Fæturnir í fyrirrúmi
Fæturnir eru undirstaða líkamans. Breytingar í uppbyggingu og starfssemi fótanna valda breytingum á líkamsstöðu og gangi, það getur leitt til verkja í fótum, herðum, höfði og æðakerfi.
Allt of margir hirða ekki fætur sína sem skyldi. Oft er þeim stungið ofan í allt of litla og þrönga skó, allt eftir því hvernig tískan er hverju sinni. Góð umhirða á fótum er heilsuvernd því fótamein hindra för og eykur á vanlíðan einstaklingsins.
Þegar við fæðumst eru 98% með heilbrigða fætur. Í fætinum eru 26 bein og 33 liðir. Þetta er bundið saman með 214 liðböndum og 38 sinum og vöðvum. Þess vegna ber okkur að hugsa vel um þessar tvær undirstöður okkar og velja skó sem eru fótvænir og dekra við fæturna. Í flestum tilfellum eru það skórnir sem valda vandamálum á fótunum.
Sumt fólk ber ekki næga virðingu fyrir fótum sínum. Það er eins og sumir haldi að það sé náttúrulögmál að hafa auma fætur. Meðfæddir gallar í fótum eru líka vandamál sem fólk er ekki frætt um í mörgum tilfellum t.d. barnaplattfótur, plattfótur og tábergssig og hvað er til ráða varðandi skekkjur í fótum.
Góð regla er að eftir tvítugt eigi fólk almennt að fara árlega og láta skoða á sér fæturna hjá fótaaðgerðafræðingi vegna þess að þeir koma oft auga á ýmislegt sem er að fara úrskeiðis og mætti laga á byrjunarstigi. Þannig mætti koma í veg fyrir ýmis fótamein sem þjá fólk.
Umhirða fóta
Almennt hreinlæti er nauðsyn til að viðhalda heilbrigði húðarinnar. Þegar fætur eru þvegnir skal nota venjulega baðsápu og volgt vatn. Nauðsynlegt er að fæturnir séu þerraðir vel, sérstaklega á milli tánna. Ef skilin er eftir raki á milli tánna er mjög mikil hætta á sveppasýkingu.
Það bætir ekkert að vera lengi í fótabaði, það gerir húðina gljúpa í fyrstu og síðan þurra sem eykur líkurnar á sárum og sprungum.
Húð
Með því að bera rakakrem á húðina eftir bað stuðlum við að því að hún haldist heilbrigð. Forðast skal að bera krem á milli tánna þar eð það svæði er nógu rakt fyrir. Ef um mjög þykka og harða húð er að ræða er ráðlegt að leita aðstoðar fótaaðgerðafræðings.
Neglur
Neglur haldast heilbrigðar ef þær eru klipptar eftir lögun tágómanna. Klipping einu sinni á 4-6 vikna fresti nægir venjulega.
Forðist að klippa niður með nöglunum eða að klippa þær of nálægt kviku. Þær eiga að veita tánum vörn. Ef tilfinningin er þannig að neglurnar nuddist í skóinn þarf það ekki að merkja að neglurnar séu of langar heldur er líklegt að skórnir séu of stuttir. Gott er að nota naglabursta til að hreinsa dauðar húðfrumur og óhreinindi meðfram nöglunum og bursta þá frá naglrót og fram með nöglinni.
Skór
Til að fótlíðan sé góð eru bestu skórnir þeir sem reimast að efstu brún ristar. Rými skal vera 1 cm frá lengstu tánni og að brún innan í skónum.
Við gang og þrýsting lengist fóturinn um 3 mm. Skórnir eiga að passa fyrir dreifingu fótanna. Efri hluti skósins á að liggja vel að ristarbeinum, reimar, teygja eða riflás á skóopnuninni eiga vera passlega stórar og mjúkar. Hælkappi á að veita stuðning og passa að lögun hælbeins.
Táhlutinn á að vera það breiður að tærnar liggi hlið við hlið og það hár að það verði ekki þrýstingur niður á neglurnar.
Innri kantur skósins að hafa sem beinustu línuna, þannig að stóratáin svigni ekki út yfir.
Sólinn á að beygjast við fyrsta tá lið því tærnar þurfa að bogna við gang. Hæð á hæl er æskileg 2-3 cm. Aðal tilgangurinn er að skórinn hafi rétta lögun og rétta uppbyggingu og sé mjúkur og sveigjanlegur. Slitnir og illa gengnir skór geta haft slæmar afleiðingar fyrir allt stoðkerfið. Of litlir, of þröngir og illa slitnir skór skapa mörg og slæm álagsmein eins og líkþorn, niður grónar neglur, harða húð, krepptar tær og tábergssig og verkjum í ökklum, hnjám, mjöðmum og baki.
Góðar ráðleggingar:
- Nógu breiðir skór þar sem fóturinn er breiðastur
- Nógu langir
- Sveigjanlegur skósóli
- Ekki of hár hæll
- Hælkappi á að veita góðan stuðning við hæl
- Gott að skipta um skó til að hvíla fætur
- Ekki þrönga sokka
- Ekki nota skó án hælkappa eða hælbanda til lengri nota eða gangs. Fótvöðvar eru stöðugt spenntir og eðlileg hreyfing getur ekki átt sér stað.
- Ganga er besta æfing fyrir fæturna.
- Nýir skór eiga að passa – ekki gangast til.
- Veldu sokka sem hæfa aðstæðum.
- Láttu mæla fæturna standandi, ef annar fóturinn er stærri veldu þá skóstærð í samræmi við stærri fótinn.
- Allt að 85% fótameina má rekja til óheppilegs skófatnaðar og harðs undirlags.
Vissir þú að löggiltur fótaaðferðafræðingur veitir heilbrigðisþjónustu sem miðar að því að viðhalda heilbrigði fótanna. Starf þeirra felst m.a. í því:
- Að meðhöndla niðurgrónar neglur t.d. með spöngum, meðhöndla líkþorn, vörtur,sprungur, harða húð , þykkar neglur og sýktar neglur
- Að veita faglega ráðgjöf t.d. varðandi skó, innlegg, filt og siliconstoðhlífar, stuðningssokka, fótaæfingar og krem.