Þá er sumarið að nálgast og tími garðvinnunnar kominn

Margir líta á garðinn sinn sem sína litlu paradís og þeir njóta þess að hugsa um hann og að fylgjast með blómum og trjám vaxa og dafna. Við garðvinnuna örvast öll skynfæri manneskjunnar og félagsleg, tilfinningaleg og líkamleg geta styrkist. En því getur líka verið alveg öfugt farið: Ef maður er með gigt getur garðurinn orðið að stöðugri martröð sem fylgir manni um allt í formi slæmrar samvisku. Að vera með gigt þýðir ekki sjálfkrafa að maður geti ekki lengur unnið í garðinum, en ef til vill þarf að finna nýjar leiðir út frá eigin getu og styrk.

Margir líta á garðinn sinn sem sína litlu paradís og þeir njóta þess að hugsa um hann og að fylgjast með blómum og trjám vaxa og dafna. Við garðvinnuna örvast öll skynfæri manneskjunnar og félagsleg, tilfinningaleg og líkamleg geta styrkist. En því getur líka verið alveg öfugt farið: Ef maður er með gigt getur garðurinn orðið að stöðugri martröð sem fylgir manni um allt í formi slæmrar samvisku.

Forgangsröðun

Að vera með gigt þýðir ekki sjálfkrafa að maður geti ekki lengur unnið í garðinum, en ef til vill þarf að finna nýjar leiðir út frá eigin getu og styrk. Það getur þurft að forgangsraða: Hvað get ég - og vil ég - hvað ræð ég sjálf/ur við að gera og hvað get ég fengið aðra til að hjálpa mér með? Fyrsta skrefið er kannski að skoða hver geta þín er núna. Geturðu t.d. beygt þig niður, verið á hnjánum, haldið á fullri vatnskönnu, eða auðveldlega hreyft hendur og fingur? Svör við þessum spurningum geta hjálpað við að sjá hvað þú getur gert og hvernig þú getur nýtt getuna til fullnustu og svo aftur hvað þú þarft að fá hjálp með. Með því að forgangsraða er hægt að ráða ferðinni sjálfur og hlífa sér eftir þörfum.

Aðstoð

Hægt er að biðja um hjálp frá þeim sem sjá um vinnuskólann í bæjarfélaginu, barni nágrannans - eða afhverju ekki safna fjölskyldunni saman og nota sameiginlega garðvinnu til að eiga skemmtilegan dag saman? Með því móti er áfram hægt að gera það sem maður ræður við og veitir ánægju án þess að ofgera sér. Ef þú ert t.d. mjög hrifin/n af limgerðinu þínu, er betra að borga öðrum fyrir að klippa það, en ofgera sér við það sjálfur. Dóra sem býr í húsi sem er á stórri hornlóð sagði að eftir að hún fékk slitgigtina þá tók það hana fleiri mánuði að komast yfir það verkefni að klippa allt limgerðið. Þó að hún ætti í erfiðleikum með garðvinnuna gat hún ekki hugsað sér að flytja úr húsinu og í íbúð. Hún ákvað því að endurskipuleggja garðinn og gera hann gigtarvænan í stað þess að flytja. Hún losaði sig m.a. við rósarunnana þar sem þeir kröfðust of mikillar vinnu og setti í staðinn niður plöntur sem þurftu litla umhirðu.

Skipulagning

Ef garðvinnan er uppspretta gleði og ánægju er mikilvægt að reyna að finna leiðir til að geta sinnt henni áfram án þess að ofbjóða sér. Góð skipulagning og góð garðáhöld sem hlífa líkamanum og stuðla að því að styrkurinn nýtist sem best geta gert þér kleyft að vinna í garðinum þó það verði ekki með sama hætti og þegar þú varst heilbrigð/ur.

Hvernig hægt er að gera garðinn gigtarvænan

 • Upphækkun beða
 • Ræktun í blómakerjum/pottum
 • Ræktun plantna sem þurfa litla umhirðu og fjölærra plantna
 • Góð skipulagning og verklag

Hér á eftir verður fjallað nánar um hvert atriði.

Upphækkun beða

Með því að hækka upp beðin eða nota sérstök blómaker eða blómapotta getur þú minnkað þörfina á að beygja þig eða vinna á hnjánum. Að hafa vinnuborð í garðinum reynist mörgum vel.

Ræktun í blómakerjum/pottum

Hugsaðu um hvort ræktun í blómakerjum eða blómapottum komi til greina. Það minnkar vinnuna og gerir það léttara að hugsa um plönturnar en ef þær væru í beðum. Hægt er að rækta hér um bil allar plöntur í blómakerjum. Það fást létt blómaker úr plasti sem nota má í staðinn fyrir þyngri leirker/potta.

Ræktun plantna sem þurfa litla umhirðu og fjölærra plantna

Reyndu að velja plöntur sem krefjast ekki mikillar vinnu og umönnunar og haltu plöntum sem þurfa sérstaka umönnun í lágmarki. Grænmetisræktun krefst t.d. yfirleitt meiri vinnu en blóm og runnar. Langlífar plöntur sem eru nægilega harðgerðar til að standast miklar hitasveiflur, þurrk og vind eru venjulega bestu kostirnir. Veldu plöntur sem krefjast ekki mikillar snyrtingar, umönnunnar eða umskipta til að halda þeim heilbrigðum. Dæmi um slíkar plöntur eru ýmsir runnar t.d. lyngrósir, kvistir, toppar eða runnamura. Sömuleiðis krefjast sígrænir harðgerðir runnar eins og einir, dvergfura eða fjallafura ekki mikillar umönnunnar.

Veldu fjölærar harðgerðar plöntur s.s. lykla, hnoðra eða hostur sem breiða úr sér án þess að vera til vandræða og koma upp ár eftir ár í staðinn fyrir einærar plöntur sem duga aðeins yfir sumarið.

Góð skipulagning og verklag

Gróðursettu litrík og falleg blóm stutt frá gluggum og meðfram stígum svo að þú getir auðveldlega notið þeirra. Klipptu fersk blóm til að hafa innandyra svo að þú getir notið garðsins jafnvel þegar sjúkdómurinn er virkur og þér líður ekki nógu vel til að vinna í garðinum.

Notaðu ekki þunga vatnskönnu. Kauptu litla könnu - eða ennþá betra: vökvaðu með slöngu. „Universalgrip" auðveldar manni bæði að skrúfa frá vatninu og fyrir það. Einnig getur verið gott að setja vatnskristalla í blómapotta eða blómaker þar sem þeir draga í sig vatn og miðla út í jarðveginn. Þetta minnkar þörf á vökvun.

Að lokum, hafðu garðyrkjutímarit eða bækur um blóma- og trjáræktun við hendina svo þú getir skipulagt það sem þig langar að gera í garðinum, jafnvel þegar þú treystir þér ekki í garðvinnu.

Aðlagaðu þig að getu þinni - dragðu úr álagi á líkamann

Skipulegðu garðvinnuna á þeim tíma dagsins sem þér líður best og þú finnur minnst til. Undirbúðu þig fyrir garðvinnuna með því að hita upp áður en þú ferð af stað. Þú getur t.d. prófað að fara í heita sturtu og gert léttar æfingar og teygjur til að losa um vöðva og liði.

Komdu í veg fyrir stirðleika og óhöpp með því að nota góða líkamsstöðu þegar þú vinnur. Notaðu stærstu og sterkustu liðina fyrir verkefni eins og að lyfta, raka eða draga. Þegar þú þarft til dæmis að lyfta einhverju, snúðu þér beint að því sem þú ætlar að lyfta og beygðu þig í hnjám og mjöðmum fremur en að beygja þig eingöngu í mjöðmum og nota bakvöðvana. Ekki vinda upp á þig. Reyndu, þegar þú reytir arfa eða gróðursetur, að vera eins neðarlega og þú getur, annaðhvort á hnjánum eða með því að sitja á lágum stól; ekki reyna að teygja þig of langt fram eða til hliðar. Til eru lágir bekkir til að sitja á en það er einnig hægt að snúa þeim við og þá er frauðplast í botninum og fæturna getur þú notað til að hífa þig upp með.

Hreyfing og hvíld

Maður fær góða hreyfingu við að vinna í garðinum. Nauðsynlegt er að taka hvíldir inn á milli. Hvíldu þig reglulega og skiptu oft um stellingar. Ef þú hefur t.d. verið á hnjánum við að reyta arfa, taktu þér þá hvíld eftir 10 til 20 mínútur. Stattu upp og gakktu um garðinn og njóttu hans með góðri samvisku. Ef þú ert þreytt/ur sestu þá niður eða leggstu í smá stund og byrjaðu svo aftur.

Komdu í veg fyrir álag með því að forðast einhæfar hreyfingar. Vertu með meira en eitt verk í takinu í einu. Mokaðu smá stund, hvíldu þig, reyttu þá arfa smá stund eða rakaðu o.s.frv. Ekki gleyma hvíldunum!

Erfið verk

Ekki láta þung verk setja þér skorður. Ef þú ert ein/n á ferð að versla og átt erfitt með að halda á þungu, biddu þá afgreiðslufólkið að halda á innkaupapokunum fyrir þig út í bílinn og nágranna eða aðra fjölskyldumeðlimi að taka úr bílnum þegar heim er komið. Fáðu aðra til að hjálpa þér með verk eins og t.d. að moka svo að þú getir notað orkuna í að gera það sem veitir þér ánægju, eins og t.d. að setja niður uppáhalds blómin þín. Mörg bæjarfélög bjóða öryrkjum og ellilífeyrisþegum upp á þá þjónustu að slá grasið, kantskera og hreinsa beðin einu sinni til tvisvar yfir sumarið gegn vægri greiðslu. Hjá Vinnuskóla Reykjavíkur er hægt að fá þessa þjónustu tvisvar á sumri og kostar það 2.500 kr.fyrir skiptið.

Vinnulag

Best er að reyta arfa í sól og þurrki.

Láttu arfann á segldúk eða plast sem þú hefur á jörðinni við hliðina á þér og þú getur auðveldlega dregið á eftir þér. Eða skildu hann eftir og notaðu sem lífrænan áburð. Reyndu að halda arfanum í skefjum þannig að hann blómstri ekki því þá getur hann sáð sér og þá verður erfiðara að hreinsa hann. Þegar um smáar plöntur er að ræða getur nægt að fara með hrífu yfir beðið ef það er gert áður en arfinn verður stór.

Taktu áburð úr stórum pokum og settu í minni ílát sem þú getur auðveldlega haldið á.

Réttu garðáhöldin geta auðveldað garðvinnuna

Garðáhald sem passar einum - sem kannski er með lítinn handstyrk og veikar hendur - getur verið alveg ómögulegt fyrir þann sem situr í hjólastól. Þegar á að velja á milli allra áhalda í búðinni er hætta á að maður kaupi garðáhöld sem svo reynist ómögulegt að nota þegar heim er komið. En það er hægt að fá góð ráð. Þegar þú ferð í búðina er mikilvægt að þú fáir að prófa garðáhöldin og farir í huganum yfir hvernig þú ætlar að nota þau. Ef garðáhöldin eru í umbúðum, farðu þá fram á að fá að taka þau úr umbúðunum svo að þú getir haldið á þeim og prófað hvort þau henta þér, hvernig er að halda á þeim og hversu þung þau eru.

Margir geta notað svokallaðar tjakk-klippur þó þeir séu með lítinn handstyrk. Þessar klippur klippa í fleiri stigum. Sömuleiðis er hægt að fá tveggjahanda trjáklippur sem eru léttar, með breiðu handfangi og lengjanlegu skafti.

Mismunandi handföng

Ef þú hefur lítinn styrk í höndum og/eða handleggjum þá reynist mörgum vel að vinna með áhöldum sem eru með stutt handföng. Létt garðáhöld og áhöld sem gera ráð fyrir að maður vinni með úlnlið í miðstöðu minnka einnig álagið. Það eru til stök handföng sem hægt er að festa á garðáhöld sem að öðru leyti eru hentug t.d. út frá þyngd. Ef maður finnur til í úlnliðnum eða er með færniskerðingu getur verið þörf á úlnliðsspelku eða upphandleggsstuðningi og einnig getur maður þurft að festa garðáhaldið við höndina. Það er til mikið úrval af litlum garðyrkjuáhöldum s.s. skóflu, röku og gaffli með stömu breiðu handfangi sem hægt er að skrúfa á lengjanlegt skaft.

Ef fingurnir eru kraftlausir er hægt að nota griptöng til margs s.s. að reyta arfa, skrúfa fasta hluti á áhald o.s.frv.

Grip og hanskar

Gott stamt grip eða tauhanskar með gúmmíi inni í lófanum veita hendinni betri stöðugleika svo að gripið renni síður til. Það er einnig hægt að breikka handfangið t.d. með hjólahandfangi, hólk úr mjúku efni svo sem gúmmíi eða frauðplasti. Sömuleiðis er hægt að fá breitt og stamt auka handfang til að setja á garðáhaldið sem verður þá vinkillaga. Hanskar verja hendurnar einnig gegn meiðslum.

Hafa í huga

 • Smíðasvunta með djúpum vösum sem eru góðir til að nota fyrir garðáhöld, fræpakka og blómlauka getur komið sér vel.
 • Gættu þess að klæða þig vel.
 • Notaðu frauðplast eða eitthvað annað mjúkt til að vernda hnén þegar þú vinnur á hnjánum.
 • Sjáðu til þess að garðáhöldin bíti vel - þá munt þú þurfa minni áreynslu við að beita þeim. Hægt er að láta skerpa garðverkfæri/áhöld í sumum stóru verslununum með garðyrkjuvörur.

Þegar áhöld fyrir garðvinnuna eru valin er gott að huga að:

 • Þyngd garðáhaldanna.
 • Hversu stórt og hversu mikils styrks garðáhaldið krefst
 • Vinkilgrip eða skaft.
 • Lögun og form gripsins
 • Efni gripsins og stamleiki
 • Getur maður notað tveggjahanda grip?
 • Nýjar aðferðir. Með hugmyndaflugi geta áhöld fengið nýja notkun

Fyrir löng áhöld þarf einnig að hugsa um:

 • Lengd skaftsins. Hugsaðu um að sum áhöld þurfa að ganga ofan í jörðina.
 • Lögun skaftsins. Beygt skaft getur hjálpað manni að hlífa öxlunum og eins þarf maður ekki að beygja sig eins langt niður.
 • Grip skaftsins - breitt skaft fer betur með fingurna.

Um greinina

Þetta efni var tekið saman og staðfært af Svölu Björgvinsdóttur félagsráðgjafa hjá Gigtarfélagi Íslands.

Byggt á greinum úr eftirfarandi tímaritum:
Reumatikertidningen, 2. tölublað 2003, Ledsager 3. tölublað 2002 og Arthritis Today maí/júni 1999. Auk þess sem starfsfólk í Garðheimum veitti okkur ráðleggingar varðandi gróður og garðyrkjuáhöld.