Gigt og þreyta

Þreyta er meðal algengustu einkenna margra gigtsjúkdóma. Fólk talar um ólýsanlega þreytu, að vera fast í sporunum og nánast örmagna eða lamað af þreytu. Líkt og verkirnir sem fylgja gigtinni er þreytan óáþreifanleg og ekki mælanleg á hlutlægan hátt.

Þreytan gerir fólki erfiðara að kljást við verki eða einbeita sér og ýtir undir að fólk upplifi sig hjálparvana. Eins og verkir er þreytan oft fyrsta merkið um að eitthvað sé að.

Með því að forgangsraða, vanda valið á verkefnum og spara orkuna þína er hægt að draga úr þreytu og sinna flestum þeim verkefnum sem standa þér nærri.

Orsakir þreytu

Orsakir þreytu geta verið margar. Orsakir tengdar gigtinni eru til dæmis verkir, virkni í sjúkdómnum, depurð/þunglyndi tengd sjúkdómnum, streituupplifun, truflaður svefn vegna verkja, aukaverkanir lyfja, lélegt úthald og styrkur. Einnig þarf að útiloka aðrar mögulegar skýringar á þreytunni. Kæfisvefn, járnskortur, truflun á starfsemi skjaldkirtils, þunglyndi og sykursýki eru meðal þess sem getur valdið þreytu. Stundum þarf að leita lausna til þess að bæta svefn tímabundið með lyfjum og að meðhöndla verki, séu þeir að trufla svefn.

Líkamlegir og andlegir þættir, áhrif frá umhverfi

Líkamlegir og andlegir þættir og áhrif frá umhverfi geta haft áhrif á þreytuna. Umhverfisáhrif eins og mikill hávaði, breytingar á hitastigi og daglegt álag eins og umferðarþungi, mikið áreiti og óreiða/óskipulag í umhverfi þínu geta aukið þreytu. Leita skal allra leiða til þess að draga úr streitu í daglegu lífi, því að streita getur valdið því að þú vaknir oftar upp á næturnar. Þá er gott að reyna að draga úr hávaða, skipuleggja umhverfi þitt þannig að hægt sé að ganga að hlutum vísum, skipuleggja tíma þinn þannig að verkefni hrannist ekki upp og forðast að vera í umferðinni eða sinna erindum á mesta annatíma. Einnig er nauðsynlegt að læra bjargráð við aðstæðum sem valda streitu, svo sem að nota einhverja af þeim fjölmörgu slökunaraðferðum sem eru til.

Viðhorf þitt við hinum ýmsu aðstæðum sem upp koma skipta líka máli. Ótrúlega mikil orka fer í að bregðast illa við hlutum sem þú hefur kannski enga stjórn á, svo sem viðbrögðum annarra við þínum eigin veikindum, eða ergja þig yfir hlutum sem skipta margir ekki miklu máli.

Svefn og næring

Fullorðnir þurfa að meðaltali 7.5-9 klukkutíma nætursvefn. Í nútímaþjóðfélagi eru margir ekki að ná svo löngum nætursvefni. Ef dægurþreyta er mikil er ástæða til að skoða svefnvenjur þínar og yfirstíga freistinguna að vaka of lengi á kvöldin. Í lok dags er ágætt að sníða hegðun að því að undirbúa þig fyrir svefninn, svo sem ekki gera æfingar of seint að deginum, ekki borða þunga máltíð of seint og ágætt er að dempa ljósin og nota slökun eða hugleiðslu skömmu fyrir svefn til þess að draga úr streitu. Það flokkast einnig undir slæmar svefnvenjur að leggja sig lengi á daginn, leggja sig seint eða sofa langt fram eftir morgni.

Stutt slökun eða hvíldarstund yfir daginn getur líka dregið úr dægurþreytu og auðveldað þér að komast í gegnum daginn.

Einnig getur þú þurft að aðlaga virkni yfir daginn að sjúkdómseinkennum. Einkenni iktsýki eru oft meiri fyrri part dags en einkenni slitgigtar eru oft meiri seinni part dags.

Sveiflur í blóðsykri, of mikil koffínneysla, vökvaskortur og fleira geta aukið þreytu. Því getur gagnast að fara yfir næringu, hvenær við borðum og hvað við látum ofan í okkur.

Forgangsröðun

Ef orka og tími eru takmörkuð er sjálfsagt að forgangsraða verkefnum! Þú þarft að líta á orkuna sem auðlind sem þarf að varðveita fyrir mikilvægari verkefni. Því þarft þú stundum að afþakka verkefni/atburði sem hafa lítið mikilvægi en taka mikla orku frá þér. Með því að afþakka eitt verkefni verður mögulega til staðar orka fyrir eitthvað annað sem stendur hjarta þínu nær.

Stjórnendur sem ná árangri vita að þeir geta ekki gert allt sjálfir og kunna listina að deila verkefnum. Fræddu fjölskyldu og vini og biddu um hjálp. Flestallir vilja gjarnan hjálpa og kunna að meta það að fá skýr skilaboð. Þannig getur þú komið þér upp hópi hjálparfólks sem er tilbúið að hlaupa undir bagga eða taka að sér föst verkefni, svo sem að aðstoða við innkaup. Einnig er hægt að kaupa ákveðna þjónustu, svo sem þrif eða að bjóða fólki verkefnaskipti ef þér finnst erfitt að biðja um hjálp.

Hreyfing

Hreyfing er nauðsynleg. Með því að halda góðu þoli og styrk ræður líkaminn betur við verkefnin og þreytan verður minni. Einnig geta endorfínin sem myndast við þjálfun dregið úr þreytu. Rannsóknir sýna að flest gigtarfólk hreyfir sig mun minna en aðrir, en ekkert bendir til þess að hreyfing, jafnvel töluverð hreyfing, hafi slæm áhrif á gigtina sé hún rétt meðhöndluð.

Hreyfing með félaga slær tvær flugur í einu höggi, uppfyllir félagslega þörf og dregur úr þreytu með því að auka þol og styrk.

Bjargráð

Engir tveir eru eins – mörgum reynist vel að ræða við fagaðila til þess að leita lausna. Einnig getur verið gott að eiga áhugamál og geta dreift huganum frá sjúkdómnum sem veldur þreytunni.

Að hitta aðra í sömu sporum og miðla eigin reynslu og að læra af reynslu annarra er mörgum ómetanlegt.

Gott er að finna sér gefandi áhugamál, hafna neikvæðu áreiti og sækja frekar í jákvæðar aðstæður. Þá er einnig gott að setja sér raunsæ markmið og leiðir að þeim og að skipuleggja tíma sinn vel. Þannig er gott að dreifa verkefnum yfir daginn og yfir vikuna.

Stundum er erfitt að gera sér grein fyrir því hvað veldur mestu þreytunni. Þá getur hjálpað að halda dagbók nokkurn tíma þar sem skráð er virkni og þreyta.

Á þessu öllu má sjá að þreytan er flókið fyrirbæri sem erfitt er að henda reiður á. Mikilvægt er að reyna að áta sig á hvað veldur henni, taka á þeim orsökum sem hægt er að ráða við og læra að lifa með henni eins og kostur er.

Höfundur greinar er Hrefna Indriðadóttir, sjúkraþjálfari

Birt í Gigtinni 2. tbl. 2012