Mataræði og iktsýki
Grein eftir Kolbrúnu Einarsdóttur, næringarfræðing. Birt í Gigtinni 2003.
Trúin á að mataræði lækni eða bæti líðan fólks hefur löngum búið með okkur mönnum. Því er ekki öðruvísi farið með gigtarsjúkdóma en löngum hefur fólk með þá sjúkdóma leitað leiða til að lækna eða bæta líðan sína með ýmsu mataræði. Gigtarsjúkdómar eru margir og ekki hægt að reikna með að sama mataræði bæti líðan fólks með mismunandi gigtarsjúkdóma. Flestar rannsóknir síðustu ára hafa beinst að tengslum mataræðis og iktsýki (liðagigtar) og í þessari grein er fjallað um það sem komið hefur fram á því sviði síðustu áratugi.
Trúin á að mataræði lækni eða bæti líðan fólks hefur löngum búið með okkur mönnum. Því er ekki öðruvísi farið með gigtarsjúkdóma en löngum hefur fólk með þá sjúkdóma leitað leiða til að lækna eða bæta líðan sína með ýmsu mataræði. Gigtarsjúkdómar eru margir og ekki hægt að reikna með að sama mataræði bæti líðan fólks með mismunandi gigtarsjúkdóma. Flestar rannsóknir síðustu ára hafa beinst að tengslum mataræðis og iktsýki (liðagigtar) og mun ég í þessari grein fjalla um það sem komið hefur fram á því sviði síðustu áratugi.
Tengsl mataræðis og iktsýki
Í nokkrum faraldsfræðilegum rannsóknum hefur komið fram að mögulega sé minni tíðni iktsýki í þjóðfélagshópum þar sem fiskneysla er mikil eða mikil neysla á einómettuðum fitusýrum eða mikil ávaxta- og grænmetisneysla. Í rannsóknum á tengslum mataræðis og iktsýki sést að sumir verða betri af sínum sjúkdómseinkennum með breyttu mataræði. Jákvæð áhrif eru þekkt við föstu og með inntöku lýsis eða omega-3 fitusýra. Þá hefur mismunandi grænmetisfæði virst geta bætt líðan margra og einnig fæði sem líkist því sem Miðjarðarhafsbúar borða. Í öllum þessum rannsóknum er ekki um lækningu á sjúkdómnum að ræða heldur fyrst og fremst betri líðan og virðast nokkrir einstaklingar hafa meira gagn af að breyta mataræðinu en aðrir. Þá vilja sumir meina að hægt sé að minnka lyfjaskammtana sem notaðir eru við að meðhöndla iktsýkina ef fylgt er ráðleggingum um mataræði. Ástæðan fyrir batnandi sjúkdómseinkennum er ekki þekkt en rannsóknir beinast að fitusýrum í fæðunni, ýmsum efnum í grænmeti og ávöxtum og áhrifum mataræðis á þarmaflóruna. Flestar rannsóknirnar sem gerðar hafa verið standa yfir í stuttan tíma frá 2 mánuðum og upp í 1 ár en í dag vantar meira af langtímarannsóknum sem styðja þessar niðurstöður.
Hvað með fæðuofnæmi?
Það hefur lengi verið þekkt að fasta bætir líðan sjúklinga með iktsýki. Vandamálið er bara að einkennin koma um leið og farið er að borða aftur og engan veginn er hægt að meðhöndla sjúkdóminn með föstu þar sem allir þurfa að nærast eðlilega. Þar sem margir ofnæmisvakar úr fæðunni hverfa við föstu héldu margir að möguleg orsök fyrir iktsýkinni væri fæðuofnæmi. Rannsóknir sem gerðar hafa verið til að sýna fram á tengsl iktsýki við fæðuofnæmi hafa ekki getað staðfest þessi tengsl. Tíðni fæðuofnæmis virðist svipuð hjá iktsýkissjúklingum og hjá öðru fólki. Komið hefur fram að einstaka sjúklingar hafa gagn af að forðast ákveðna matvöru til að bæta líðan sína. Mjög misjafnt er hvaða matvörur er þá um að ræða og oft eru þessir einstaklingar með sögu um ofnæmissjúkdóm fyrir.
Fiskfita hjálpar
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á tengslum iktsýki og fiskfitu. Þykir orðið nokkuð ljóst að aukin neysla á omega-3 fitusýrum sem eru í lýsi og feitum fiski bætir líðan margra. Orsökin er talin vera samkeppni milli fitusýra sem eru forverar ýmissa bólgumyndandi efna og hormóna í líkamanum. Omega-3 fitusýrur mynda ákveðinn hóp af þessum efnum og omega-6 fitusýrur annan hóp en sömu efnahvata þarf til myndunar þessara efna frá fitusýrunum. Aukið hlutfall omega-3 fitusýra minnkar myndun bólgumyndandi efna frá omega-6 fitusýrum en þau hafa meiri bólgumyndandi áhrif í líkamanum.
Magn fiskfitu
Ekki hefur verið sýnt fram á að orksökin fyrir betri líðan sjúklinga sem taka inn lýsi sé þessi og er því verið að skoða fleiri möguleika. Magnið af omega-3 fitusýrum sem gefið er í þessum rannsóknum er yfirleitt á bilinu 2,6 - 6 g á dag, hærri skammtar gáfu ekki betri árangur. Þessir skammtar samsvara því að taka inn um 15 - 35 ml af þorkalýsi. Stærri skammturinn (35 ml) gefur um 30 μg af D-vítamíni, sem er um það bil þrefalt stærri skammtur en ráðlagður dagsskammtur af þessu vítamíni. Mikilvægt er að taka ekki inn D-vítamín í öðru formi ef fólk tekur inn svona stóra skammta af þorskalýsi. Eðlilegra er að ráðleggja fólki að taka inn 15 ml (1 msk) af þorskalýsi á dag og hafa í huga að borða fisk í aðalrétt minnst þrisvar í viku. Gott er að leggja áherslu á að borða ekki eingöngu magran fisk en hafa einnig feitan fisk eins og t.d. lax á borðum og nota fiskálegg á brauð á hverjum degi. Þannig eykur fólk fiskfituneysluna á eðlilegan hátt.
Breytingar á mataræði
Nokkrar rannsóknir sýna árangur af að breyta mataræði yfir í grænmetisfæði en mjög misjafnt er í þessum rannsóknum hvaða tegund af grænmetisfæði er prófað og því oft erfitt að bera þær saman. Þá hafa rannsóknir sem birtar hafa verið á þessu ári þar sem fólk með iktsýki er látið borða fæði sem líkist fæði Miðjarðarhafsbúa einnig gefið jákvæð áhrif á sjúkdómseinkenni. Þar er áherslan lögð á að velja magrar mjólkur- og kjötvörur, hafa fisk oft á borðum, nota rapsolíu (canola oil) eða ólífuolíu í staðinn fyrir smjörlíki, smjör, matarolíu eða aðra feiti og smjörlíki ríkt af þessum olíum notað til að smyrja brauðið. Allt kex eða kökur er bakað með ólífu- eða rapsolíu. Einnig er lögð áhersla á að borða vel af grænmeti og ávöxtum og að drekka te. Kenningar um orsök fyrir betri líðan á grænmetisfæði og einskonar Miðjarðarhafsfæði beinast að spurningum um áhrif aukinnar neyslu af grænmeti og ávöxtum og þar með ýmissa andoxunarefna á sjúkdómsástand.
Þarmaflóran
Einnig beinast rannsóknir að breytingum á þarmaflóru sem verða vegna breytinga á mataræði og að breytingum á fitusýrusamsetningu. Rannsóknir á áhrifum einstakra vítamína, steinefna og ýmissa annarra efna í grænmeti og ávöxtum hafa ekki getað sýnt fram á einhlít jákvæð áhrif og ekki fundist neitt ákveðið efni sem hafi áhrif á sjúkdóminn. Það er því ekki full ljóst hvers vegna aukin grænmetis- og ávaxtaneysla hefur mögulega áhrif á iktsýkina, en þar getur mikilvægi margra efna sem hafa samverkandi áhrif haft eitthvað að segja eða áhrif trefja á þarmaflóruna. Rannsóknir hafa sýnt að þarmaflóran hjá iktsýkissjúklingum er ekki sú sama og hjá heilbrigðum. Kenningar hafa því verið upp um að ofnæmisvakar frá þarmaflórunni hafi áhrif á sjúkdóminn. Sést hefur breyting á þarmaflórunni við mataræðisbreytingar og það er því einn af mörgum þáttum sem skoða þarf sem orsakavald fyrir betri líðan. Breyting getur orðið á fitusýrusamsetningu fæðisins þegar breytt er frá venjulegu fæði yfir í grænmetisfæði og Miðjarðarhafsfæði stuðlar einnig að breytingum á fitusýrusamsetningu. Talið er að aukið hlutfall einómettaðra fitusýra í fæðunni hafi áhrif á að minnka myndun bólgumyndandi efna en ekki eru allir sammála um þessar kenningar.
Takmarkanir rannsókna á mataræði
Rannsóknir á tengslum sjúkdóma og mataræðis eru á margan hátt erfiðar og ekki alltaf auðvelt að draga ályktanir þar sem erfitt er að fela breyttar matarvenjur fyrir fólki og mat á sjúkdómsástandi getur verið flókið. Erfitt getur verið að fá fólk til að taka þátt í rannsóknum þar sem krafist er verulegra breytinga á mataræði og þar með lífsstíl fólks. Margir vilja ekki taka þátt í slíkri rannsókn og því fækkar fólki verulega í úrtaki fyrir rannsóknina áður en hún hefst. Enn aðrir hætta við eftir að rannsókn er hafin, þar sem erfitt getur verið að lifa samkvæmt þeim reglum sem rannsóknin krefst. Hópurinn sem klárar rannsóknina getur því oft verið full fámennur og einsleitur og ekki nógu gott úrtak.
Platáhrif rannsókna
Komið hefur fram að þeir einstaklingar sem telja að breytingar á mataræði geti bætt líðan sína eru hlutfallslega stór hópur í svona rannsóknum sérstaklega þegar krafist er mikilla breytinga á mataræði. Þar með er hættan á svokölluðum platáhrifum orðin mikil, þar sem huglægt mat á einkennum og líðan verður jákvætt hjá þeim sem vænta góðs af breytingunni. Á sama hátt getur fólk sem lendir í viðmiðunarhópi og á ekki að gera neinar breytingar á sínu mataræði, fengið svokölluð neikvæð platáhrif. Hættan er að þeim finnist þeir versna af sínum einnkennum því þeir fengu ekki að gera neinar breytingar á mataræðinu. Þar sem erfitt er að fela mataræðisbreytingar getur þetta haft veruleg áhrif á gildi rannsókna og trúverðugleika.
Lokaorð
Óhætt er að segja að eitthvað hafi miðað í leitinni að tengslum milli mataræðis og iktsýki en þörf er á fleiri rannsóknum og þá ekki síst langtímarannsóknum til að skoða betur þessi tengsl. Einnig þarf að skoða betur hvort það séu eingöngu vissir einstaklingar sem hafa gagn af að breyta mataræðinu og ef svo er að reyna að skilgreina þann hóp. Ennþá er langt í land að hægt sé að fullyrða að ákveðið mataræði muni gefa fólki betri líðan og alls ekki hægt að segja að mataræði lækni sjúkdóminn. Þeir sem ákveða að breyta sínu mataræði og telja sig fá bót á sínum einkennum ættu alltaf að hafa lækninn með í ráðum við mat á einkennum og ekki minnka lyfjaskammta nema í samráði við hann. Rannsóknir á tengslum mataræðis og iktsýki benda til þess að fiskfita hafi áhrif á sjúkdómseinkenni með betri líðan. Mataræði þar sem dregið er úr neyslu mettaðrar fitu og matarolía sem rík er af einómettuðum fitusýrum notuð í staðinn fyrir aðrar olíur er einnig talið geta haft jákvæð áhrif. Þá sjást jákvæð tengsl við aukna neyslu grænmetis og ávaxta. Mataræði sem stuðlar að því að taka tillit til þessara þátta ætti ekki að vera svo erfitt að fylgja og hér á síðunni má sjá nokkur ráð sem rétt er að taka tillit til við val á mat og einnig er sýnt dæmi um matseðil. Hægt er að mæla með þessum breytingum á mataræði þar sem þessar ráðleggingar samræmast almennum ráðum varðandi hollt mataræði. Hærri tíðni hjarta- og æðasjúkdóma sést hjá iktsýkissjúklingum og hefur slík mataræðisbreyting einungis jákvæð áhrif á þann áhættuþátt.
Almenn ráð
Ekki er vitað hvort öll þessi almennu ráð um mataræði skipti máli til að öðlast betri líðan en fæði sem byggir á þessum grunni hefur sýnt sig að hafa jákvæð áhrif á líðan fólks með iktsýki.
1 msk þorskalýsi
Fiskmáltíð minnst 3svar í viku
Nota fiskálegg á brauð á hverjum degi með öðru áleggi
Velja magrar mjólkurvörur
Velja magrar kjötvörur
Nota raps- eða ólífuolíu við matreiðslu, í bakstur og í salatsósur
Nota smjörlíki ríkt af ólífu- eða rapsolíu á brauð
Borða vel af grænmeti og ávöxtum
Drekka te
Dæmi um matseðil:
Morgunverður: Léttsúrmjólk með múslí. Brauð. Ólífusmjör (olivio) eða létt og laggott með ólífuolíu. Álegg: Sardínur og léttostur. Ávöxtur og grænmeti. 1 msk þorkalýsi.
Morgunhressing: Ávöxtur.
Hádegisverður: Brauð. Ólífusmjör (olivio) eða létt og laggott með ólífuolíu. Álegg: skinka og síld. Grænmetissúpa eða ávaxtagrautur. Grænmeti.
Síðdegishressing: Jólakaka bökuð með raps- eða ólífuolíu. Brauð með sultu eða marmelaði.
Kvöldverður: Fiskur í ofni með grænmeti og 17% osti. Kartöflur. Soðnar gulrætur. Hrásalat. Salatsósa með raps- eða ólífuolíu.
Kvöldhressing: Ávöxtur.
Drykkir: Te, undanrenna, fjörmjólk eða vatn.
Heimildir
Kjeldsen-Kragh J. Rheumatoid arthritis treated with vegetarian diets. American Journal of Clinical Nutrition, Vol. 70, No. 3, 594S-600S, September 1999.
Skoldstam L, Hagfors L, Johansson G. An experimental study of a Mediterranean diet intervention for patients with rheumatoid arthritis. Ann Rheum Dis 2003;62:208-14.
K. L. Rennie, J. Hughes, R. Lang and S. A. Jebb Nutritional management of rheumatoid arthritis: a review of the evidence Journal of Human Nutrition & Dietetics
Volume 16 Issue 2 Page 97 - April 2003.