Hver er munurinn á fjölvöðvagigt og vefjagigt?

Spurning:

Góðan daginn. Ég hef mikið leitað á doktor.is að fjölvöðvagigt, en ekkert fundið. Fæ upp í staðinn vefjagigt. Mig langar að vita hvort það sé sama gigtin sem um er að ræða og ef svo er ekki hver er þá munurinn og hvernig er fjölvöðvagigt greind? t.d. í blóðprufum? of hátt sökk eða hvað?

Er hægt að sjá í blóðprufu að ég sé með fjölvöðvagigt, þá á ég við með því að sökkið hjá mér er of hátt? Og önnur spurning, er hægt að sjá fleiri gigtartegundir með því að sökkið sé of hátt?

Kveðja, ein sem leitað hefur mikið.

Svar:

Fjölvöðvagigt er ekki það sama og vefjagigt. Fjölvöðvagigt (polymyalgia rheumatica), er algengust hjá þeim sem eru eldri en 50 ára. Oft eru verkir og stirðleiki um háls, handleggi, axlir og mjaðmir. Morgunstirðleiki er áberandi. Þessum sjúk­dómi fylgir venjulega hækkað sökk í blóðinu, en það gefur til kynna að einhversstaðar í líkamanum er bólga af einhverjum orsökum. Einnig getur fylgt þessu hiti lystarleysi og almennur slappleiki. 20% þeirra sem hafa fjölvöðvagigt þróa slagæðabólgur sem lýsa sér með höfuðverk, sjóntruflunum og verkjum í kjálka. 

Til að greina fjölvöðva­gigt þarf fyrst að útiloka aðra sjúkdóma sem valda sökk hækkun og svipuðum einkennum. Er það gert með ýmsum sérhæfðum blóðprufum, líkamsskoðun og öðrum rannsóknum s.s röntgenmyndum, ómunum og fleiru. Þessir sjúkdómar eru t.d. aðrir gigtarsjúkdómar (iktsýki, rauðir úlfar, hryggikt o.s.frv.), illkynja sjúkdómar, bakteríu- og veirusjúkdómar. 

Meðferð við fjölvöðvagigt felst í steragjöf í töfluformi og svarar sjúklingur oftast slíkri meðferð mjög fljótt og verður þá gjarnan alveg einkennalaus. Sterameðferðin þarf oftast að standa í a.m.k. 1-2 ár og nær þá sjúklingurinn bata. Stundum tekur sjúkdómurinn sig upp aftur og þarf þá að endurtaka meðferðina

Vefjagigt (fibromyalgia) er fyrst og fremst sjúkdómur ungra kvenna og er kynja­hlutfallið 1 karl vs. 5 konur. Aðaleinkennin eru langvinnir verkir sem eru dreifðir um líkamann og finna má sérstaklega auma bletti við líkamsskoðun. Höfuðverkur, morgun­stirðleiki, óeðlileg þreyta og svefntruflanir eru algeng vandamál. Eins má nefna órólegan ristil, náladofa, bjúg á höndum, kvíða, depurð og einbeitingaskort.  Greining sjúkdómsins byggist fyrst og fremst á lýsingu sjúklingsins og líkamsskoðun.  Yfirleitt er skoðunin eðlileg fyrir utan aumu blettina sem tengjast vöðvafestum og eru dreifðir um ákveðna staði líkamans. Yfirleitt eru allar blóðrannsóknir, þ.á.m. sökk eðlilegar og sömu sögu má segja um allar aðrar rannsóknir.

Meðferðin byggir á að bæta svefninn og nauðsynlegt er fyrir sjúklinginn að stunda líkamsþjálfun til að rjúfa verkjavítahringinn. Þó eru ekki nema um 50% sjúklinga sem fá bót sinna meina. Lyf önnur en geðdeyfðarlyf (sem bæta svefninn) virðast lítið gagn gera. Engar vefjaskemmdir eiga sér stað en einkennin geta verið langvinn og erfitt að meðhöndla þau.

Orsakir Fjölvöðvagigtar og vefjagigtar eru óþekktar.  Getgátur eru um sýkingar sem ákveðnir einstaklingar svari á þennan hátt. Oft má rekja upphaf vefjagigtar til svefn­truflana, langvarandi andlegs álags eða streitu, s.s erfiðrar meðgöngu/fæðingar og slyss.

Með kveðju, Gigtarlínan.