Iðjuþjálfun Gigtarfélags Íslands

Markmið iðjuþjálfunar GÍ

Markmið iðjuþjálfunar GÍ er að auka starfsgetu og bæta líðan fólks með gigtarsjúkdóma og annan stoðkerfisvanda, en þeir hafa margvísleg áhrif á daglegt líf. Skerta starfsgetu og vanlíðan má oftast rekja til helstu fylgifiska gigtarinnar (stoðkerfisvandans), þ.e. verkja, stirðleika, máttleysis og þreytu.

Iðjuþjálfarnir meta hreyfifærni við daglega iðju. Í fyrsta viðtali er vandinn greindur, hreyfifærni metin svo og handstyrkur, bólgur, aflaganir, ofl. Tilgangur meðferðar er útskýrður og gerð er meðferðaráætlun í samvinnu við skjólstæðing. Í meðferðinni felst  fræðsla um einkenni þeirrar gigtar sem við á. Kennd er  liðvernd, líkamsbeiting og handaæfingar til að bæta/viðhalda hreyfanleika og vöðvastyrk. Gefin eru ráð við  vali á hjálpartækjum, kennd er notkun þeirra og útskýrð nauðsyn notkunar. Í sumum tilfellum eru  útvegaðar spelkur á hendur, hvorttveggja til notkunar við vinnu og í hvíld. Sótt er um greiðslu eða greiðsluþátttöku á hjálpartækjum og spelkum í þeim tilvikum sem við á til Sjúkratrygginga Íslands. Iðjuþjálfar Gigtarfélagsins fara í heimilis- og vinnustaðaathuganir og gera tillögur til úrbóta sé á því þörf. Allir geta sótt þjónustu iðjuþjálfunar.