Mataræði og gigt

Grein eftir Kolbrúnu Einarsdóttur, næringarfræðing. Birt í Gigtinni 2009.

Mataræði sem byggir á ráðleggingum Lýðheilsustöðvar leitast við að hafa áhrif á tíðni ýmissa sjúkdóma í þjóðfélaginu og tryggja fólki góða næringu þannig að líkaminn fái það sem hann þarf og haldi sinni kjörþyngd. Margt bendir til þess að fæði byggt á þessum ráðleggingum sé einnig það mataræði sem henti fólki með gigtarsjúkdóma. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á mataræði og gigt eru gerðar á fólki með iktsýki eða liðagigt. Niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að val á fitutegund, regluleg fiskneysla og að borða vel af grænmeti og ávöxtum skipti máli varðandi einkenni og þörf á lyfjameðferð. 

Mataræði sem byggir á ráðleggingum Lýðheilsustöðvar leitast við að hafa áhrif á tíðni ýmissa sjúkdóma í þjóðfélaginu og tryggja fólki góða næringu þannig að líkaminn fái það sem hann þarf og haldi sinni kjörþyngd. Margt bendir til þess að fæði byggt á þessum ráðleggingum sé einnig það mataræði sem henti fólki með gigtarsjúkdóma. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á mataræði og gigt eru gerðar á fólki með iktsýki eða liðagigt. Niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að val á fitutegund, regluleg fiskneysla og að borða vel af grænmeti og ávöxtum skipti máli varðandi einkenni og þörf á lyfjameðferð. Tíðni hjarta- og æðsjúkdóma er hærri hjá gigtarsjúklingum svo ávinningur fólks með iktsýki að borða hollt mataræði er ekki eingöngu sá að hafa áhrif á einkenni sjúkdómsins heldur einnig að hafa áhrif á fylgikvilla eins og hjarta- og æðasjúkdóma.

Fiskolía

Margar rannsóknir sýna að neysla fiskolíu eða lýsis hefur jákvæð áhrif á sjúkdómseinkenni og virkni iktsýki. Lýsi inniheldur hátt hlutfall af löngum omega-3 fitusýrum. Magnið af omega-3 fitusýrum sem notað var í þessar rannsóknir var á bilinu 1,7-7,1 g á dag og sýndu þær nánast allar einhvern árangur. Stirðleiki á morgnana minnkaði, bólgnum liðum fækkaði, verkir og þreyta minnkuðu, aukinn gripkraftur fékkst og minna var notað af bólgueyðandi verkjalyfjum. Taka skal þó fram að ekki er hægt að lækna sjúkdóminn með því að taka inn lýsi. Ein rannsókn sýndi að með hollu mataræði sem innihélt minna af mettaðri fitu samtímis inntöku á omega-3 fitusýrum jukust jákvæðu áhrifin af að taka inn omega-3 fitusýrur.

Einómettaðar fitusýrur

Faraldsfræðilegar rannsóknir hafa sýnt mun á tíðni iktsýki í sumum Evrópulöndum. Lítil tíðni sést t.d. í Grikklandi miðað við sum önnur ríki í Evrópu. Sænsk rannsókn á fólki með iktsýki sýndi viss jákvæð áhrif af því að breyta mataræðinu yfir í fæði líkara því sem borðað er við Miðjarðarhafið. Fæði fólks sem býr í kringum Miðjarðarhafið einkennist af mikilli fiskneyslu, ólífuolía er notuð í matargerð og mikið er borðað af grænmeti og ávöxtum. Í þessari rannsókn var fólk látið nota ólífuolíu eða repjuolíu (canola oil) við matreiðslu, í bakstur og í salatsósur, en þessar olíur innihalda hátt hlutfall einómettaðra fitusýra. Viðbitið á brauðið innihélt einnig repjuolíu. Fólk var hvatt til að nota eingöngu magrar mjólkurvörur og nota vel af ávöxtum og grænmeti auk þess að drekka te. Viðmiðunarhópur gerði engar breytingar á sínu mataræði. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu minni bólgusvörun, aukna hreyfigetu og betri líðan í hópnum sem borðaði fæði líkt því sem Miðjarðarhafsbúar borða. Jákvæð áhrif voru mögulega talin koma vegna breytinga á fitusýrusamsetningu og vegna aukinnar neyslu á ýmsum andoxunarefnum frá grænmeti, ávöxtum og tei.

Afhverju skipta fitusýrurnar máli?

Menn hafa velt fyrir sér ástæðum þess að sjúkdómseinkenni minnka þegar hlutfall omega-3 fitusýra og einómettaðra fitusýra í fæði hækkar. Aðalástæðan er talin vera að minna myndast af bólgumyndandi efnum sem hafa áhrif á liðina. Efnaferlin fara aðrar leiðir þegar fitusýrusamsetning líkamans breytist. Fitusýruneyslan hefur einnig veruleg áhrif á samsetningu frumuhimna sem getur skipt máli varðandi ýmis efnaferli í líkamanum.

Omega-3 fitusýrur og mataræði

Hægt er að auka hlut omega-3 fitusýra með því að taka lýsi reglulega, borða feitan fisk eins og lax og silung einu sinni í viku og nota fiskálegg á brauð eins og síld, sardínur o.fl. Þá er einnig hægt að taka inn omega-3 fitusýrur sem fæðubótarefni. Samkvæmt rannsóknum er nóg að taka inn sem samsvarar um 2,5-3g af omega-3 fitusýrum á dag til að fá þessi jákvæðu áhrif. Meira magn hefur ekki meiri áhrif. 
Í töflu 1 má sjá innihald af löngum omega-3 fitusýrum í fiskolíum og fiskmeti. Úr 10 ml af krakkalýsi og 5 ml af omega-3 fiskolíu fást 3,1g af omega-3 fitusýrum og í 10 ml af þorskalýsi og 5 ml af omega-3 fiskolíu fást 2,7g. Einnig fáum við omega-3 fitusýrur frá feitum fiski eins og t.d. laxi og síld. Ef borðað er 120 g af soðnum laxi eða silungi vikulega og notað fiskálegg t.d. síld, sardínur og reyktur lax á tvær brauðsneiðar daglega fæst að meðaltali á bilinu 1-2 g af omega-3 fitusýrum á dag. Þannig að 10 ml af lýsi daglega og neysla á feitum fiski vikulega ásamt því að nota fiskálegg á brauð er einnig góð leið til að hækka hlutfall omega-3 fitusýra. Lýsið er auk þess mikilvægur D-vítamíngjafi og nauðsynlegur til að tryggja góða nýtingu á kalki. 

Mjög mikilvægt er fyrir alla gigtarsjúklinga að tryggja góða D-vítamín- og kalkinntöku en þetta er einn af þeim þáttum sem eru mikilvægir í að fyrirbyggja beinþynningu. Omega-3 fiskolía er án D-vítamíns og því nauðsynlegt að taka inn D-vítamínviðbót með henni ef ekki er tekið inn lýsi. Til að hækka hlutfall einómettaðrar fitu í fæðinu er auðveldast að nota ólífuolíu, repjuolíu (rapsolíu/canola oil) eða Ísíó 4 matarolíurnar við matreiðslu, í bakstur og í salatsósur. Þessar olíur innihalda hátt hlutfall einómettaðra fitusýra eins og sjá má í töflu 2. Fjölbreytni í mataræði er mikilvæg og þessar olíur innihalda t.d. mismikið magn af lífsnauðsynlegum fitusýrum og því getur verið gott að skipta um tegundir frekar en að nota alltaf sömu olíuna.

Grænmeti og ávextir

Jákvæð áhrif af neyslu grænmetis og ávaxta sjást í mörgum rannsóknum. Ástæðan er talin vera áhrif ýmissa efna bæði vítamína, steinefna og annarra hollefna sem við fáum ríkulega af í grænmeti og ávöxtum. Í mörgum rannsóknum á tengslum mataræðis og sjúkdóma kemur fram að það virðist skipta máli að fá þessi efni með ávöxtum og grænmeti frekar en að taka þau inn í töfluformi. Ráðleggingin að borða fimm skammta af grænmeti og ávöxtum á dag á vel við hvað varðar fólk með iktsýki. Bæklingurinn “Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri” frá Lýðheilsustöð gefur góðar ráðleggingar um hollt mataræði með áherslu á að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu (sjá www.lydheilsustod.is/naering).

Ofnæmi

Ekki hefur verið hægt að sýna fram á að ástæða fyrir iktsýki geti verið fæðuofnæmi. Þeir sem hafa iktsýki geta verið með fæðuofnæmi eins og aðrir í þjóðfélaginu. Fæðuofnæmi getur gert einkenni iktsýkinnar verri. Það er því mikilvægt fyrir þá sem hafa fæðuofnæmi að forðast alveg þá fæðu sem þeir hafa ofnæmi fyrir til að fyrirbyggja verri líðan.

Lokaorð

Rannsóknir á mataræði og áhrifum á sjúkdóma eru oft erfiðar og flókið að vinna úr þeim. Taka þarf tillit til margra þátta. Þegar fylgja á ráðleggingum um mataræði í rannsóknum reynist mörgum erfitt að fara eftir ráðleggingunum. Of stór hópur hættir þá jafnvel við í miðju kafi og alltaf viss hætta á að hópurinn sem eftir stendur sé of einsleitur. Oft fylgir þessum rannsóknum að fólk léttist meira í rannsóknahópnum en í samanburðarhóp og þá ekki alltaf hægt að álykta hvort betra ástand sé vegna þyngdartaps eða vegna breytinga á mataræði. Rannsóknir á mataræði og iktsýki eru einmitt erfiðar hvað þetta varðar. Eitt eru menn þó sammála um í dag útfrá þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið, að aukinn þáttur omega-3 fitusýra í fæði hefur jákvæð áhrif á ýmis einkenni iktsýkinnar og líðan fólks. Það er því mikilvægt að ráðleggja fólki að borða fisk tvisvar til þrisvar í viku og þá gjarnan feitan fisk einu sinni í viku, nota fiskálegg á brauð jafnt sem annað álegg og taka lýsi daglega.

Tafla 1.  Omega-3 fitusýrur í fiskmeti og fiskolíu

Skammtur g omega-3
Þorskalýsi 10 ml 1,6
Krakkalýsi 10 ml 2,0
Omega-3 fiskolía 5 ml 1,1
Lax 150 g 2,4
Bleikja 150 g 2,9
Rauðmagi 150 g 3,1
Síld 150 g 3,5
Marineruð síld 30 g 0,3
Reykt síld 30 g 0,7
Sardínur í tómat 30 g 0,8
Reyktur lax 30 g 0,4
Grafinn lax 30 g 0,5

Upplýsingar fengnar á heimasíðu Matís

Tafla 2. Fitusýrur

Fitusýrur

g í 100 g

Mettaðar Ein-ómettaðar Fjöl-ómettaðar
Ólífuolía 17 71 11
Repjuolía 10 58 32
Ísíó 4 9 60 31
Ísíó 4 Ólífu 10 57 33

Upplýsingar fengnar á umbúðum og á heimasíðu Matís  

Heimildir:

  1. Calder PC et. al. Inflammatory disease processes and interactions with nutrition. British Journal of Nutrition. 2009;101:S1-S45
  1. Oliver JE and Silman AJ. What epidemiology has told us about risk factors and aetiopathogenesis in rheumatic diseases. Arthritis Research & Therapy. 2009; 11;3:223
  1. Adam O et al. Anti-inflammatory effects of a low arachidonic acid diet and fish oil in patient with rehumatoid arthritis. Rheumatology International. 2003;23;1:27-36
  1. Sköldstam L et. al. An experimental study of a Mediterranean diet intervention for patients with rheumatoid arthritis. Annals of the rheumatic diseases. 2003;62;3:208-214