Liðagigt í blóði?

Spurning:

Nú nýlega var ég greindur með slitgigt og fékk lyfið Celebra við því en jafnframt sagði læknirinn mér að ég hefði liðagigt í blóði. Hvað þýðir það að hafa liðagigt í blóði og er eitthvað sem ég get gert til að halda þessu í skefjum, til dæmis með breyttu mataræði?

Svar:

Við slitgigt nægir yfirleitt nákvæm sjúkrasaga og læknisskoðun til að greina sjúkdóminn, einnig röntgenrannsóknir en þar sjást oft einkennandi breytingar. Við greiningu á slitgigt eru engar sértækar blóðrannsóknir til.

Við að greina ýmsa aðra gigtsjúkdóma eru notaðar blóðprufur. Í blóðprufunum geta komið fram svokallaðir jákvæðir gigtarþættir sem geta þá bent til bólgusjúkdóms s.s. iktsýki sem stundum var nefnd langvinn liðagigt.

Yfirleitt er ekki talað um að hafa liðagigt í blóði. Miklu skiptir að þú talir aftur við þinn lækni eða gigtarlækni og fáir nánari útskýringar á hvað um er að ræða. Hvort einungis sé um að ræða slitgigt eða hvort blóðprufur hafi sýnt fram á einhvern annan gigtsjúkdóm og þá hvern. Meðferð s.s. lyfjameðferð getur verið breytileg eftir sjúkdómum og því mikilvægt að hafa rétta greiningu.

Varðandi mataræði getum við bent á grein á heimasíðunni okkar um mataræði og iktsýki undir flokknum Líf og heilsa. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á að breytt mataræði breyti framgangi gigtsjúkdóma en breytt mataræði getur mögulega haft áhrif á líðan. Aukin tíðni hjarta- og æðasjúkdóma sést hjá þeim sem hafa iktsýki og getur hollt mataræði haft heilmikið að segja til að fyrirbyggja þá sjúkdóma. Hægt er að nálgast bæklinginn “Ráðleggingar um mataræði og næringarefni-fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri” og fleiri upplýsingar á vefnum www.lydheilsustod.is.

Með kveðju, Gigtarlínan.