Upplestur rithöfunda hjá Gigtarfélaginu – Á vegum Leshóps GÍ

4. desember 2017

Leshópur Gigtarfélags Íslands hefur fengið til sín rithöfundana Friðgeir Einarsson og Kristínu Steinsdóttir og munu þau lesa upp úr bókum sínum þriðjudaginn 5. desember klukkan 13:30.  Upplesturinn er í fundarsal Gigigtarfélagsins á 2. hæð að Ármúla 5.

Friðgeir les úr bók sinni „Formaður húsfélagsins“. Maður flytur í blokkaríbúð systur sinnar á meðan hann kemur undir sig fótunum. Þetta átti að vera tímabundin ráðstöfun en fyrr en varir er húsfélagið lent á hans herðum. Formaður húsfélagsins fjallar um samlíf ókunnugra, nauðsynlegt viðhald fasteigna og margslungið tilfinningalíf íbúa fjölbýlishúsa.

Kristín les úr bók sinni „Ekki vera Sár“. Allt sitt líf hefur Imba verið á þönum en nú er hún komin á eftirlaun, frí og frjáls. Börnin eru flogin, skyldurnar að baki og nýtt æviskeið fram undan. Loksins gefst tími til að láta draumana rætast. En eiginmaðurinn á líka sína drauma, kannski ekki þá sömu og hún . . .

Upplesturinn fer fram í fundarsal Gigtarfélagsins á 2. hæð að Ármúla 5. 
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.