1. tölublað 2016
Í þessu tölublaði Gigtarinnar má finna grein sem Gerður Gröndal, lyf- og gigtarlæknir, skrifaði um meðgöngu og gigtarsjúkdóma. Hún fer þar yfir áhrif meðgöngu á gigtarsjúkdóma og öfugt, áhrif gigtarsjúkdóma á meðgöngu. Hún fer einnig yfir það hvaða lyf má nota á meðgöngu og hvað ber að varast. Einnig fjallar hún um ýmis atriði sem skipta máli fyrir þær konur sem eru með gigt og eru að huga að barneignum.
Dr. Kristján Steinsson og Dr. Björn Guðbjörnsson skrifa um stofnun Rannsóknarstofu í gigtarsjúkdómum. Rannsóknarstofan átti 20 ára afmæli í október sl. og fjallar greinin um stofnun hennar, hina fjölbreyttu starfsemi sem þar fer fram, ávinning í rannsóknum á gigtsjúkdómum og margt fleira.
Reynslusagan er ekki af verri endanum. Guðrún Guðlaugsdóttir, blaðamaður, tók viðtal við Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur, okkar frábæru söngkonu sem sló í gegn í Eurovision-keppninni árið 2009. Jóhanna Guðrún hefur verið með gigt frá unga aldri og segir frá sjúkdómnum og hvernig meðgangan gekk fyrir sig verandi með slæma gigt.
Greinin frá iðjuþjálfun Gigtarfélagsins fjallar um mikilvægi þess að geta séð um athafnir daglegs lífs og þar á meðal atvinnu. Þar er einnig fjallað um vinnustaðaathuganir sem eru einmitt í boði hjá iðjuþjálfun Gigtarfélags Íslands.
Önnur grein Gerðar Gröndal í þessu blaði fjallar um gigtarlækningar sem vaxandi sérgrein á tímum gífurlegra framfara. Þar fer hún yfir þróun gigtarlækninga, störf gigtarlækna, þær framfarir sem átt hafa sér stað undanfarna áratugi og einnig fjallar hún aðeins um Félag íslenskra gigtarlækna.
Greinar frá áhugahópum og landshlutadeildum Gigtarfélagsins eru á sínum stað auk greinar um Evrópuráðstefnu EULAR í Búlgaríu sl. vor, en Ingibjörg Magnúsdóttir fór þangað og skrifaði grein um það sem fram fór.