Hryggikt - ein tegund bakverkja

Grein eftir Árna Tómas Ragnarsson, sérfræðing í gigtarsjúkdómum.

Hrygggigt eða hryggikt (spondylitis ankylopoetica) er langvinnur gigtarsjúkdómur sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum einnig í útlimaliðum. Orsökin er óþekkt en talið er líklegt að ónæmisfræðilegir þættir liggi að baki. Það eru bólgur í liðböndum og smáliðum hryggjarins sem valda helstu einkennunum sem eru verkir en þó einkum mikill stirðleiki í baki sem er verstur á morgnana, í allt að 2-3 klukkustundir. Þegar frá líður, eftir allmörg ár, kalka liðböndin og verða stíf. Við það minnkar hreyfigeta hryggjarins en þá minnka oft bakverkirnir líka.  Meðferð sem leiðir til varanlegrar lækningar er ekki fyrir hendi. Þó er hægt að gera margt til að draga úr óþægindum og hindra óæskilegar afleiðingar sjúkdómsins. Helstu meðferðarform eru lyfjameðferð, sjúkraþjálfun og almenn líkamsþjálfun

Yfirlit

Hryggigt eða hryggikt (spondylitis ankylopoetica) er langvinnur gigtarsjúkdómur sem veldur stirðleika og verkjum í baki, hálsliðum og brjóstkassa og stundum einnig í útlimaliðum. Þessi gigt er miklu algengari hjá körlum en konum og er talið að u.þ.b. 1% fólks fá þennan sjúkdóm sem oftast kemur fram á aldrinum 20-30 ára. Orsökin er óþekkt en talið er líklegt að ónæmisfræðilegir þættir liggi að baki.

Einkenni

Það eru bólgur í liðböndum og smáliðum hryggjarins sem valda helstu einkennunum sem eru verkir en þó einkum mikill stirðleiki í baki sem er verstur á morgnana, í allt að 2-3 klukkustundir. Þegar frá líður, eftir allmörg ár, kalka liðböndin og verða stíf. Við það minnkar hreyfigeta hryggjarins en þá minnka oft bakverkirnir líka.

Iðulega takmarkast einkenni við bak, háls og brjóstkassa en þau geta einnig komið frá liðum; einkum stórum liðum svo sem ökklum, hnjám og mjaðmarliðum og frá vöðvafestum og sinum.

Ýmsir fylgikvillar geta komið fram við hryggikt, svo sem lithimnubólga í auga sem lýsir sér með verk, roða í auganu og ljósfælni og svo blöðruhálskirtilsbólga hjá körlum.

Rétt er að benda á að venjulegir bakverkir eru mjög algengir en hryggikt að sama skapi sjaldgæf. Venjulegum bakverkjum fylgir ekki eins mikill stirðleiki og þeim valda oftast einhverjar ytri aðstæður, t.d. mikið álag, en hryggiktin kemur innan frá eins og aðrir bólgugigtarsjúkdómar.

Greining

Saga sjúklings og skoðun læknis gefur oft sterkar vísbendingar um greiningu. Hún fæst þó ekki með vissu nema einkennandi breytingar sjáist á röntgenmynd af hryggnum. Einnig getur svo nefnt ísótópaskann af hryggnum hjálpað.

Blóðrannsóknir hjálpa á tíðum lítið; stundum má þó sjá hækkun á blóðsökki en það bendir til innri bólgu í líkamanum einkum ef um liðbólgur er að ræða. Sjúkdómurinn er arfgengur og nánast allir sem hann fá eru með HLA B27 vefjagerð en hana er hægt að greina í venjulegu blóðsýni. Þessi vefjagerð er arfgeng eins og aðrar vefjagerðir og eru tæplega 20% Íslendinga með hana, en aðeins lítill hluti þeirra (um 1%) eru þó með sjúkdóminn.

Meðferð

Meðferð sem leiðir til varanlegrar lækningar er ekki fyrir hendi. Þó er hægt að gera margt til að draga úr óþægindum og hindra óæskilegar afleiðingar sjúkdómsins. Helstu meðferðarform eru lyfjameðferð, sjúkraþjálfun og almenn líkamsþjálfun. Nánar verður fjallað um hvern þátt hér fyrir neðan.

Lyfjameðferð

Til eru margar gerðir af s.k. bólgueyðandi gigtarlyfjum og reynast þau oft vel til að draga úr verkjum og stirðleika. Í raun breyta lyfin ekki gangi sjukdómsins og er því óþarft að taka ef einkenni eru lítil eða engin. Séu þau mikil geta lyfin gert sjúklingi kleift að halda sér liðugum með æfingum. Það er best að taka lyfin þannig að þau virki vel yfir nótt og næsta morgun þá eru einkenni oftast mest til baga. Þessi lyf geta farið illa í maga, valdið brjóstsviða og bólgum eða sári í maga. Ef sjúkdómurinn er mjög virkur eru til önnur lyf, sem geta haft hamlandi áhrif á sjúkdómsvirknina en þau lækna þó ekki sjúkdóminn.

Sjúkraþjálfun

Sjúkraþjálfun miðar að því að halda við þeirri hreyfigetu sem fyrir hendi er og auka hana eftir mætti. Það er mikilvægt að sjúklingar læri æfingar sem þeir geta sjálfir gert heima og sömuleiðis að þeir læri réttar vinnustellingar fyrir bak og háls. Hætta er á að sjúklingar með hryggikt bogni í brjósthrygg en sé sjúkþjálfun og æfingar hafnar í tíma má fyrirbyggja það að verulegu leyti.

Almenn líkamsþjálfun

Almenn líkamsþjálfun er sérlega holl og mikilvæg fyrir sjuklinga með hryggikt því auk þess sem liðir og bak liðkast viðheldur hún vöðvastyrk og eykur úthald. Sums staðar hittast hópar hryggiktarsjúklinga til að gera æfingar reglulega saman undir stjórn sjúkraþjálfara og hafa slíkar æfingar skilað góðum árangri.

Horfur

Horfur eru yfirleitt góðar. Einkenni eru oft veruleg í allmörg ár en geta síðan brunnið út, oftast þó þannig að viðkomandi verður áfram stífur í baki. Bæklun er sjaldan mjög veruleg ef útlimaliðir eru í lagi en stirðleiki í hálsliðum getur verið bagalegur. Oftast fá konur sjúkdóminn í vægari mynd en karlar. Langflestir sem fá hryggikt geta lifað nokkurn veginn eðlilegu lífi en rétt er að taka tillit til sjúkdómsins við val á starfi og starfsaðstöðu.

Höfundur er Árni Tómas Ragnarsson, sérfræðingur í gigtarsjúkdómum.

Birt í Gigtinni 1995.