Vefjagigt og mataræði

Spurning:

Geturðu gefið mér góð ráð um matarræði fyrir vefjgigtarsjúklinga.

Svar:

Það hefur ekki verið sýnt fram á með rannsóknum að ákveðið mataræði breyti miklu um vefjagigtina.

Margir með vefjagigt lýsa því þó að þeir séu verri af gigtinni ef þeir borði ákveðnar fæðutegundir en það virðist einstaklingsbundið hvað hver og einn þolir illa. Mestu skiptir að borða fjölbreytta fæðu og þar er ágætt að fylgja ráðleggingum Lýðheilsu­stöðvar um mataræði sjá vefsíðu  www.lydheilsustod.is .

Það er þó þekkt að mataræði hefur áhrif á líðan fólks og því rétt að hafa eftirfarandi í huga ef það hjálpar í baráttunni við vefjagigtina:

  1. Ef þú ert yfir kjörþyngd þá er rétt að reyna að létta sig. Þú færð upplýsingar um kjörþyngd og ráðleggingar um mataræði við megrun á vef Lýðheilsustöðvar.
  2. Þeir sem eiga það til að safna á sig bjúg ættu að skoða hvort saltneyslan hafi áhrif á bjúginn. Athugið að salta ekki yfir mat sem búið er að salta fyrir, borða lítið af saltríkum matvörum eins og hangikjöti, saltkjöti, saltstöngum, kartöfluflögurm, poppkorni og öðru nasli og reyna að nota ekki meira af salti, saltríku kryddi, kjöt­krafti oþh en er í uppskriftum. Það er hægt að nota grænmeti, ávexti og ýmislegt saltlaust krydd til að bragðbæta matinn.
  3. Góður svefn er mjög mikilvægur fyrir fólk með vefjagigt. Örvandi efni eins og t.d. koffín og gínseng halda fólki frekar vakandi og hafa því neikvæð áhrif á svefninn. Kaffi, te, kóladrykkir og drykkir sem innihalda örvandi efni ætti því að neyta í hófi sérstaklega á kvöldin.
Kveðja, Gigtarlínan.