Sjúklingaráðin 10

Öryggi sjúklinga er okkur mikilvægt á Landspítala.  Í því felst að sjúklingar  og aðstandendur þeirra fái örugga þjónustu,  í öruggu umhverfi,  veitta af heilbrigðisstarfsfólki sem leggur sig fram um að nota nýjustu þekkingu innan heilbrigðisvísinda.

Stefnumótun um þátttöku sjúklinga og aðstandenda í meðferð -  sjúklingafræðsla var unnin af þverfaglegri nefnd starfsmanna Landspítala, fulltrúa frá Háskóla Íslands og sjúklingasamtökum og síðan samþykkt í framkvæmdastjórn.  Eitt af þeim verkefnum sem bent er á í stefnumótuninni er að styðja og hvetja sjúklinga og aðstandendur þeirra til að axla ábyrgð og að vera virka í meðferð og ákvörðunum um hana.

Í markmiðslýsingu  (1.4) segir:  „LSH leggur sig fram um að styðja við fræðslu, sjálfsnám og virkni sjúklinga. Sjúklingar eru studdir til að hafa eftirlit með eigin meðferð og eru hvattir til gagnrýni“.  Í stefnumótuninni er lagt er til að átaksverkefnið „Tíu ráð fyrir sjúklinga“ verði innleidd á LSH.[1]

Hlutverk þitt -  sjúklingsins og aðstandenda

Sem sjúklingur getur þú aukið öryggi þitt og þeirrar þjónustu  sem þér er veitt á spítalanum með því að vera virkur og upplýstur aðili að meðferðarteymi þínu.  Upplýsingar um heilbrigði, sjúkdóma og meðferð geta verið flóknar og þér framandi.  Til að skilja betur hvað er að gerast með heilsu þína er mikilvægt að þú spyrjir heilbrigðisstarfsfólk spurninga um greiningu og meðferð þína og til hvers sé ætlast af þér í því sambandi.

Til að þú sért virkur aðili í meðferðarsambandi þínu við lækninn þinn, hjúkrunarfræðinginn eða annan heilbrigðisstarfsmanns þá er mikilvægt að þú:

  • Veitir heilbrigðisstarfsfólki réttar upplýsingar um heilsu þína og meðferð, t.d. varðandi þau lyf sem þú ert að taka inn.
  • Spyrjir meðferðaraðila þinn  spurninga og sért  viss um að þú hafir réttan skilning á ástandi þínu.  Mikilvægt er að þú  spyrjir ef þú ert í einhverjum vafa um  hvort þú hafir réttan skilning á greiningu eða meðferð þeirri sem þér er veitt.  Sem dæmi má nefna undirbúning fyrir rannsóknir, rétta inntöku lyfja eða áætlun um framtíðar meðferð.
  • Þekkir lyfin þín.   Mikilvægt er að þú fylgi leiðbeiningum varðandi lyfjatöku.  Röng lyfjameðferð getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu þína.

Sjúklingaráðin 10?

Sjúklingaráðin 10 eru hluti af hugmyndafræði um sjúklingamiðaða þjónustu sem byggir á gildum um virðingu, því að deila upplýsingum, samstarfi og samvinnu.[2]

Sjúklingamiðuð þjónusta  er grundvölluð á því að sjúklingar taki ábyrgð á sinni eigin heilsu,  allt sem gert er í heilbrigðisþjónustu sé út frá þörfum og vilja sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Heilbrigðisþjónusta er samstarfsverkefni heilbrigðisstarfsmanna og sjúklinganna sjálfra þar sem starfar teymi fólk með sjúklingnum til að ná bættri heilsu. Því er  mikilvægt að þú sem sjúklingur með stuðningi og aðstoð aðstandenda,  fáir allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að taka upplýstar ákvarðanir varðandi meðferð þína.  Það er best gert með því að samskipti þín við heilbrigðisstarfsfólk  séu markviss, þú veitir allar þær upplýsingar sem mikilvægar eru fyrir rétta ákvarðanatöku og að þú fáir  þær upplýsingar sem heilbrigðisstarfsfólk hefur til að vinna með. Með sjúklingaráðunum 10 er þér rétt hjálpartæki til að skipuleggja og undirbúa samskipti þín og aðstandenda þinna við heilbrigðisstarfsfólk.   

Ávinningur

Það að sjúklingar séu upplýstir og meðvitaðir um þá þjónustu sem þeir eru að fá, skilar betri meðferðarheldni þeirra sem leiðir til betri heilsu. Einnig má benda á betri nýtingu fjármuna bæði fyrir sjúklingana sjálfa og heilbrigðiskerfið í heild með því að koma í veg fyrir endurtekningar á rannsóknum og meðferð. 

Starfsfólk Landspítala fagnar áhuga sjúklinga og aðstandenda þeirra á því að taka virkan þátt í meðferð sinni og hvetur til þess að þeir undirbúi sig fyrir viðtöl og önnur samskipti við meðferðaraðila. Þannig taka sjúklingar meðvitaða ákvörðun um meðferð sína, byggða á upplýsingum sem liggja fyrir um kosti og galla þeirrar meðferðar sem í boði er.

Aukið samráð sjúklinga, aðstandenda hans og heilbrigðisstarfsfólks mun auka samfellda þjónustu og auka gæði þjónustunnar fyrir sjúklinginn. Því hvetjum við alla til að kynna sér vel sjúklingaráðin 10 og notfæra sér þau til leiðbeiningar í samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk. 

sjuklingaradin-10 

Höfundur Margrét Tómasdóttir
Gæðadeild Landspítalans[1] Stefnumótun um þátttöku sjúklinga og aðstandenda í meðferð- Sjúklingafræðsla 2008.  Landspítali. Brynja Ingadóttir o. fl.

[2]  Picker Institute,  Priniples of Patient-Centered Care.    http://pickerinstitute.org/

Birt í Gigtinni 2. tbl. 2011