Námskeið í boði

 Vatnsleikfimi

Vatnsleikfimin fer fram undir stjórn reyndra sjúkraþjálfara í laug Sjálfsbjargar Hátúni 12. Vatnsleikfimi er alhliða og góð þjálfun sem hentar mjög mörgum og þarna finna margir góða leið til þjálfunar sem ekki hafa fundið sig í annarri leikfimi. Algengt er að þeir sem eru með stoðkerfisverki eiga auðveldar með að gera æfingar í vatni heldur en á þurru landi. Vatnsleikfimin hefur verið gríðarlega vinsæl og færri komist að en vilja. Kenndir eru fjórir 40 mínútna tímar mánudaga og miðvikudaga, léttari leikfimi kl.15:05 og 15:50 og þyngri leikfimi kl. 16:35 og 17:20. 

Kennarar eru:  Eva Marie Björnsson, sjúkraþjálfari og Nína Dóra Óskarsdóttir íþróttafræðingur og nemi í sjúkraþjálfun.

Karlaleikfimi

Við bjóðum upp á frísklega karlaleikfimi þar sem áhersla er lögð á þrekþjálfun, liðkun, líkamsbeitingu og slökun. Þessi leikfimi getur hentað karlmönnum á öllum aldri hvort sem þeir eru með gigt eða ekki en vilja æfa í rólegu umhverfi undir stjórn og eftirliti sjúkraþjálfara. Kennt er mánudaga og miðvikudag kl. 18:15. 

Kennarar eru Guðni Rafn Harðarson nemi í sjúkraþjálfun og Eva Marie Björnsson sjúkraþjálfari.

 Róleg alhliða leikfimi

Alhliða leikfimi þar sem unnið er með þol, styrk, teygjur og slökun. Auk þess er lögð áhersla á að fræða um og bæta líkamsbeitingu og hugað að liðvernd. Þessir tímar henta fólki með gigt og einnig geta þeir hentað vel fólki sem er að byrja þjálfun eftir langt hlé eða veikindi. Sjúkraþjálfarar stjórna tímunum. Boðið er upp á Hádegisleikfimi mánudaga og fimmtudaga kl. 13:30. Leikfimi I mánudaga og miðvikudaga kl. 17:10. 

Kennarar eru Guðni Rafn Harðarson nemi í sjúkraþjálfun og Eva Marie Björnsson, sjúkraþjálfari

STOTT-PILATES

Gigtarfélagið hefur boðið upp á STOTT-PILATES frá því haustið 2007. Í STOTT-PILATES er lögð áhersla á að þjálfa stöðugleika í stoðkerfi, mjaðmagrind og axlargrind með það að markmiði að bæta vöðvastyrk og líkamstöðu. Þessar æfingar geta hentað nánast hverjum sem er, þar sem hægt er að gera fjölmargar útgáfur af hverri æfingu og í flestum tilfellum er einnig hægt að aðlaga þær þörfum hvers og eins.  Í boði er byrjendahópur á þriðjudögum og fimmtudögum kl.16:10. Framhaldshópar sömu daga kl. 17:10  Einnig bjóðum við upp á STOTT-PILATES  kl. 10:20 og fyrir viðkvæma kl. 12:30 sömu daga. 

Kennari er Vilborg Anna Hjaltalín, sjúkraþjálfari.

Jóga

Í Jóga er líkaminn þjálfaður með rólegum liðkandi hreyfingum og teygjum ásamt öndun. Áhersla er lögð á að hver og einn hlusti á sinn líkama skoði og taki tillit til þess hvernig honum líður og hvað hann treystir sér til að gera hverju sinni.  Jóga er kennt þriðjudaga og fimmtudaga kl.16:35 

Kennari er Rut Rebekka Sigurjónsdóttir jógakennari og hjúkrunarfræðingur

Tai Chi - styrkur - jafnvægi

Um er að ræða létta leikfimi byggða á grunnæfingum Tai Chi. Þetta eru rólegir leikfimitímar þar sem áhersla er á að þjálfa líkamsvitund,  jafnvægi,  samhæfingu,  styrk og úthald með rólegum hreyfingum. Tai chi, er ævaforn kínversk heilsurækt og var raunar upprunalega sjálfsvarnaríþrótt. Einkenni Tai chi eru hægar, mjúkar og flæðandi hreyfingar.  Lögð er áhersla á slökun í hreyfingum og öndun. Rannsóknir benda til að þetta form æfinga geti hentað gigtarfólki einstaklega vel og bætt líkamlega færni þess.  Kennt er einu sinni í viku, tímarnir henta fólki vel sem er í annarri hreyfingu, sem er þó ekkert skilyrði.  Kennari er Anna Kristín Kristjánsdóttir sjúkraþjálfari. Ef næg þátttaka fæst verða námskeið í boði á vorönn 2017.

Upplýsingar og skráning

Hópþjálfunin er starfrækt haust, vetur og vor og er tvisvar í viku. Skráning og upplýsingar er á skrifstofu Gigtarfélags Íslands í síma 530 3600.  Ýmis stéttarfélög veita félagsmönnum sínum líkamsræktarstyrk sem hægt er að nota upp í kostnað við hópþjálfunina.