Hver eru tengsl gigtar og veðurs?

Veðrið er allt í kringum okkur og hefur áhrif á hið daglega líf með einum eða öðrum hætti, s.s. hvað varðar klæðaburð, ferðalög, vinnu og frístundir. Eftir að hafa rannsakað alþýðlegar veðurspár í nokkur ár í MA rannsókn minni í þjóðfræði við Háskóla Íslands og rekist á fjölmörg dæmi af reynslu fólks af því að geta spáð í veðrið, stendur ein aðferðin upp úr. Hún snertir allar þær fjölmörgu sögur af gigtarsjúklingum sem gátu/geta fundið það á líkama sínum þegar veðrabreytingar eru í vændum. Í þessari grein ætla ég stuttlega að fjalla um slíkri reynslu sem er síður en svo ný af nálinni.

Fáar lýsingar eru jafn áþreifanlegar og sjá má í Íslenzkum þjóðháttum Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili:

Þá er það algengt, að menn finni það  á sér, ef einhver veðrabrigði eru í

vændum, helzt íhlaup, stormur eða rigning eða stórhríðar. […] Þá ískrar og

ólmast gigtin, einkum í gamla fólkinu, og lætur ekki undan, fyrr en veðrið

er skollið á.

Slík vísindi hafa gjarnan verið tekin með ákveðnum fyrirvara í vísindasamfélaginu og greinar hafa birtst reglulega þar sem sambandið á milli veðurs (loftþrýstings, úrkomu og hitastigs) og eymsla vegna slitgigtar hefur verið kannað. Niðurstöður þeirra rannsóknar hafa sömuleiðis annað hvort andmælt þessu sambandi ellegar staðfest það. Á Íslandi voru á árum áður gerðar sambærilegar rannsóknir þar sem þetta samband var rannsakað og var það dr. Helgi Tómasson yfirlæknir á Kleppi sem stýrði einni slíkri en hann féll frá áður en niðurstöður lágu fyrir. Þá skrifaði Björn L. Jónsson veðurfræðingur og læknir grein í tímaritið Veðrið árið 1959 þar sem hann segir frá þessu sambandi veðurs og gigtar og hvernig ýmsir aðrir kvillar létu á sér kræla þegar loftþrýstingur væri fallandi, svo sem botnlangaköst og höfuðverkjaköst, auk þess sem sjálfsvíg séu tíðari við slíkar aðstæður.

Til eru einnig ýmsar lýsingar frá fyrstu hendi þar sem fólk lýsir sínum eigin þjáningum eða annarra. Í mínum rannsóknum hef ég í miklu mæli stuðst við lýsingar fólks sem svaraði spurningaskrá þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands við spurningaskrá númer 32 árið 1975, auk skráar númer 110 sem ég sendi út frá sömu stofnun árið 2009 og fjalla þær báðar um veðurspár að fornu og nýju. Lýsingarnar eru oftar en ekki þannig að fólk finnur fyrir óþægindum áður en illviðri eða kuldi lætur á sér kræla, stundum á undan votviðri og aðrir töldu að slík næmni væri fyrst og fremst fyrir norðanáttum. Sumir segja að verst sé þegar gigtin fer í mjöðm, læri og bak en einnig kemur fram að það er ekki einungis gigtin sem magnast upp á undan veðrabreytingum heldur magnast upp ýmsar aðrar kvalir og kenndir, svo sem tannpína, drungi og leti. Einn heimildarmaður þjóðháttasafns sagðist aldrei hafa fundið fyrir verkjum af þessu tagi en hinsvegar notaði hann konu sína sem viðmið, því að í austanátt og miklum raka var hún áberandi slæm auk þess sem hann gat séð það á tiltekinni stöðu á barómeti sínu hvenær henni leið hvað verst. Hann var semsagt ekkert að spyrja konuna sína hvernig henni leið, heldur barómetið! Af þessu má sjá að margir hafa kynnst einhverskonar breytingum á líkama sínum sem þeir tengdu meðal annars við veðrabreytingar. En slíkt er enn í umræðunni í dag. Sumir hómópatar veita til að mynda gigtarsjúklingum sínum remedíuna „dulcamara“ ef gigt versnar við það að veðrið verður kalt og rakt. Þannig lifir þessi þekking ágætu lífi í einhverri mynd.

Náið samband manns og náttúru birtist því með þessu móti og væri í raun nauðsynlegt að safna saman lýsingum fólks og upplifunum markvisst. Sú vinna myndi bera með sér mikilvægt heimildagildi, enda má heyra á reynslusögum fólks með gigt þar sem það lýsir ástandi sínu á undan tilteknum verðabrigðum, ákveðna viðvörun sem fólk áttar sig misvel á: Líkaminn finnur fyrir breytingum sem einkennast af sársauka, skapbreytingum og sleni, áður en breytingar á veðrinu eiga sér loks stað.

Í október 2012 fékk ég að sitja fund með Vefjagigtarhópi Gigtarfélags Íslands. Þar ræddum við um samspil veðurs og gigtar að fornu og nýju. Áhugavert var að heyra lýsingar fólks á þessu fyrirbæri og hvernig sami sársaukinn, stirðleikinn og þjáningin virðist þjá fólk í dag rétt eins og þegar orð Jónasar frá Hrafnagili hér að framan voru rituð eftir fólki sem lifði á þarsíðustu öld. Það segir mér að mikilvægt er að skapa vettvang fyrir fólk til að tjá sig um þetta efni, að áhrif veðurs á líkamleg einkenni séu virt og á fólk sé hlustað af enn meiri virðingu og áhuga.

Höfundur greinar er Eiríkur Valdimarsson, þjóðfræðingur

Birt í Gigtinni 2. tbl. 2012