Hvað er til ráða við þvagsýrugigt?
Spurning:
Ég hef fengið ítrekað þvagsýrugigt í liðinn við stórutá, get ég fengið þvagsýrugigt í ökklaliðinn ef svo er hvað er til ráða sem fyrirbyggjandi.
Svar:
Þvagsýrugigt getur lagst á ýmsa liði líkamans og þar á meðal ökklaliðinn. Til að minnka líkur á þvagsýrugigtarkasti skiptir mataræðið miklu máli. Ráðlagt er að forðast mat sem inniheldur mikið af svonefndum púrinefnum s.s. lifur, hjörtu, slátur og nýru. Einnig að draga úr neyslu á feitum mat og kjöti og kjötréttum. Mikilvægt er að takmarka neyslu áfengis því að það hækkar þvagsýrumagnið í blóði. Gott er að forðast sykurríka drykki og sætindi en drekka í staðinn vel af vatni sem flýtir fyrir útskilnaði þvagsýrunnar.
Stundum eru gefin lyf til að koma í veg fyrir of mikið magn þvagsýrunnar í líkamanum. Um það verður að ráðgast við lækni.
Kveðja, Gigtarlínan