Hvað er Spondyloysis?

Spurning:

Mig langaði að forvitnast um hvort þið gætuð sagt mér hvað spondylolysis (hryggjarliðslos) er, hvort þið gætuð útskýrt það aðeins, og líka hvaða lækning er til við þessu.

með fyrirfram þökk...

Svar:

Spondylolysis er notað yfir skemmd sem verður á hryggjarlið, langoftast neðsta liðnum í mjóbakinu. Það verður rof í beinboga sem er hluti af hverjum hryggjarlið. Þessi beinbogi myndar aftari hluta hryggjarliðsins. Það verður því rof milli fremri og aftari hluta hryggjarliðisins

Orsök er ekki fyllilega þekkt en ein kenning er sú að þarna hafi orðið brot jafnvel á barns-eða unglingsaldri sem síðan hefur ekki náð að gróa..

Þetta getur verið ein orsök bakverkja en þó er ekki alltaf að fólk hafi einkenni vegna þessa.

Meðferðin sem hefur mest að segja er þjálfun til að styrkja bolvöðva og auka stöðugleika hryggjarins. Læra að beita sér rétt til að minnka álag á hrygginn. Sjúkraþjálfun hentar oft mjög vel.

Bólgueyðandi lyf geta verið nauðsynleg til að minnka verki. Bakbelti geta hjálpað til að gefa stuðning. Ef ekkert af þessu hjálpar getur þurft í einstaka tilfellum að gera aðgerð á hryggnum.

Með kveðju, Gigtarlínan