Hryggikt og sjúkraþjálfun

Grein eftir Þórunni Haraldsdóttur, sjúkraþjálfara

Hryggikt er langvinnur bólgusjúkdómur. Fyrstu einkenni eru oft bólgur og verkir neðst í mjóbaki. Bólgan myndast oftast í spjald- og hryggjarliðum og afleiðing bólgunnar er bein-nýmyndun.  Bólgan og bein nýmyndunin valda stirðleika og þá fara eðlilegar sveigjur hryggjarins að breytast. Þetta er byrjun á vítahring sjúkdómsins. 
Í þessari grein fjallar Þórunn Haraldsdóttir, sjúkraþjálfari, um ýmsar hliðar hryggiktar, t.d. líkamsstöðu, öndun og hvað sjúkraþjálfun getur gert fyrir fólk með hryggikt. 

Hryggikt

Hryggikt er langvinnur bólgusjúkdómur. Fyrstu einkenni eru oft bólgur og verkir neðst í mjóbaki. Bólgan myndast oftast í spjald- og hryggjarliðum og afleiðing bólgunnar er bein-nýmyndun.  Bólgan og bein nýmyndunin valda stirðleika og þá fara eðlilegar sveigjur hryggjarins að breytast. Þetta er byrjun á vítahring sjúkdómsins. Vítahringurinn lýsir sér Hryggiktþannig að verkir og stirðleiki verða til þess að fólk hreyfir sig minna, þá minnkar styrkur og þol, vöðvakraftur minnkar og það hefur þær afleiðingar að bolvöðvarnir ná ekki að halda hryggnum uppréttum eins lengi og við þurfum og þá versnar líkamsstaðan. 

Hvað getur sjúkraþjálfun gert fyrir fólk með hryggikt?

Meðferð fólks með hryggikt snýst um margt. Stór hluti er fræðsla um sjúkdóminn og áhrif hans. Það er mikilvægt að skilja framgang sjúkdómsins til að vita hvaða æfingar og hvaða stöður eru æskilegar til að sporna við sjúkdómnum. Með aukinni þekkingu er fólk betur í stakk búið til að brjótast út úr vítahring sjúkdómsins og vinna þannig á móti einkennunum eins og unnt er. Mikilvægt er að fara yfir hvaða stöður eru æskilegar við vinnu og dagleg störf og hvaða stöður skal varast. Fræðsla um hvaða æfingar eru gagnlegar og hverjar ekki og af hverju, ábendingar um hvernig koddar eru æskilegir og svo verkjameðferð ef á þarf að halda. Allt þetta hjálpar til við að sporna við/seinka stirðnun hryggjarins, fyrir þá sem sjúkdómurinn leggst þyngst á er mikilvægt að vinna að því að stirðna þá í sem bestri stöðu. Hreyfing er mikilvægasti þátturinn sem sjúklingur getur sjálfur gert til að hjálpa sér að  viðhalda hreyfingu í hryggnum og minnka verki.

Eðlilegar sveigur hryggjarins breytast, hvaða þýðingu hefur það?

Hjá flestum (80%) byrjar bólgan í spjaldhryggnum og  færir sig síðan upp hrygginn með þeim afleiðingum að bakið leitar í bogna stöðu. Í eðlilegum hrygg hallar spjaldhryggurinn fram en afleiðingar langvinnrar bólgu í spjaldhrygg verður til þess að spjaldhryggurinn hallast aftur. Þetta hefur áhrif á stöðu alls hryggjarins. Mjóbakssveigjan hverfur og brjóstbakið verður hokið. Það þarf því að huga vel að því í hvaða stöðu mjóbakið er, minni mjóbaksfetta veldur því að erfiðara er að rétta úr brjósthryggnum.

Breytt líkamsstaða veldur breyttu samspili vöðva.

Í hryggikt myndast vítahringur milli breyttrar líkamsstöðu og samspils vöðva . Ákveðnir vöðvahópar eru sérstaklega mikilvægir við að halda líkamsstöðunni réttri. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá mann sem er með eðlilega líkamsstöðu og mann sem er með hryggikt. 

Hryggikt-likamsstadaHjá heilbrigða manninum er samspil vöðva í jafnvægi þ.e.a.s. vöðvarnir geta haldið eðlilegri réttstöðu. Hjá manninum sem er með hryggikt (hægra megin á myndinni) er samspil vöðvanna í ójafnvægi. Breytt samspil vöðva  kemur til vegna breyttrar líkamsstöðu og stuðlar síðan að því að líkamsstaðan versni enn frekar ef ekkert að gert.

Mikilvægt er að skilja ójafnvægi í samspili vöðvanna til að vita hvaða æfingar eru gagnlegar.

Við breytta líkamsstöðu styttast vöðvarnir á ákveðnum stöðum og lengjast á öðrum, í því felst ójafnvægi vöðvanna.  Þetta gerist um allan líkamann. Tökum dæmi:

  • Ef brjóstbak er alltaf hokið þá styttast brjóstvöðvarnir og kviðvöðvarnir en á móti lengjast bakvöðvarnir.  Erfiðara er að rétta úr bakinu ef bakvöðvarnir eru langir og ef brjóst- og kviðvöðvar eru orðnir stuttir þurfa bakvöðvarnir enn meiri kraft til að vinna á móti styttingunni til að geta rétt úr bakinu.
  • Þegar brjóstbakið er hokið þarf hálsinn að halla aftur til að sjá fram og við það geta vöðvarnir aftan á hálsinum styst og vöðvarnir framan á hálsinum lengst.
  • Einnig er algengt að sjá fólk með hryggikt standa með boginn hné. Ef þú þarft alltaf að standa með boginn hné þá styttast kálfarnir og vöðvarnir aftan á lærunum en vöðvar framan á lærunum lengjast. 

Með því að skilja þetta samspil vöðvanna í hryggikt er hægt að útbúa æfingaprógramm sem hjálpar til við að bæta líkamsstöðuna. Það er betra að skilja þetta samspil og gera viðeigandi æfingar heldur en að gera bara einhverjar æfingar. Æfingar miða að því að teygja á stuttum vöðvum en styrkja alla vöðva sem hafa lengst. Sem dæmi má nefna að teygja á brjóst- og kviðvöðvum, teygja á vöðvum aftan á hálsi en á móti þarf að styrkja bakvöðva í brjóstbaki og vöðva framan á hálsi svo e-ð sé nefnt.  Fólk getur verið í misjafnlega góðu líkamsástandi þegar það kemur í þjálfun og því einstaklingsbundið hvernig æfingarnar eru gerðar. Gott er að hita upp fyrir styrktaræfingar og hafa þær í meðalerfiðar. Til dæmis gera æfingar með 10-15 endurtekningum  í þremur settum með hléum á milli. Einnig er mælt með þolæfingar og upplagt að fylgjast með púlsinum til að sjá framfarir. Þolæfingar geta verið t.d. ganga, skokka, hlaupa eða hjóla. Mjög mikilvægt er að fara í gegnum alla hreyfiferla líkamans á hverjum degi. Það er mjög mikilvægt fyrir fólk með hryggikt að hreyfa sig reglulega.

Öndun

Í hryggikt er algengt að brjóstþan minnki og er mikilvægt að reyna að sporna við því eins og hægt er. Rifbeinin eru tengd við brjósthrygginn með smáliðum og að framan tengjast rifbeinin bringubeininu með brjóski. Þessi liðir geta bólgnað við hryggikt og þeir verður sárir og stirðir. Ef rifbeinin stirðna minnkar brjóstþanið. Þekking á þessu ferli og öndunaræfingar hjálpa til við að halda brjóstkassaþaninu. . Tilhneigingin er að þegar rifbeinin byrja að stirðna að anda með maganum. Þegar maður andar með maganum kemur engin hreyfing á rifbeinin og með því að anda á þennan hátt stirðna rifin hraðar. Þess vegna er svo mikilvægt að gera öndunaræfingar þannig að rifin fái hreyfingu og haldi hreyfanleika sínum.

Að lokum

Að lokum langar mig að hvetja fólk með hryggikt til að leita ráða hjá lækni eða hæfu heilbrigðisstarfsfólki og gera það sem hægt er til að sporna við sjúkdómnum. Það er mikilvægt er að einangra sig ekki. Látið ekki sjúkdóminn stjórna. Það getur verið gott að ræða við fólk sem hefur sama sjúkdóm. Ég hvet til þess að fara reglulega út og hitta fólk og gera það sem manni finnst skemmtilegt. 

Höfundur greinar er Þórunn Haraldsdóttir, sjúkraþjálfari

Birt í Gigtinni 2. tbl. 2014