Ritgerðarsamkeppni

6. júlí 2022

EULAR Edgar Stene ritgerðarsamkeppnin 2023

„Hvernig betri samskipti við lækninn minn bættu líf mitt með gigtarsjúkdóm“

Evrópusamtök gigtarfélaga EULAR, standa árlega fyrir ritgerðarsamkeppni þar sem umfjöllunarefnið tengist gigtarsjúkdómum og lífi fólks með gigt. Markmið samkeppninnar er að auka vitund um gigtar- og stoðkerfissjúkdóma, svo og auka stuðning og þátttöku samfélagsins í starfsemi gigtarfélaga.
Gigtarfélögin efna hvert fyrir sig til samkeppni í sínu heimalandi, velja eina ritgerð og senda til dómnefndar EULAR sem velur að lokum bestu ritgerðirnar. Gert er ráð fyrir að dómnefnd EULAR skili niðurstöðum í mars 2023.

Samkeppnin er kennd við norðmanninn Edgar Stene, einn af stofnendum norska gigtarfélagsins. Hann stofnaði sjóð sem er í vörslu EULAR og stendur fyrir þeim veglegu verðlaunum sem eru í boði.
Fyrstu verðlaun í ritgerðarsamkeppninni árið 2023 eru 1.000 evrur, innifalinn er ferðastyrkur vegna verðlauna afhendingar og boð á EULAR ráðstefnukvöldverð í maí 2023. Önnur verðlaun eru 700 evrur og þriðju verðlaun 300 evrur.

Þátttakendur og ritgerðarefni
Með milligöngu Gigtarfélags Íslands er öllum fullorðnum (18 ára og eldri) boðin þátttaka í EULAR Edgar Stene ritgerðarsamkeppninni.
Undanskilið þátttökurétti er fagfólk tengt gigtsjúkdómafræðum eða fólk sem starfar hjá íslenskum eða alþjóðlegum stofnunum er að gigtarmálefnum koma.

Fólk með gigt er hvatt til að skrifa ritgerð um sína persónulegu reynslu af ritgerðarefninu „Hvernig betri samskipti við lækninn minn bættu líf mitt með gigtarsjúkdóm“ og skulu þátttakendur leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hver er reynsla þín af samskiptum við lækninn þinn? - Hvers vegna eru góð samskipti þér mikilvæg?
  • Hversu mikilvægt er fyrir þig að tala opinskátt við lækninn þinn um allt sem veikindin varðar?
  • Finnst þér læknirinn þinn skilja þig og taka þig alvarlega? – Er nægur tími í viðtölum? – Hvernig nást góð samskipti?
  • Hvert er hlutverk sjúklings í árangursríkum samskiptum? – Hefurðu einhverjar ábendingar sem þú vilt deila með öðrum sjúklingum?
  • Notaðu tækifærið og segðu frá væntingum þínum, vonum og framtíðarsýn um hvernig samskipti við lækna gætu batnað.

Reglur um ritgerðina
Aðeins skal vera einn höfundur að hverri ritgerð.
Ritgerðinni skal skilað til Gigtarfélagsins á íslensku.
Ritgerðin má ekki vera lengri en tvær vélritaðar síður í leturgerðinni Arial (12 punkta), með einföldu línubili og hæfilegri spássíu. Ritgerðinni skal skilað á word-formati (.doc eða .docx), - ekki er heimilt að skila á .pdf formi.
Efni ritgerðarinnar verður að vera frumsamið og má ekki hafa verið gefið út eða birst áður opinberlega.

Skilafrestur til Gigtarfélagsins
Ritgerðinni skal skilað til Gigtarfélags Íslands í síðasta lagi 4. janúar 2023 og verður ekki veittur framlengdur frestur.
Skal ritgerðin send á netfangið gigt@gigt.is merkt "Stene samkeppnin".

Ritgerðinni þarf að fylgja:
Fullt nafn og kennitala, heimilisfang, netfang og símanúmer höfundar.
Nokkrar stuttar setningar um höfundinn, svo sem aldur, starf, fjölskylduhagi, búsetustað og áhugamál (upplýsingarnar kunna að verða notaðar til að kynna höfundinn ef ritgerðin verður valin til útgáfu).
Ljósmynd af höfundi í góðri upplausn (.jpg)
Stutt yfirlýsing um samþykki til útgáfu ritgerðarinnar. (Komist ritgerð í verðlaunasæti dómnefndar EULAR færist útgáfuréttur til skipuleggjenda samkeppninnar, höfundur verður beðinn að skila undirrituðu samþykki þar að lútandi).

Ef einhverjar spurningar vakna er velkomið að hafa samband við skrifstofu Gigtarfélagsins í síma 530-3600 eða með pósti á netfangið gigt@gigt.is.

Nánari upplýsingar um Evrópusamtök gigtarfélaga EULAR og EULAR-ráðstefnuna sem verður 31. maí 2023 má finna á www.eular.org