Stott Pilates

Pilates er yfir 80 ára gamalt æfingakerfi og dregur nafn sitt af upphafsmanni sínum Joseph Pilates. Joseph Pilates opnaði sitt fyrsta Pilates stúdíó í New York árið 1920 og síðan þá hefur Pilates náð gríðarlegri útbreiðslu og vinsældum um allan heim. Pilates æfingakerfið er markviss og vönduð styrktarþjálfun þar sem meginmarkmiðið er að styrkja og móta líkamann innan frá, auka stöðugleika og líkamsstjórn. Pilatesæfingar eru gerðar fyrir bæði líkama og huga því við iðkun æfinganna skiptir einbeiting miklu máli.

Stott Pilates er nútímaleg og endurgerð útgáfa af upprunalega Pilates æfingakerfinu.  Stott Pilates æfingarnar eru yfirfarnar af læknum,sjúkraþjálfurum og íþróttafræðingum og þar af leiðandi er mikil áhersla lögð á líffærafræði og hvernig líkaminn vinnur sem best. Áhersla er lögð á að styrkja djúpa vöðvakerfi líkamans frá grunni og vöðva umhverfis liði. Reynt er að ná jafnvægi í vöðvakerfi líkamans, bæta líkamsstöðu og ná fram náttúrulegum, eðlilegum sveigjum í hryggsúluna þar sem álag á liði, sinar og liðbönd er sem minnst. Pilates æfingar eru gerðar á rólegum hraða þar sem andað er markvisst í takt við æfingarnar. Öndunin er þannig mjög mikilvæg við útfærslu æfinganna sem hefur góð áhrif á blóðflæði og streitulosun.

Segja má að Stott Pilates æfingakerfið henti nánast öllum, því mikil áhersla er lögð á að laga æfingarnar að getu hvers og eins. Stott Pilates hentar því vel hvort sem um er að ræða sem endurhæfingarmeðferð vegna skaða, fyrirbyggjandi meðferð, góð styrkjandi aðferð eða til að auka frammistöðu í íþróttum.

10 góðar ástæður til að æfa Pilates!                                                                        

  • Aukinn styrkur djúpvöðva, vel þjálfaður flatur magi
  • Góð líkamsstaða
  • Fyrirbyggja skaða
  • Grannir, langir vöðvar
  • Aukið blóðflæði og spennulosun 
  • Aukin líkamsvitund
  • Aukinn liðleiki
  • Betra jafnvægi
  • Betri einbeiting
  • Aukið sjálfstraust
Höfundur greinar er Vilborg Anna Hjaltalín, sjúkraþjálfari. 
Birt í Gigtinni 2. tbl. 2013