Vöðvagigt, vefjagigt og vöðvabólga?

Spurning:

Ég tel mig vera með vöðagigt. Er vöðvagigt það sama og vefjagigt?

Svar:

Það er erfitt að svara þessari spurningu afdráttarlaust játandi eða neitandi því að svolítið er á reiki hvaða orð eða heiti eru notuð yfir hlutina. Yfirleitt eru þessi heiti notuð yfir mismunandi vandamál sem eiga þó ýmsa þætti sameiginlega.

Vöðvagigt er oftar kallað  vöðvabólga. Þá er um að ræða óeðlilega spennu í vöðvum á ákveðnu svæði með tilheyrandi verkjum og stífni. T.d. getur vöðvabólga í herðum og hálsi valdið miklum verkjum og þreytu í herðunum og jafnvel höfuðverk. Þetta ástand er oft auðvelt að laga með réttri þjálfun, betri líkamsstöðu og bættri vinnuaðstöðu s.s. að draga úr einhæfu álagi.

Vefjagigt er heiti yfir heilkenni (syndrome) sem samanstendur af fjölmörgum einkennum, bæði líkamlegum og andlegum. Helstu einkenni eru langvarandi dreifðir stoðkerfisverkir morgunstirðleiki, óeðlileg þreyta og svefntruflanir. Eins má nefna órólegan ristil, nála­dofa, bjúg á höndum, kvíða, depurð og einbeitingarskort o.fl. Meðferð við vefjagigt er oft flókin og erfið en mestu skiptir að taka á svefnvandamálum og stunda reglulega þjálfun.

Best er fyrir þig að tala við lækni; heimilislækni eða gigtarlækni, og fá greiningu á þínu vandamáli og afla þér síðan viðeigandi upplýsinga og meðferðar út frá því.

Með kveðju, Gigtarlínan