Hvað er hlaupagigt?

Spurning:

Gigt sem hleypur á milli liða. Mér hefur verið sagt að það kallist hlaupagigt.

kveðja

Svar:

Nafnið hlaupagigt finnst hvorki í orðabók Blöndals né Menningarsjóðs, en Guðmundur Hannesson nefnir hlaupagigt í bók sinni “Íslensk læknisfræði heiti” og segir sama og fluggigt sem lýst er í Lækningabók Jónassens 1884. Jónassen lýsir fluggigt sem bráðri liðagigt sem hleypur á milli liða og kemur lýsing hans best heim og saman við þann sjúkdóm sem við köllum nú gigtsótt (febris rheumatica). Gigtsótt er einn af þeim fáu gigtarsjúkdómum sem á sér þekkta orsök (streptokokkar), sem eru penicillinnæmir sýklar og því hefur gigtsóttinni verið útrýmt að mestu hér á landi. 

Í seinni tíð hefur nafnið hlaupagigt verið notað um sjaldgæfan gigtarkvilla, palindromic rheumatismus, sem hleypur líka á milli liða. Þetta eru gigtarköst sem koma oftast í einn lið í einu, standa stutt, frá nokkrum klukkutímum uppí nokkra daga, og endurtaka sig á vikna til mánaða fresti. Í um helming tilfella vitum við ekki hvað veldur og köstin halda áfram óbreytt, en í 15% tilfella hverfa þau, restin þróast yfir í einhvern langvinnan gigtarsjúkdóm, oftast iktsýki og verður þá að meðhöndla sem slíkan.

Með kveðju, Gigtarlínan.