Svefn og gigt

Björn Guðbjörnsson gigtarlæknir.

Um það bil þriðjungi mannsævinnar er varið í svefn. Góður svefn er forsenda vellíðanar. Ekki einungis magn svefnsins - hve lengi við sofum, heldur einnig gæði svefnsins - hversu vel við sofum, eru skilyrði góðs svefns. Stór hluti gigtsjúklinga telur sig fá of lítinn svefn. Algengast er að sjúklingar með hryggikt og Sjögrens sjúkdóm sofi illa, en einnig sjúklingar með rauða úlfa og liðagigt hafa ónógan svefn miðað við heilbrigða einstaklinga. Rannsóknirnar hafa einnig sýnt, að sjúklingar með Sjögrens sjúkdóm og hryggikt, hafa hvað mesta erfiðleika við að sofna vegna vöðvaspennings, fótapirrings og kvíða, á meðan verkur truflar nær helming allra gigtsjúklinga við að ná ró og komast inn í fyrstu stig svefnsins. Einungis 10% frískra telja að verkur trufli upphaf svefnsins.

Um það bil þriðjungi mannsævinnar er varið í svefn. Góður svefn er forsenda vellíðanar. Ekki einungis magn svefnsins - hve lengi við sofum, heldur einnig gæði svefnsins - hversu vel við sofum, eru skilyrði góðs svefns. 

Í byrjun 5. áratugs þessarar aldar hófust vísindalegar rannsóknir á svefnvenjum og svefntruflunum fólks. Svefninn hefur þó ætíð verið umhugsunarefni manna og má vitna til Hávamála, en þar segir m.a:  

Ósvinnur maður

vakir um allar nætur

og hyggur að hvívetna.

Þá er móður

er að morgni kemur

allt er víl sem var. 

Svefnrannsóknir

Á síðustu áratugum  hafa möguleikar til rannsókna á svefngæðum manna stóraukist. Þar hefur komið til nákvæm skráning á heilastarfsemi, vöðvavirkni og augnhreyfingum í svefni. Geta má þess að á Íslandi hafa þessar rannsóknir verið í fararbroddi og íslenskt hönnunarfyrirtæki, þróað hugbúnað fyrir þessar rannsóknir, sem þekktur er um víða veröld. Með hjálp fullkomins tækjabúnaðs má fá nákvæma mynd af svefni hvers einstaklings og nefnist sú skráning Polysomnography. 

Svefn arkitetktur

Svefnskráning (polysomnography) skiptir svefninum í fimm stig (sjá mynd 1): 

Stig 1. Hér hefur einstaklingurinn fulla meðvitund, en er lagstur til hvíldar. 

Stig 2. Stutt tímabil í upphafi svefnsins þegar meðvitundarstig lækkar, en viðkomandi skynjar vel umhverfi sitt. Litla truflun þarf svo að þetta upphafsstig svefnsins raskist. Í þessu fyrsta stigi svefnsins hafa vöðvar enn ekki byrjað að slaka á. Þetta stig svefnsins tekur um það bil 5% af heildarsvefninum. 

Stig 3. Lengsta stig svefnsins (50%), einkennist af meðvitundarleysi og vöðvaslökun er orðin talsverð. Engar augnhreyfingar eiga sér stað á þessu stigi svefnsins.  

Stig 3 og stig 4.  Djúpsvefninn, þ.e.a.s. algjört meðvitundarleysi ríkir, en vöðvar hafa eðlilega vöðvaspennu og ekki verður vart augnhreyfinga. Þessi djúpi svefn tekur um það bil 20-25% af nætursvefninum og er hann talinn mikilvægasti hluti svefnsins m.t.t. hvíldar.  

REM svefn einkennist af mjög hröðum augnhreyfingum (REM þýðir rapid eye movements) og á sama tíma verður algjör vöðvaslökun í útlimavöðvum. Ef maður er vakinn úr REM svefni, upplifir viðkomandi að hann hafi verið vakinn í miðjum draumi, sem gerir að þetta kallast draumsvefn. Draumsvefninn byrjar um það bil 1-2 tímum eftir að sjúklingur hefur sofnað og kemur síðan með reglulegu millibili alla nóttina, með aukinni tíðni undir morgun. Draumsvefninn tekur um það bil 20% af nætursvefninum (mynd 1). 

Línurit um svefarkitetkur

Algengi svefntruflana

Svefntruflanir eru algengar, um það bil 16-18% af fullorðnum telja sig eiga í erfiðleikum með að sofna á kvöldin, en aðeins 2-4% fullorðinna hafa alvarlegar svefntruflanir, með of lítinn svefn, vakna endurtekið upp á nóttu og svefnþörf að degi. Vegna algengi svefntruflana er útilokað að rannsaka alla sem kvarta um svefnleysi með svefnskráningu (polysomnography), þar sem svefnskráning er bæði tímafrek og dýr  rannsókn. Svefnskráningu er hægt að gera í völdum tilfellum á Lungnadeild Vífilsstaðaspítala, Geðdeild Landspítalans og einnig er verið að koma á fullkominni aðstöðu til svefnrannsókna við Lyflækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. 

Spurningalistar

Það má einnig rannsaka svefntruflanir með ítarlegum spurningarlista, þar sem spurt er um svefnvenjur, svefnlengd og ýmsa þætti er hafa áhrif á nætursvefninn. Ítarleg spurningablöð af þessu tagi hafa oft á tíðum 80-90 spurningar um svefninn. Spurningablöð þessi eru talin áreiðanleg, enda hafa þau verið notuð í fjölmörgum rannsóknum á fullorðnum einstaklingum, bæði heilbrigðum og sjúkum. Höfundur þessarar greinar hefur rannsakað gigtarsjúklinga, sem þjást af hryggikt, iktsýki, rauðum úlfum og Sjögrens sjúkdómi með spurningalista og svefnskráningu (polysomnography). 

Svefntruflanir gigtarsjúklinga

Stór hluti gigtsjúklinga telur sig fá of lítinn svefn (mynd 2). Algengast er að sjúklingar með hryggikt og Sjögrens sjúkdóm sofi illa, en einnig sjúklingar með rauða úlfa og liðagigt hafa ónógan svefn miðað við heilbrigða einstaklinga. Rannsóknirnar hafa einnig sýnt, að sjúklingar með Sjögrens sjúkdóm og hryggikt, hafa hvað mesta erfiðleika við að sofna vegna vöðvaspennings, fótapirrings og kvíða, á meðan verkur truflar nær helming allra gigtsjúklinga við að ná ró og komast inn í fyrstu stig svefnsins. Einungis 10% frískra telja að verkur trufli upphaf svefnsins. 

Súlurit. Gigtarsjúklingar sem fá of lítinn svefn

Nætursvefn

Sjögrens sjúklingarnir og sjúklingar með hryggikt vakna oftast á nóttu og er það fyrst og fremst verkur sem truflar svefninn. Hafa ber í huga að þó að sjúklingar með rauða úlfa og iktsýki vakni ekki eins oft vegna verkja, en þá er þeir vakna liggja þeir oft lengi vakandi (meira en 30 mín.), sem hefur sín áhrif á næturhvíldina. Heilbrigðir einstaklingar vakna 4-8 sinnum á nóttu, en þá einungis augnablik, sem hefur óveruleg áhrif á gæði nætursvefnsins. 

Svefnþörf

Út frá upplýsingum sem eru fengnar úr fyrrnefndum spurningablöðum má reikna svefnskort sjúklinganna mælt í klukkustundum (sleep deficit = svefnþörf ( svefnlengd). Eins og fram kemur á mynd 3 eru það fyrst og fremst sjúklingar með Sjögrens sjúkdóm og hryggikt, sem hafa alvarleg merki um svefnskort mælt með þessari mælistiku. Sömu sögu má segja um sjúklinga með rauða úlfa og iktsýki, sem hafa einnig verulega skertan svefn.  

Súlurit um svefþörf í klukkustundum

Dagsyfja

Ónægur nætursvefn veldur því að sjúklingar vakna ekki úthvíldir að morgni, og þjást þeir þá oft af þreytu og syfju er á daginn líður. Margir gigtarsjúklingar fá sér  því hænublund á daginn. Mynd 4 sýnir einkenni að degi til, sem rekja má til svefntruflana hjá hinum fjórum sjúklingahópum miðað við heilbrigða. 

Tafla um einkenni

Hvenær skal meðhöndla

Það er mjög mikilvægt að beita öllum ráðum til að bæta svefninn og þar geta oft minni háttar breytingar á venjum fólks stórbætt gæði svefninn. Nefna má kaffidrykkju á kvöldin, breyttar kvöldvenjur með tilliti til sjónvarps og útvarps, bókalestur o.fl. Það er mikilvægt að svefnherbergi sé eingöngu notað til svefns, hvíldar og að njóta nærveru lífsförunauts. Eins og fram hefur komið er það oft verkur sem truflar upphaf svefnsins og veldur því að gigtarsjúklingar vakna að næturþeli. Það er því mikilvægt að íhuga, hvernig lina megi þrautir fyrir svefn. Þar eru ekki aðeins bólgueyðandi og verkjalyf sem geta komið að gagni, heldur einnig mörg húsráð.  

Ef almennar ráðleggingar duga ekki til og sjúklingur hefur enn verulegan vanda vegna svefntruflana sinna, t.d.

  • að heildarsvefntíminn er styttri en 6 tímar,
  • að það taki meira en 30 mín. að ná ró og gleyma sér á fyrsta stigi svefnsins,
  • að sjúklingur vakni upp fimm sinnum hverja nótt í lengri eða skemmri tíma,
  • að sjúklingur sé vakandi meira en 40 mín. að næturþeli,
  • þá er réttlætanlegt að reyna fyrir sér með einföld svefnlyf í samráði við lækni. 

Samantekt

Rannsóknir sýna að gigtarsjúklingar hafa verulegar svefntruflanir, bæði m.t.t. magns og gæða svefnsins. Þetta getur haft í för með sér alvarleg þreytueinkenni að degi. Það er því mikilvægt að vera á varðbergi gegn svefntruflunum og reyna með öllum ráðum að bæta svefn gigtarsjúklinga, svo að þeir séu betur til þess búnir að takast á við stirðleika og verk vegna gigtarinnar að degi til. 


Höfundur þakkar Maríu S. Ásgrímsdóttur fyrir ritarahjálp. 

Höfundur er doktor í gigtlækningum og sérfræðingur í almennum lyflækningum og gigtarsjúkdómum ásamt yfirlæknir Lyflækningadeildar Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.   Greinin var birt í 1.tbl. Gigtarinnar 1997.