Sjúkraþjálfun Gigtarfélags Íslands

Sjúkraþjálfarar gigtarmiðstöðvar leggja sig fram um að sinna endurmenntun og sækja sem flest námskeið sem bjóðast. Ef þörf er á leita þjálfarar samstarfs við aðrar fagstéttir til þess að skjólstæðingar okkar fái sem heildrænasta nálgun í meðferð. 

Meðal aðferða sem sjúkraþjálfarar stöðvarinnar hafa sérhæft sig í er RPG (heildræn endurkennsla góðrar líkamsstöðu) og bjúgmeðferð. Auk þessa  er annar þjálfaranna menntaður sjúkranuddari.

Hér er hægt að lesa um hvað þarf til að komast í sjúkraþjálfun. 

Markmið sjúkraþjálfunar

Markmið  sjúkraþjálfunar GÍ er að veita meðferð sem miðar að því að viðhalda og/eða auka heilbrigði gigtarfólks. Starf sjúkraþjálfara er einkum fólgið í greiningu og meðferð ýmissa sjúkdóma eða álagseinkenna, auk fræðslu um orsakir og afleiðingar þeirra. Þeir leiðbeina um hvernig megi bæta líðan og hindra að kvillinn taki sig upp eða gera áhrif hans á lífið sem minnst. Í sjúkraþjálfun er margskonar aðferðum beitt, s.s. æfingum og teygjum, togi, liðlosun, hita og kælingu, rafmagnsmeðferð, mjúkvefjameðferð, nálarstungum, ráðgjöf og fræðslu.

Vitað er að gigtarsjúkdómar setja fólki margvíslegar skorður og oft tapast bæði þol og vöðvakraftur. Mikilvægt er að viðhalda og auka hreyfanleika og vöðvakraft, auk þess að minnka verki og bæta úthald. Í flestum tilfellum er hægt að minnka verki og bæta úthald gigtarfólks verulega með réttri þjálfun og meðferð.

Algengasta sjúkdómsgreining þeirra er sótt hafa sjúkraþjálfun GÍ er slitgigt. Á eftir koma vefjagigt og iktsýki og síðan aðrir gigtarsjúkdómar.

Greiðsluþátttaka

Sjúkraþjálfun fellur undir greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga eins og önnur heilbrigðisþjónusta.

Athugið að sjóðir flestra stéttarfélaga endurgreiða félagsmönnum sínum greiðslur fyrir sjúkraþjálfun.