Sjúkraþjálfarinn ráðleggur

 Grein eftir Hrefnu Indriðadóttur og Sólveigu B. Hlöðvesdóttur, sjúkraþjálfara.

Hvernig draga má úr verkjum: Langvinnir verkir, sárir verkir, seyðingsverkir, álagsverkir, dreifðir verkir. Allt eru þetta einkenni sem flestir eða allir gigtarsjúklingar kannast við og geta haft mikil áhrif á allt daglegt líf, dregið úr starfsgetu og minnkað lífsgæði. Eðlilegt er að fólk leiti sér víða hjálpar til að draga úr verkjunum. Ýmis úrræði eru í boði, læknar ráðleggja með lyf, sjúkraþjálfarar nota margs konar aðferðir til að minnka verki og margir leita í óhefðbundnar meðferðir. Allt þetta getur hjálpað og getur verið nauðsynlegt en mestu skiptir þó hvað fólk gerir sjálft dags daglega til að hafa áhrif á verkina.

Langvinnir verkir, sárir verkir, seyðingsverkir, álagsverkir, dreifðir verkir. Allt eru þetta einkenni sem flestir eða allir gigtarsjúklingar kannast við og geta haft mikil áhrif á allt daglegt líf, dregið úr starfsgetu og minnkað lífsgæði.

Eðlilegt er að fólk leiti sér víða hjálpar til að draga úr verkjunum. Ýmis úrræði eru í boði, læknar ráðleggja með lyf, sjúkraþjálfarar nota margs konar aðferðir til að minnka verki og margir leita í óhefðbundnar meðferðir. Allt þetta getur hjálpað og getur verið nauðsynlegt en mestu skiptir þó hvað fólk gerir sjálft dags daglega til að hafa áhrif á verkina.

 • Gott er að reyna að átta sig á hvað í daglegu lífi hefur áhrif á verkina. Það getur verið erfitt að átta sig á því ef skoðaðir eru einstakir dagar en yfir lengri tíma má oft sjá ákveðin tengsl milli verkja og athafna.
 • Því er gagnlegt að halda nokkurs konar verkjadagbók þar sem verkjunum er gefin einkunn á skalanum 0-10 þar sem 0 eru engir verkir en 10 eru mestu hugsanlegu verkir. Einnig er skráð niður hvað var verið að gera viðkomandi dag. Þannig má oft sjá hvaða athafnir eru að hafa áhrif á líðan og síðan hægt að skoða hvaða úrbætur megi gera.
 • Oft má koma í veg fyrir verki með því að dreifa álaginu sem mest bæði yfir hvern dag og yfir vikuna. Einhæf vinna eða álag eykur líkurnar á verkjum þannig að gott er að skipta oft á milli verkefna eða breyta um vinnustöðu t.d. vinna til skiptis sitjandi eða standandi. Gott getur verið að fá fagaðila til að skoða og bæta vinnuaðstæður bæði heima og á vinnustað. Kennsla réttrar líkamsbeitingar og líkamsstöðu í starfi og leik bætir líðan.
 • Hafa má sem viðmið að ef verkir eru auknir lengur en í tvo tíma eftir athöfn gæti álagið hafa verið rangt, of mikið, of þungt eða of lengi unnið. Þetta má hafa í huga bæði í vinnu og við þjálfun. Þetta á ekki við um alla t.d. fá þeir sem eru með vefjagigt oft aukna verki daginn eftir athöfn. Þá þarf að skoða verkjasöguna til lengri tíma og fá nánari leiðbeiningar hjá sjúkraþjálfara.
 • Hreyfing hjálpar nær undantekningarlaust við verkjum og því nauðsynlegt að hreyfa sig reglulega. Mörgum hjálpar að gera liðkandi æfingar og teygjur áður en farið er fram úr á morgnana og áður en gengið er til náða á kvöldin. Langvarandi setur eða stöður geta valdið verkjum og því gott að hreyfa sig og liðka oft yfir daginn.
 • Nauðsynlegt er að finna þjálfun við hæfi og stunda hana reglulega, með áherslu á hreyfanleika, vöðvastyrk og úthald. Þjálfun þarf að vera nógu fjölbreytt og skemmtileg til að hún verði hluti af daglegu lífi en ekki bara kvöð. Mörgum vex í augum að koma sér af stað í þjálfun. Gott er að fá ráðgjöf og stuðning hjá sjúkraþjálfara til að finna hvað hentar, hvað þarf að leggja áherslu á og hvað ber að varast .
 • Gagnleg áhrif þjálfunar eru margvísleg. Við þjálfun framleiðir líkaminn endorfín sem deyfir verki og gefur vellíðan. Sterkir vöðvar styðja við slitna liði og hlífa þeim og minnka þannig hættu á verkjum. Sterkir vöðvar og gott úthald auðvelda manni að ráða við dagleg störf án verkja. Þjálfun hjálpar til við að halda réttri líkamsþyngd en ofþyngd eykur verki t.d. í slitnum hnjám og mjöðmum.
 • Slökun hjálpar við að draga úr verkjum. Verkir stafa oft af vöðvaspennu og með slökuninni dregur úr spennunni og þar með verkjunum. Í slökun er athyglinni beint að einhverju ákveðnu t.d. önduninni eða ánægjulegri upplifun þannig að verkjaskynjunin minnkar og vellíðan fæst í staðinn.
 • Miklu skiptir að stunda slökun reglulega til að hún gagnist sem best, árangurinn kemur með æfingunni.
 • Góður nætursvefn er nauðsynlegur. Því skiptir máli að leita allra leiða til að hvílast og sofa vel á nóttunni. Mjög algengt er að verkir trufli nætursvefn en truflun á nætursvefni eykur einnig verkjaupplifun þannig að vítahringur myndast sem mjög mikilvægt er að rjúfa. Þarna skipta fjölmargir þættir máli s.s. rúmið, koddinn og allt svefnumhverfi.
 • Margir gera sér ekki grein fyrir hvað hugarfar skiptir miklu máli varðandi verki. Neikvæðar hugsanir geta magnað verkina og því þarf að læra að bera kennsl á neikvæðu hugsanirnar og draga úr þeim.  Ef hugsað er jákvætt dregur það úr því mikilvægi sem lagt er á verkinn og þannig verður hann þolanlegri.  Skipulagning ánægjulegra viðburða og athafna, viðburðaríkt félagslíf og skemmtileg áhugamál geta dreift athyglinni frá verkjunum þannig að líðanin verði betri.  Oft þarf að velja áhugamál og athafnir eftir líkamlegri getu en þá er um að gera að nota hugmyndaflugið og jafnvel reyna eitthvað nýtt.
 • Mjög einföld og þægileg aðferð til að hafa áhrif á verki er að nota hita. Fara í heitt bað eða sturtu, fara í heita pottinn eða setja hitapoka eða bakstra á verkjasvæði. Margir nota hita til að koma sér í gang á morgnana en einnig til að draga úr verkjum fyrir svefn. Hitinn gefur vellíðan og slökun og dregur þannig úr verkjaupplifun. Ís getur einnig hjálpað og hentar einkum við mjög sárum verkjum.
 • Hjálpartæki gagnast oft til að hlífa liðum og draga þannig úr verkjum. Má þar nefna spelkur á hendur, hné eða ökkla, bakbelti eða stafi. Einnig eru í boði ýmis smáhjálpartæki sem hlífa liðum og auðvelda vinnu, heimilisstörf og annað. Má þar nefna ýmis eldhústæki með stærra gripi, sverari penna og griptöng fyrir þá sem eiga erfitt með að beygja sig. Ráðgjöf og upplýsingar um slík hjálpartæki má fá hjá sjúkraþjálfurum og iðjuþjálfum.

Góð þekking á sínum sjúkdómi, fylgikvillum hans og meðferð er hverjum einstaklingi mikilvæg. Fræðslu má nálgast víða. Fólk getur fengið upplýsingar hjá sínum  meðferðaraðilum s.s. sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa og lækni. Gigtarfélag Íslands býður upp á fjölbreytt fræðsluefni, fyrirlestra, námskeið og símaráðgjöf á Gigtarlínunni. 

Á heimasíðu félagsins, má finna ýmsan fróðleik og tengla inn á margar góðar innlendar og erlendar heimasíður. Innan félagsins eru starfandi 10 áhugahópar þar sem fólk miðlar af sinni reynslu og þekkingu m.a. um úrræði við verkjum.