Vefjagigt, offita og meðganga

Spurning:

Mig langar að spyrjast fyrir varðandi barneignir og heilsufar mitt. Ég er mjög feit, með háan púls, háan blóðþrýsting og nýgreind með vefjagigt sem ég er ansi slæm af. Ég hef nú ekki alltaf verið svona blómleg, þyngdist mjög mikið á og eftir meðgöngu, en við eigum rúmlega tveggja ára barn, áður var ég í fínu formi, reyndar mjög góðu. Okkur hjónin langar að eignast fleiri börn og því spyr ég: Er of mikil hætta á fylgikvillum á meðgöngu fyrir mig s.s. meðgöngueitrun, heilablóðfall, hjartaáfall o.s.frv. til að líkami minn þoli meðgöngu ef ég létti mig ekki áður en ég hef meðgöngu með annað barn.

Það er varla að ég vilji vera að bíða með barneignir vegna aldurs míns en hvað ráðleggur þú í stöðunni?


Kveðja

Svar:

Það er aukin hætta á aukaverkunum á meðgöngu þegar blóðþrýstingur er hár. Því er mikilvægt að þú ræðir þetta við lækninn þinn. Mikilvægt að það sé fylgst vel með blóðþrýstingi alla með­gönguna og notuð blóðþrýstingslækkandi lyf ef þarf. Það er meiri hætta á háum blóðþrýstingi við offitu, þess vegna er alltaf mikilvægt að léttast og sjá hvort það hafi áhrif á að lækka blóð­þrýstinginn. Nauðsynlegt er að gera átak og ná þyngdinni niður, það er ekki æskilegt að fara í stranga megrun eftir að meðganga er hafin. Ákjósanlegt er að vera kominn inn í nýtt mynstur a.m.k. 6 mánuðum fyrir meðgöngu. Eiginleg megrun á meðgöngu er alls ekki holl hvorki fyrir móður né barn en mikilvægt er að þyngjast ekki óeðlilega mikið á meðgöngunni.

Verkir, þreyta, slen og svefntruflanir eru aðaleinkenni vefjagigtar og of mikil líkamsþyngd getur haft bein eða óbein áhrif á þessa þætti.

Raunverulega má segja að sama meðferðin eigi við hvað varðar vefjagigtina og ofþyngdina á meðgöngunni - hreyfing, hollt mataræði og regla á máltíðum, jafnvægi milli hvíldar og hreyfingar og góður svefn.

Til að takast á við vefjagigt þarf að þekkja sjúkdóminn vel en ekki síður að þekkja sjálfan sig vel.  Til að ná árangri þarf að ná stjórn á aðstæðunum, frumkvæði og sjálfstjórn eru lykilatriðin.

Það er í raun ekkert sem mælir á móti því að kona með vefjagigt geti ekki gengið í gegn um eðlilega meðgöngu því sem og áður eru það hreyfing, hollur matur, góður svefn og almennt heilbrigt líferni sem gildir. Engu að síður er ástæða til að setjast niður og íhuga nokkra þætti:

  • Hvernig var líðan þín á síðustu meðgöngu
  • Hvernig var líðan þín eftir fæðingu:  þunglyndi, erfiðleikar, lítill stuðningur,einangrun, tækifæri til að komast út og hugsa um þig sjálfa.
  • Hvaða stuðning fékkst þú áður og hver er hann í dag
  • Núna þarf að hugsa um tvö börn 

Meðganga er ákveðið álag fyrir líkamann og því hverri konu hollt að vera vel á sig komin á meðgöngunni.  Þetta er þó alls ekki alltaf raunin og samt fer allt vel í flestum tilfellum. Best er þó að hefja markvissa líkamsþjálfun vel áður en meðganga hefst. 

Hafa skal í huga að meðganga kvenna með vefjagigt er oft ekki helsta vandamálið. Oft er það frekar tíminn eftir meðgöngu sem verður vandamál.   Nú hefur bæst nýr einstaklingur í fjöl­skylduna og um fleiri að hugsa.  Þarna skiptir sköpum að nægur stuðningur sé til staðar frá föður og öðrum í fjölskyldunni.  Það er vel þekkt að aukið álag og spenna veldur því að einkenni vefjagigtar versna.  Það er því þessi tími sem er hættulegastur fyrir nýbakaða móður sem er með vefjagigt.

Gangi þér vel.

Kveðja, Gigtarlínan.