Árlegur vitundardagur vefjagigtar er í dag

12. maí 2022


Vefjagigt er langvinnur sjúkdómur eða heilkenni sem samanstendur af fjölmörgum einkennum frá hinum ýmsu líffærakerfum. Helstu einkenni eru langvinnir og útbreiddir verkir frá stoðkerfi, almennur stirðleiki, yfirþyrmandi þreyta og svefntruflanir. Önnur algeng einkenni eru órólegur ristill, ofurnæm þvagblaðra, fótapirringur, kuldanæmi, dauðir fingur, dofi í útlimum, bjúgur, minnkandi kraftur, úthaldsleysi, minnisleysi, einbeitingarskortur og depurð. Svo nokkuð sé nefnt. Algengi vefjagigtar er ekki staðfest en á Íslandi er talið að allt að tólf þúsund Íslendingar séu haldnir honum. Vefjagigtin hrjáir fólk á öllum aldri, börn, ungmenni, fólk á miðjum aldri og gamalt fólk. Mest er algengið meðal kvenna á miðjum aldri. Á síðustu árum hefur áhugi á sjúkdómnum aukist og rannsóknum fjölgað. Úræði eru því miður ófullkomin enn í dag sem er miður því vefjagigt skerðir vinnufærni, færni fólks til daglegra athafna og dregur verulega úr lífsgæðum fólks. Með bættu aðgengi að sálfræðiþjónustu telur Gigtarfélagið skilvirkni þeirra úrræða sem fyrir eru muni aukast til muna. Með aukinni þekkingu og snemmtækri þjónustu verður unnið á sjúkdómnum eða sjúkdómsástandinu eins og sumir læknar kjósa að nefna vefjagigtina. Fyrsta tölublað Gigtarinnar 2010 var þemablað um vefjagigt. Þar eru góðar greinar um sjúkdóminn og enn í fullu gildi. Hlekkurinn á blaðið er  hér