Ferðlög þarf að undirbúa

Það er ekki nóg að panta ferð og pakka niður, ef þú ert með verki eða óþægindi í vöðvum og liðum. Hér eru nokkur góð ráð um hvernig þú getur komið í veg fyrir "ferðalangafætur" á þínu næsta ferðalagi. Þó svo að ferðalög séu fyrir flest okkar til að slaka á frá amstri hvunndagsins, geta þau verið líkamlega erfið fyrir bak og fætur. Á það við hvort heldur maður gengur um og skoðar það sem er merkilegt í umhverfinu, stórborginni eða er á hjólaferðalagi, í bátsferð o.s.frv. Með markvissri þjálfun, áður en að ferðinni kemur, er að miklu leyti hægt að koma í veg fyrir verstu vandamálin

Það er ekki nóg að panta ferð og pakka niður, ef þú ert með verki eða óþægindi í vöðvum og liðum. Hér eru nokkur góð ráð um hvernig þú getur komið í veg fyrir "ferðalangafætur" á þínu næsta ferðalagi.

Þó svo að ferðalög séu fyrir flest okkar til að slaka á frá amstri hvunndagsins, geta þau verið líkamlega erfið fyrir bak og fætur. Á það við hvort heldur maður gengur um og skoðar það sem er merkilegt í umhverfinu, stórborginni eða er á hjólaferðalagi, í bátsferð o.s.frv.

Með markvissri þjálfun, áður en að ferðinni kemur, er að miklu leyti hægt að koma í veg fyrir verstu vandamálin. Byrjaðu að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir ferðina með því að smátt og smátt bygga upp liði og vöðva, til að ráða betur við álagið. Í eftirfarandi grein gefur Lene Mandrup Thomsen sjúkraþjálfari hjá Danska Gigtarfélaginu góð ráð um hvernig þú getur hlíft vöðvum og liðum.

Hugsaðu um sjálfan þig

Mundu eftir fötum sem passa fyrir loftslagið. Margir sem eru með gigt upplifa að verkirnir versni þegar kólnar - og reyndu að forðast súg eða gust.

Hvíldu þig oft þegar þú ert á ferðinni, þannig að þú minnkir álag á liði og vöðva. Ef til vill getur þú haft með þér sessu eða léttan "veiðistól" sem hægt er að leggja saman.

Ferðast með flugi

Gott er að nota teygjusokka í flugi til að minnka hættu á bjúgmyndun. Í flugferðinni skaltu standa upp með reglulegu millibili og ganga um.

Mörgum vex það í augum hversu langt þarf oft að ganga til að komast út úr stórum flughöfnum. Ef maður á erfitt með gang er betra að nota hjólastjól í flughöfnum og geta þá notað orkuna í eitthvað annað sem er skemmtilegra. Það er hægt að fá lánaðan hjólastól í öllum flughöfnum og flugfélögin veita einnig aðstoð með að keyra hjólastólinn. Ef þú þarft á hjólastjól að halda, hafðu samband við flugfélagið sem þú hefur pantað flugmiðann hjá og biddu um að hjólastóll sé til staðar bæði við brottför og þegar komið er á áfangastað. Mikilvægt er að hafa samband við flugfélagið tímanlega til að fá þessa þjónustu.

Skór

Vertu með skó sem styðja vel við fæturna, svokallaða "loftpúðaskó" eða höggdempandi skó sem fara vel með fætuna og eru rúmir og þægilegir (einnig ef fæturnir bólgna upp). Mundu að vera búin/n að prófa alla skóna rækilega heimafyrir og taktu gjarna með þér fleiri pör af skóm. Við sérstakar aðstæður eins og t.d. í fjallgöngu, þarf að aðlaga skófatnað og sokka út frá markmiðinu.

Minnkaðu þyngdina

Notaðu bakpoka í staðinn fyrir axlar- eða handtösku ef þú ert slæm/ur í baki, hálsi, öxlum eða höndum. Bakpokinn á að vera með góðri ól þannig að þunginn lendi á mjöðmum frekar en á baki og hálsi.

Ef lengri gönguferðir leiða til þess að þú færð verki t.d. í hné eða mjaðmarlið getur notkun göngustafs hjálpað og minnkað álag á liðina. Göngustafinn á að hafa þeim megin sem maður finnur ekki til, svo að hluti þess þunga sem hvílir á slæma fætinum færist yfir á stafinn. Það er til mikið úrval af göngustöfum sem hægt er að setja saman og hafa með í töskunni.

Ef þú átt í erfiðleikum með langar göngur vegna gigtarinnar getur verið betra að leigja hjól ef aðstæður leyfa það. Þá sleppur þú jafnframt við að halda á farangri. Mundu eftir að stilla hæðina á bæði hnakk og stýri hjólsins þannig að það henti þér.

Stuðningur við liði

Ef þér hættir til að snúa þig um öklann, getur teygjusokkur eða íþróttateygjubindi hjálpað til að fyrirbygga það. Samskonar stuðning er hægt að nota við hné sem er óstöðugt. Hægt er að fá bæði teygjusokka og íþróttateygjubindi (íþróttatape) í Apótekum og stoðtækjafyrirtækjunum.

Önnur ráð

Það er mikilvægt að drekka nægan vökva þegar maður er á ferðinni - hafðu með þér vatnsflösku svo að þú sért alltaf með vökva með þér. Ef þú þarft að standa og bíða, t.d. eftir strætisvagni/rútu eða við eitthvert safn er góð hugmynd að nota þann tíma til að gera smá æfingar fyrir axlir, bak og fætur.

Þegar þú kemur heim eftir að vera búin/n að vera á ferðinni allan daginn - getur verið gott að fara í heitt bað - það hjálpar þér að slaka á vöðvunum. Sjáðu einnig til þess að hvíla þig með hátt undir fótunum.

Við óhapp

Ef þú verður fyrir óhappi sem leiðir til skyndilegs áverka t.d. snýrð á þér öklann eða færð verk í hálsinn er hægt að lina sársaukann og minnka bólgu með kuldabakstri (t.d. er hægt að setja ísmola í poka og pakka þeim inn í handklæði). Endurtaktu þessa meðferð nokkrum sinnum yfir daginn. Einnig getur staðbundið bólgueyðandi gel eða krem komið sér vel - það getur einnig verið nauðsynlegt að leita til læknis.

Blöðrur

Blöðrur eru algengt vandamál ef maður er ekki í nægilega góðum skóm. Með því að vera í tveimur pörum af sokkum á hvorum fæti minnkar þú áhættuna á að fá blöðrur. Ef þú þrátt fyrir allt færð blöðrur, er mikilvægt að sprengja þær ekki, þar sem það getur leitt til sýkingar. Notaðu í staðinn sértakan blöðruplástur (t.d. Compeed).

Stórborgarferð

Mikilvægt er að gera æfingar í að minnsta kosti tvo mánuði áður en farið í ferðalag, ef þú ætlar í ferð þar sem þú munt hreyfa þig mikið - hvort sem það er að ganga, hjóla, fara á skíði eða gera annað sem veldur líkamlegri áreynslu.

En stórborgarferð getur einnig verið krefjandi fyrir fætur, hné og bak. Ef þú ætlar í ferðalag til stórborgar er því góð hugmynd að þjálfa sig upp áður en farið er í ferðalagið með því að fara í nokkra langa göngutúra (5 - 10 km, miðað við þína líkamlegu getu) tvisvar til þrisvar sinnum í viku - gjarna í landslagi sem er hæðótt þar sem það þjálfar bæði bak- og fótvöðva.

Þær líkamlegu kröfur sem gerðar eru til ferðalangsins í stórborginni eru oft meiri en maður heldur. Einn dagur á ferðinni verður í reynd mjög langur göngutúr.

Æfingar

Ef fæturnir eru þrútnir eftir áreynslu langs dags er góð hugmynd að gera pumpuæfingar til að örva blóðrásina og koma í veg fyrir bjúgmyndun.

Ef þú ert með þrútna fætur, leggstu með hátt undir fótum. Krepptu og réttu öklana til skiptis mörgum sinnum.