Gigt og meðferð

Gigt er ekki einn sjúkdómur heldur eru gigtarsjúkdómarnir hátt á annað hundrað talsins og geta allir fengið gigt, óháð aldri.
Talið er að einn af hverjum fimm fái gigtarsjúkdóm einvern tímann á lífsleiðinni. 

Helstu flokkar gigtsjúkdóma

 • Bólgusjúkdómar 
 • Iktsýki
 • Rauðir úlfar og skyldir sjúkdómar
 • Fjölvöðvabólga – húðvöðvabólga
 • Herslismein
 • Fjölvöðvagigt
 • Æðabólgur
 • Hryggikt
 • Reiterssjúkdómur (Fylgigigt)
 • Psoriasis liðagigt
 • Barnagigt
 • Liðbólgur tengdar sýkingum
 • Kristallasjúkdómar, til dæmis þvagsýrugigt
 • Slitgigt
 • Vöðva- og vefjagigt - festumein og skyldir sjúkdómar
 • Beinþynning

Algengi

Fólk á öllum aldri fær gigtsjúkdóma og eru slitgigt, vöðva- og vefjagigt og iktsýki útbreiddastir. Slitgigt er algengasti sjúkdómur í liðum og eykst tíðni hans með aldrinum. Þannig greinast slitbreytingar í hrygg eða útlimaliðum á röntgenmyndum hjá allt að 20% einstaklinga þó allur sá fjöldi beri ekki mikil einkenni slitgigtar. Iktsýki herjar trúlega á allt að 1% þjóðarinnar og einkenni vöðva- og vefjagigtar og festumeina eru mjög algeng. Aðrir gigtsjúkdómar eru fátíðari.

Hér á landi eru einkenni um gigtarsjúkdóma meðal algengustu ástæðna heimsókna til læknis og eru sumir þessara sjúkdóma að verða sífellt algengari, m.a. vegna hækkandi meðalaldurs. Bandaríska gigtarsambandið telur t.d. að árið 1982 hafi 36 milljónir Bandaríkjamanna verið með gigtarsjúkdóma. Þá valda sjúkdómarnir ómældri þjáningu og skapa auk þes alvarlegan fjárhagsvanda fyrir þjóðfélagið í heild. Um það bil 20% íslenskra öryrkja eru það vegna gigtar.

Einkenni

Flestir gigtarsjúkdómar eru í eðli sínu langvinnir (krónískir). Einkenni þeirra eru fjölbreytileg og misjafnlega alvarleg - allt frá því að vera væg yfir í það að vera lífshættuleg. Algengustu merki gigtar eru stirðleiki, verkir og bólga í liðum, vöðvum, sinum og sinafestum. Í mörgum tilvikum eru sjúkdómseinkennin staðbundin en í öðrum útbreiddari. Þannig geta sumir bólgusjúkdómar t.d. iktsýki, rauðir úlfar og æðabólgur, haft í för með sér einkenni frá flestum líffærakerfum.

Orsakir - sjúkdómsþróun

Viðhlítandi skýring hefur ekki enn fundist á orsökum marga gigtarsjúkdóma. Þó hefur þekking aukist á því ferli sem veldur verkjum, bólgu og skemmd í vefjum. Sjúkdómsþróun eða meingerð hinna ýmsu gigtarsjúkdóma er mismunandi. Þannig er andleg spenna, svefnleysi og þreyta oft undanfari vöðva- og vefjagigtar. Orsakir slitgigtar þar sem brjósk og bein í liðum skemmist án áberandi bólgu, eru að mestu óþekktar þó að í sumum tilfellum megi greina orsakaþátt, eins og t.d. áverka á liðum. Í bólgusjúkdómum eins og iktsýki og rauðum úlfum, er sjálfsofnæmi áberandi þáttur í meingerðinni. Ónæmiskerfi einstaklingsins, sem undir eðlilegum kringumstæðum verndar hann gegn ytra áreiti, t.d. bakteríum, starfa hér óeðlilega á þann hátt að ónæmissvarið beinist gegn eigin vef. Frumur ónæmiskerfisins framleiða ofgnótt mótefna er valda bólgu og vefjaskemmd ef ekkert er að gert. Við greiningu þessara sjúkdóma er stuðst við mælingar á þessum sjálfsmótefnum.

Sjúkdómskenningar

Flestar kenningar er fjalla um orsakir gigtarsjúkdóma ganga út á það að um samverkandi þætti sé að ræða - meðfædda þætti og ytri þætti. Þannig eru náin tengsl ákveðinna erfðamarka og ýmissa gigtsjúkdóma þekkt og mjög hefur verið til umræðu að örverur séu hugsanleg orsök vissra gigtsjúkdóma. Hér á landi er unnið að rannsóknum á erfðaþáttum gigtsjúkdóma m.a. hvað varðar rauða úlfa, iktsýki, slitgigt og hryggikt. Þekkt eru tengsl undanfarandi sýkinga við vissa gigtsjúkdóma og má þar nefna að gigtarsótt er afleiðing keðjukokkasýkingar í hálsi. Ekki hefur enn tekist að sýna fram á þátt örvera í iktsýki en margir vísindamenn vinna eftir þeirri tilgátu að iktsýki komi fram ef liðsækin örvera sýkir einstakling með vissa arfgerð.

Meðferð

Með aukinni þekkingu á eðli og sjúkdómsþróun hafa orðið framfarir í meðferð gigtsjúkdóma sérstaklega á síðustu þrem til fjórum árum. Komið hafa fram lyf sem segja má að valdið hafa miklum framförum í meðferð vissra alvarlegra gigtarsjúkdóma s.s. iktsýki, hryggikt, psoriasisliðagigt og rauðra úlfa. Lögð er æ meiri áhersla á mikilvægi þess að greina gigt nákvæmlega og hefja viðeigandi meðferð fljótt. Á þann hátt næst bestur árangur.

Höfundur:  Dr. Kristján Steinsson yfirlæknir á Gigtardeild LSH.