Auðveldum okkur lífið

Þegar færniskerðing verður vegna gigtar þá eru líkur á að fólk þurfi að breyta aðferðum sínum til að geta tekist á við daglegt líf. Í iðju- og sjúkraþjálfun eru kenndar aðferðir til að endurskipuleggja daglegt líf með tilliti til færniskerðingar.  Í þessari grein er ætlunin að sýna nokkrar leiðir til að auðvelda athafnir daglegs lífs. Í henni er aðaláherslan lögð á athafnir er auðvelda okkur eldhússtörf. 

Val á áhöldum t.d. hnífapörum

Almennt er auðveldara fyrir einstaklinga með skertan kraft í höndum að nota áhöld með breiðu gripi.  Minni kraft þarf frá höndum til að halda utan um breitt skaft heldur en mjótt og því auðveldara að beita áhaldinu. Eins er gott að skaftið sé stamt t.d. úr gúmmí eða sílikoni þannig að áhaldið renni síður hendinni. Eins er betra áhöldin eru létt frekar en þung.  Á mynd 1 hér fyrir neðan er dæmi um hnífapör með breiðu skafti. 

Mynd-1Til eru hnífar sem ætlaðir eru fyrir fólk með skertan gripkraft.  Þannig hnífar eru með vinkilhaldi sem auðvelda fólki að skera niður t.d. matvæli. Eins og sjá Mynd-2má á myndinni til hægri er úlnliðurinn í mun betri vinnustöðu heldur en ef notaður er hefðbundinn hnífur (mynd fyrir neðan).  Vöðvakraftur nýtist betur og enn fremur er minna álag á fingurliði.

Mynd-3


Ekki er nóg að eiga áhöld með breiðu og góðu skafti heldur þarf að kunna að Mynd-4beita þeim rétt.  Hér á myndinni til vinstri má sjá ranga stöðu á úlnlið og fingrum. Best er að beita þverhandargripi við að hræra í potti. Á myndinni fyrir neðan má sjá hvernig þverhandargripi er beitt. Úlnliður og Mynd-5fingur eru í mun betri vinnustöðu. Flöskuopnari

Margir eiga í erfiðleikum með að opna flöskur með skrúftappa. Talsverðan kraft þarf í fingrum til að geta opnað flösku með skrúftappa með góðu móti. Með flöskuopnara eins og sést á myndinni færðu betra grip og getur notað lófann til að opna flöskuna frekar en að nota fingurna. Þannig er hægt að hlífa fingrunum.Mynd-6

Túpukreistari

Túpukreistari fyrir tannkrem og krem í túpum er snjöll lausn fyrir þá sem  eiga erfitt með kreista, talsvert minni kraft þarf fyrir hendina að nota þetta áhald.Mynd-7

Opnari fyrir dósir með flipa, t.d. túnfiskdós eða dós með gulum baunum.

Erfitt getur reynst að opna dósir með flipa. Bæði getur verið erfitt að ná taki á flipanum og að toga lokið af. Áhaldið á næstu mynd  auðveldar til muna að opna dós með flipa. Bæði er hægt að nota áhaldið til að ná upp flipanum og til að toga upp lokið.Mynd-8

Krukkuopnari og gúmmíhetta – ómissandi tvenna í eldhúsið

Mynd-9Krukkuopnari,
Áhaldið tekur loftið úr krukkunni þannig að auðveldara er að opna hana. 


Gúmmíhetta
Á myndunum tveimur fyrir neðan má sjá hvernig gúmmíhettan (sú bláa á neðri myndinni) bætir stöðu handarinnar og auðveldar gripið við að opna krukku. Í staðinn fyrir að setja allt álagið á litlu fingurliðina (efri myndin) þá notar maður allan lófann með gúmmíhettunni og nær þannig betra taki á krukkulokinu.Mynd-10Mynd-11

Grip fyrir innkaupapoka

Mynd-12Grip eins og sýnt er hér á myndinni er smeygt innan í höldurnar á pokum og getur til muna auðveldað burð á pokum. Gripið jafnar álagið á fingurna þannig að gripkraftur nýtist betur og kemur í veg fyrir að maður freistist til að bera pokan með tveimur fingrum. Einnig kemur gripið í veg fyrir að fingurnir kremjist saman og minnkar þannig álag á fingurliðina og dregur þannig úr hættu á verkjum. 

Flest áhaldanna sem sýnd eru hér, fást í Eirberg eða Stoð. Samantekt þessi og ráð munu vonandi nýtast til að létta lífið við hinar ýmsu athafnir daglegs lífs.

Guðbjörg Guðmundsdóttir, iðjuþjálfi

Þórunn Haraldsdóttir, sjúkraþjálfari

Birt í Gigtinni 2. tbl. 2013