Í dag er alþjóðlegur dagur rauðra úlfa (lupus)
Árlega er 10. maí notaður er til að vekja athygli um heim allan á rauðum úlfum. Markmiðið er að auka þekkingu og skilning á sjúkdómnum. Vekja athygli á áhrifum hans á fólk og samfélag. Allt gert til þess að auka lífsgæði fólks sem á við þennan alvarlega sjálfsofnæmissjúkdóm að stríða. Sjúkdómurinn telst til gigtarsjúkdóma og algengi hans er allnokkuð. Á heimsvísu er talið að 20 til 70 af hverju hundrað þúsundi eigi við hann að stríða. Sjúkdómurinn getur valdið bólgu í frumum sem geta svo haft áhrif á einn eða fleiri vefi líkamans: húð, liði, vöðva, æðar, blóðkorn, heila og taugar og einnig önnur líffæri svo sem lungu, hjarta, nýru, meltingarfæri og himnur í kringum innri líffæri. Birtingarformið er mismunandi milli einstaklinga. Hann er misvirkur eftir tímabilum, er ýmist virkur eða í hléi. Snemmgreining sjúkdómsins er mikil væg. Því minni skaði sem sjúkdómurinn veldur gerir það líklegra að hægt sé að halda honum niðri og lifa með honum eðlilegu og góðu lífi. Erfitt getur verið að greina sjúkdóminn. Hann er oftast greindur af gigtarlæknum.
Á Íslandi eru 200-300 manns greindir með rauða úlfa. Gigtarfélag Íslands starfrækir áhugahóp um rauða úlfa. Hópurinn veitir jafningjastuðning sem er mikilvægur fyrir fólk sem greinist með sjúkdóminn. Hópurinn er með lokaðan hóp á „Facebook“ þar sem hægt er að spjalla og spyrja spurninga eða miðla upplýsingum, en einnig hefur hópurinn reglulega fundi þar sem fólk getur hitt aðra í sömu stöðu og rætt málin. Hægt er að komast í samband við hópinn á skrifstofu félagsins.
Á blaðsíðum 12 til 16 í 1. tbl Gigtarinnar 2021, tímaritsins okkar, má lesa nánar um sjúkdóminn. Hlekkurinn er þessi.