Hópþjálfun
Gigtarsjúkdómar hafa margvísleg áhrif á daglegt líf. Gildi þjálfunar er mikið fyrir alla og ekki síst fyrir gigtarfólk. Vegna sjúkdómsins og afleiðinga hans, svo og lyfjameðferðar, dregur úr vöðvastyrk og úthaldi og í sumum sjúkdómum verða aflaganir á liðum og/eða hryggsúlu. GÍ býður upp á fjölbreytta hópþjálfun - leikfimi sem hentar fólki með gigt, þeim sem eiga við verkjavandamál að stríða og einnig er hún opin fyrir almenning sem vill þjálfa sig undir handleiðslu sérmenntaðs fagfólks.
Tilgangur hópþjálfunar
Tilgangur hópþjálfunar GÍ er að leiðrétta og viðhalda réttri líkamsstöðu, auka og/eða viðhalda vöðvastyrk, úthaldi, liðleika liða og teygjanleika vöðva og kenna slökun. Markmið hvers einstaklings er misjafnt og fer það eftir því t.d. hvaða sjúkdóm hann hefur, hversu slæmur hann er, aldri, vinnu, íþróttaiðkun og fleiru. Reynt er að mæta þörfum hvers og eins. Að taka þátt í hópþjálfun veitir þátttakendum ákveðið aðhald, er hvetjandi og eflir félagsleg tengsl. Hún hjálpar einnig mörgum að halda sér góðum, starfshæfni og starfsþrek eykst og almenn líðan að sama skapi.
Í kaflanum " Námskeið " má finna upplýsingar um námskeiðin, stundaskrá og verð námskeiða.