldsdóttur, sjúkraþjálfara
Hryggikt
er langvinnur bólgusjúkdómur. Fyrstu einkenni eru oft bólgur og verkir neðst í
mjóbaki. Bólgan myndast oftast í spjald- og hryggjarliðum og afleiðing
bólgunnar er bein-nýmyndun. Bólgan og
bein nýmyndunin valda stirðleika og þá fara eðlilegar sveigjur hryggjarins að
breytast. Þetta er byrjun á vítahring sjúkdómsins.
Í þessari grein fjallar Þórunn Haraldsdóttir, sjúkraþjálfari, um ýmsar hliðar hryggiktar, t.d. líkamsstöðu, öndun og hvað sjúkraþjálfun getur gert fyrir fólk með hryggikt.
Hryggikt
Grein eftir Árna Jón Geirsson, gigtar - og lyflækni
Ekki er með
vissu vitað um algengi hryggiktar en talið er að 0,13% þjóðarinnar, geti verið
með sjúkdóminn. Hér áður var talið að sjúkdómurinn væri allt að tíu sinnum
algengari meðal karla en kvenna, en nú er ljóst að munurinn er nær því að vera
tvö- til þrefaldur. Sjúkdómurinn gefur oft óljós einkenni í byrjun, sem hefur
valdið því að erfiðlega hefur gengið að greina sjúkdóminn. Greiningartöf, þ.e.
sá tími sem líður frá upphafi einkenna til greiningar, er að jafnaði 8 ár meðal
karla en 10 ár hjá konum samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn (1).
Í þessari grein fjallar Árni Jón Geirsson, gigtar- og lyflæknir, um hryggikt.
Hryggikt - ein tegund bakverkja
Grein eftir Árna Tómas Ragnarsson, sérfræðing í gigtarsjúkdómum.
Hrygggigt eða hryggikt (spondylitis ankylopoetica) er langvinnur gigtarsjúkdómur sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum einnig í útlimaliðum. Orsökin er óþekkt en talið er líklegt að ónæmisfræðilegir þættir liggi að baki. Það eru bólgur í liðböndum og smáliðum hryggjarins sem valda helstu einkennunum sem eru verkir en þó einkum mikill stirðleiki í baki sem er verstur á morgnana, í allt að 2-3 klukkustundir. Þegar frá líður, eftir allmörg ár, kalka liðböndin og verða stíf. Við það minnkar hreyfigeta hryggjarins en þá minnka oft bakverkirnir líka. Meðferð sem leiðir til varanlegrar lækningar er ekki fyrir hendi. Þó er hægt að gera margt til að draga úr óþægindum og hindra óæskilegar afleiðingar sjúkdómsins. Helstu meðferðarform eru lyfjameðferð, sjúkraþjálfun og almenn líkamsþjálfun
Lesa meira