"Gerðu eitthvað skemmtilegt"

Það að eiga sér tómstundaiðju og stunda hana er hluti af heilbrigðum lífsstíl. Með tómstundaiðju er átt við allar þær athafnir sem við gerum okkur til ánægju en ekki af því að við verðum. Dæmi um tómstundaiðju er lesa, spila, íþróttaiðkun, handavinna, hjóla, ganga, veiða, fara í bíó og/eða leikhús, garðyrkja og áfram væri lengi hægt að telja. Misjafnt er hvernig við lítum á þessa iðju þ.e. sumir hafa ánægju af að fara í fjallgöngur á meðan aðrir hafa af því atvinnu. 

Þegar fólk lendir í slysi eða greinast með langvinnan sjúkdóm s.s. gigt, parkinson og ms hefur það óneitanlega áhrif á alla þætti daglegs lífs. Einstaklingurinn á oft á tíðum erfitt með að sinna eigin umsjá, heimilishaldi, vinnu og tómstundaiðju vegna þess að líkamlegt úthald er ekki það sama og áður.

Tómstundaiðjan er í flestum tilvikum það fyrsta sem dettur upp fyrir. Einstaklingurinn velur ósjálfrátt það sem hann þarf að gera (skyldustörf) heldur en það sem er nærandi fyrir sálina (tómstundaiðja). Þetta er ekki meðvituð ákvörðun heldur hefur einstaklingurinn ekki sama úthald og áður og þegar búið er að sinna skyldustörfunum þá er ekki orka eftir til að stunda tómstundaiðjuna. 

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem stunda litla eða enga tómstundaiðju verða frekar þunglyndir og skortir þar með lífsgleði. Ávinningur þess að stunda tómstundaiðju getur birst á ýmsan máta til dæmis: 

  • eykur sjálfstraust
  • losar um spennu og reiði
  • þjálfar athyglisgáfu
  • þjálfar fín- og grófhreyfingar
  • þjálfar samhæfingu hugar og handar
  • þjálfar skynúrvinnslu
  • þjálfar aðlögunarhæfni
  • þjálfar styrk, hreyfifærni, jafnvægi og líkamlega getu

svo eitthvað sé nefnt. Mikill ávinningur er af því að  finna sér tómstundaiðju sem auðgar andann og stunda hana reglulega.  Þegar fólk glímir við langvinnan sjúkdóm er gott er að vita að í flestum tilvikum er hægt að aðlaga tómstundaiðju að getu hvers og eins. Með aðlögun er átt t.d. við að hækka upp beð í garðinum þannig að viðkomandi þurfi ekki að liggja á fjórum fótum við garðvinnuna heldur geti staðið eða jafnvel setið. Þeir sem vanir eru að lesa upp í rúmi, lesi í góðum stól með púða undir bókinni þannig að ekki þurfi að halda á henni meðan lesið er. Þeir sem prjóna velji frekar að nota grófa prjóna og garn heldur en fínt. Hægt er að breikka grip á áhöldum, nota spilahaldara þegar spilað er, fjaðurskæri til að klippa með og margt fleira. Ef fólk er í vandræðum með að finna lausnir er hægt að ræða við aðra fjölskyldumeðlimi og vini og sjá hvort þeir viti um einhver ráð og jafnvel getur verið gagnlegt að fá ráðgjöf hjá iðjuþjálfa um það hvernig hægt sé að finna farsæla lausn á því að stunda tómstundaiðju sína. Gleymum okkur ekki í skyldustörfunum, gerum eitthvað skemmtilegt inn á milli.

Lifum lífinu lifandi og höfum gaman af!

Heimildir

Southam, M., (2005). Leisure Occupations. Í H. M. Pendleton og W. Schultz-Krohn (ritstj.), Occupational therapy, Practice Skills for Physical Dysfunction (6. útg.) (bls 336-348). St. Louis: Mosby Elsevier.

Morgunblaðið, vefútgáfa http://www.mbl.is/smartland/frami/2013/05/28/notadu_hendurnar_og_gerdu_fint/ 

Höfundur greinar er Guðbjörg Guðmundsdóttir iðjuþjálfi

Birt í Gigtinni 1. tbl. 2013