Alþjóðlegi gigtardagurinn 12. október 2019

12. október 2019

Í dag er Alþjóðlegi gigtardagurinn. Um heim allan leggja gigtarfélög áherslu á slagorðið „Don´t delay, connect to day“ eða í staðfærðri mynd „Ekki fresta, af stað í dag“. Að baki er sú staðreynd að snemmgreining gigtarsjúkdóma og rétt viðbrögð við þeim skipta öllu. Það kemur í veg fyrir skemmdir af völdum sjúkdómanna og eykur þannig lífsgæði fólks með gigt og stoðkerfisvanda. Öll félög Evrópu sem taka þátt í baráttunni við gigtina, félög lækna, félög annarra fagaðila innan gigtsjúkdómafræðinnar og félög sjúklinga vinna í anda þessa. Fræða, setja fram helstu kröfur um bætta heilbrigðisþjónustu og annað sem skiptir gigtarfólk máli. Margir tengja aðgerðir í þessum anda í dag við vinnustaðinn og almenna atvinnuþátttöku. Aðrir draga fram einstök mál sem brenna á gigtarfólki í hverju landi fyrir sig. Biðlistar eru vandamál á Íslandi.

Algengi gigtarsjúkdóma

Gigtarsjúkdómar eru fjölmargir. Sjúkdómsgreiningarnar eru yfir 200 og fimmti hver maður er að fást við afleiðingar þeirra. Nærri 70.000 íslendingar á öllum aldri eru í þeim sporum. Á hverju ári greinast 12 til 15 börn með alvarlegan gigtarsjúkdóm hér á landi.

Gigtarfólk er öflugt á vinnumarkaði

Rannsóknir sýna að hlutfall gigtarfólks á vinnumarkaði, einkum fólks á aldrinum 50 til 67 ára er mun hærra á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Hér er þó lítið og lélegt stoðkerfi sem styður fólk til aðlögunar vinnustaðar. Víða um Evrópu tengja félögin við slagorðið „Ekki fresta, af stað í dag“ aðlögun vinnustaða og vinnu að aðstæðum og þörfum gigtarfólks. Hér á landi er mikil þörf fyrir slíkt.

Biðlistar

Bið eftir sérfræðilæknum, bið eftir aðgerðum innan heilbrigðiskerfisins hér á landi er allt of löng og mun lengri en í samanburðarlöndum okkar. Bið eftir gigtarlækni er 3 til 7 mánuðir, bið eftir bæklunarlækni er 7 til 8 mánuðir og bið eftir liðskiptaaðgerð er 7 til 8 mánuðir. Biðtími eftir liðskiptaaðgerð hefst þegar bæklunarlækninum er náð. Fyrir gigtarsjúklinga er málið flóknara en þetta, því ekkert líffæri líkamans er óhult fyrir gigtarsjúkdómum. Biðlistar eftir hinum ýmsu sérfræðingum draga úr allri skilvirkni og lengja þann tíma uns rétt meðferð er ákveðin og á sér stað. Biðlistar í heilbrigðiskerfinu og snemmgreining gigtarsjúkdóma eru hlutir sem ekki eiga vel saman. Biðlistar vinna gegn árangri, draga úr skilvirkni og draga úr lífsgæðum fólks með gigtarsjúkdóma. Biðlistar eru bölvun.

Á Facebooksíðu okkar má sjá myndbönd dagsins.

Um alþjóðlega gigtardaginn 12. október

Í dag er haldið upp á daginn í 23. skipti. Þann 12. október 1996 ákváðu nýstofnuð alþjóðasamtök gigtarfélaga (ARI-Arthritis and Rheumatism International) á fyrsta aðalfundi sínum í Helsinki að halda alþjóðlegan gigtardag ár hvert. Mánaðardagurinn vafðist fyrir þinginu og leit úr fyrir að ákvörðunin næði ekki fram að ganga. Tillagan um dagsetninguna kom í blá lokin frá fulltrúa Íslands á fundinum. Tillagan var samþykkt af þorra aðalfundarfulltrúa. Markmiði hefur alltaf verið að vekja athygli á málefnum gigtarfólks og þeim vanda sem gigtarsjúkdómum fylgja. Frá árinu 1997 hefur 12. október verið haldinn hátíðlegur. Starfsemi ARI fjaraði út á næstu árum en þá tók bandalag evrópskra félaga í baráttunni við gigtarsjúkdóma (EULAR) verkefnisstjórn að sér. Dagurinn er hátíðardagur í hugum gigtarfólks.