Skattamál

Skattframtal: Lífeyrisþegar varðandi verktakagreiðslur

Verktakagreiðslur eru ekki forskráðar á framtal, þar sem gert er ráð fyrir að launþegi geri rekstrarskýrslu sem er eyðublað 4.10 eða 4.11. og færi nettó niðurstöðu á tekjublaðið í reit 24.

Þegar niðurstaðan er færð í þennan reit ætti að vera tryggt að tekjurnar séu inní stofni sem er til útreiknings tekna og þar af leiðandi komið inní útreikning frítekjumarks við útreikning lífeyrisgreiðslna.

Skattstofur á landinu bjóða ráðgjöf og aðstoð við gerð skattframtals eins og þið eflaust þekkið, mæli með því að benda þeim sem eru með verktakagreiðslur á það.

TR sendir ekki lengur út launamiða til lífeyrisþega og munum kynna það og þá um leið bendum við á meðferð verktakagreiðslna þar sem þær eru ekki forskráðar á framtal, en allar aðrar greiðslur frá okkur eru það.

15.01.´09

Lækkun skatts

 

Umsókn um lækkun á skatti 

Ef þú ert með mikinn umframkostnað vegna sjúkdóms er hægt að sækja um lækkun/ívilnun á skatti í skattframtali. Í reglum nr. 212/1996 eru skilyrði fyrir ívilnun samkvæmt 65. og 79. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Nánari upplýsingar er að finna á forsíðu heimasíðu ríkisskattstjóra www.rsk.is undir krækjunni Lækkun og frádrættir og þá hlekknum Lækkun (ívilnun) eða á skattstofu í því umdæmi sem maður býr í.

Hvernig er sótt um? 

Hægt er að nálgast eyðublað á forsíðu heimasíðu ríkisskattstjóra www.rsk.is undir krækjunni Eyðublöð og þá hlekknum Fylgiskjöl með skattframtali einstaklinga og svo aftur hlekknum Umsókn um lækkun skv. 65 gr. og/eða 79 gr. eða á skattstofu í því umdæmi sem maður býr í. Umsókninni skal skila sem fylgiskjali með skattframtali. Ef maður er ekki sáttur við ákvörðun skattstjóra um lækkun/ívilnun samkvæmt umsókninni er hægt að kæra ákvörðunina til skattstjóra. Kæruúrskurði skattstjóra varðandi ívilnun má áfrýja til ríkisskattstjóra.

  Reglur 

Hér fyrir neðan eru reglur ríkisskattstjóra skv. ákvæði 2. mgr. 65. gr. um þau skilyrði sem gilda fyrir lækkun/ívilnun á skatti vegna umframkostnaðar í sambandi við veikindi. Þessar reglur eiga einnig við í sambandi við ellihrörleika, slys eða andlát í fjölskyldunni sem leiðir til umframkostnaðar.

Veikindi 

Skilyrði fyrir lækkun eru að veikindi hafi haft í för með sér skerta greiðslugetu vegna verulegs kostnaðar umfram bætur og styrki sem viðkomandi hefur fengið vegna veikindanna. Kostnaður vegna veikinda í þessu sambandi getur t.d. verið:

  • Dvalarkostnaður á stofnunum t.d. vegna endurhæfingar á Heilsustofnun NFLÍ í Hveragerði
  • Lyfja- og lækniskostnaður.
  • Þjálfunarkostnaður, sjúkra- iðju- og talþjálfun
  • Kostnaður vegna ferða til læknis, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa eða annarra meðferðaraðila
  • Ýmisskonar sérútbúnaður og hjálpartæki vegna fötlunar, getur átt við bæði um smá og stór hjálpartæki.

  Kvittanir 

Mikilvægt er að halda saman öllum kvittunum fyrir læknisheimsóknir, lyfjakostnað, hjálpartæki, þjálfunarkostnað, ferðakostnað til læknis, eða annarra meðferðaraðila ásamt öðrum kostnaði sem fylgir sjúkdómnum og láta fylgja með umsókn. Hægt er að fá útskrift af lyfjakostnaði í apóteki viðkomandi.

Umsóknarferli 

Í umsókn þarf að koma fram að um óhjákvæmilegan kostnað sé að ræða og eftirfarandi gögn að fylgja umsókn:

  • Staðfesting á kostnaði vegna veikinda og í hverju hann er fólginn
  • Málsatvik varðandi veikindi og hve lengi má ætla að afleiðingar þeirra vari
  • Áætlaðar tekjur, bætur og styrkir umsækjanda á yfirstandandi ári
  • Læknisvottorð

Hafa í huga 

 Við hvetjum ykkur til að gera það að reglu að halda saman öllum kvittunum sem heyra til umframkostnaðar vegna sjúkdóms og láta reyna á að sækja um lækkun til skatts.