Óhefðbundin lyf til meðferðar á slitgigt

Á síðustu áratugum hafa fjölmörg óhefðbundin lyf og fæðubótarefni verið prófuð á kerfisbundinn hátt sem meðferð við gigtsjúkdómum. Þegar grannt er skoðað, má finna niðurstöður fjölmargra slíkra rannsókna í viðurkenndum tímaritum í læknisfræði. Þar hafa menn notað aðferðir hefðbundinnar læknisfræði til að meta hvort ýmis óhefðbundin lyf virki í raun og veru eða hvort ávinningurinn af inntökunni sé háður því að menn trúi staðfastlega á það sem þeir eru að taka inn. Í þessu sambandi er mest mark tekið á svonefndum tvíblindum samanburðarrannsóknum.

Slitgigt (osteoarthritis, OA) er algengasti liðsjúkdómurinn sem hrjáir fólk. Talið er að 10 – 20% þeirra sem eru orðnir 65 ára hafi umtalsverða slitgigt. Slitgigt er ein helsta orsök verkja og fötlunar hjá eldra fólki. Þannig er auðséð að slitgigtarsjúklingar eru mjög fjölmennur hópur. Verkir og fötlun af ýmsu tagi hrjá mjög marga í þessum hópi.

Á síðustu áratugum hafa orðið miklar framfarir í meðferð á gigt af ýmsu tagi. Þannig má segja að ísetning gerviliða í mjöðm, t.d. vegna slitgigtar, hafi verið stærsta framfarasporið í meðferð gigtar á 20. öldinni. Við höfum einnig fengið mun öflugri lyf en áður til að meðhöndla gigtsjúkdóma eins og beinþynningu og iktsýki. Því miður er ekki hægt að segja það sama um lyfjameðferð við slitgigt. Þar höfum við enn engin lyf sem stöðvi slitgigtarferlið þegar slitgigt er farin að skemma ákveðinn lið eða liði. Þaðan af síður eigum við engin lyf í dag sem geta lagfært trosnað og slitið brjósk í slitgigtarliðum.

Af ofansögðu er ljóst að margir með slitgigt eru illa haldnir af verkjum og fötlun sem hefðbundin lækisfræði á engin töfraráð til að lækna. Ekki er því að undra þótt margir slitgigtarsjúklingar leiti á önnur mið, að minnsta kosti af og til, í von um að fá þannig bót meina sinna. Talið er að allt að 60% gigtarsjúklinga prófi óhefðbundin lyf í einhverjum mæli.

Óhefðbundin lyf eru mjög margs konar og oft vita hefðbundnir læknar mest lítið um þau. Þessi lyf eru ýmist tekin inn eða þau eru borin á húðina yfir aumum liðamótum. Lengi hefur verið vitað að ýmsar jurtaafurðir innihalda efni sem hafa áhrif á sjúkdóma. Nægir í því sambandi að minna á börk af svonefndum hvítvíði (á latínu: salix alba) en úr þessum víðiberki unnu menn fyrst lyfið salicyl sýru sem er virka efnið í Magnýl. Óhefðbundin lyf og fæðubótarefni eru annars af margs konar uppruna. Þannig hafa menn farið að prófa sig áfram með afurðir af brjóski og efnasambönd sem finnast í brjóski eftir að ljóst var nokkurn veginn hvaða efni eru í heilbrigðu brjóski í mönnum og dýrum.

Á síðustu áratugum hafa fjölmörg óhefðbundin lyf og fæðubótarefni verið prófuð á kerfisbundinn hátt sem meðferð við gigtsjúkdómum. Þegar grannt er skoðað, má finna niðurstöður fjölmargra slíkra rannsókna í viðurkenndum tímaritum í læknisfræði. Þar hafa menn notað aðferðir hefðbundinnar læknisfræði til að meta hvort ýmis óhefðbundin lyf virki í raun og veru eða hvort ávinningurinn af inntökunni sé háður því að menn trúi staðfastlega á það sem þeir eru að taka inn. Í þessu sambandi er mest mark tekið á svonefndum tvíblindum samanburðarrannsóknum. Hér er óhefðbundna lyfið oft borið saman við svonefnda lyfleysu, þ.e. töflu eða hylki sem inniheldur ekkert virkt efni, heldur aðeins hvítsykur. Síðan er stórum hópi sjúklinga með t.d. slitgigt gefið annað hvort tafla með óhefðbundna lyfinu eða tafla með sams konar útliti sem inniheldur einungis lyfleysu. Síðan er sjúklingahópnum fylgt eftir í nokkurn tíma, etv. þrjá til sex mánuði. Á þeim tíma er hver einstakur sjúklingur metinn svo og svo oft, bæði með tilliti til þess hvernig hann svarar lyfinu eða lyfleysunni og einnig er þá fylgst með hvort hann fær aukaverkanir. Í þessu sambandi er afar mikilvægt að hvorki sjúklingurinn sjálfur né læknirinn sem metur árangurinn má vita hvort hann er að fá virkt lyf eða lyfleysu. Rannsóknin verður að vera tvíblind í þeim skilningi. Ef svo er ekki, verður útkoman ekki vísindalega hlutlaus. Þegar rannsóknartímanum er lokið er dæmið hins vegar gert upp. Þá kemur í ljós hvort þeim sem fengu óhefðbundna lyfið farnast betur en hópnum sem fékk lyfleysu. Með þessari aðferð má einnig bera óhefðbundin lyf saman við hefðbundin lyf eins og t.d. bólgu-eyðandi gigtarlyf. Þannig má sjá hvort óhefðbundnu lyfin eru betri, lakari eða sambærileg við lyf eins og t.d. Íbúfen eða Voltaren til meðferðar á slitgigt.

Nýlega birtist ítarleg yfirlitsgrein um óhefðbundna lyfjameðferð gegn gigt á heimasíðu bresku gigtarrannsóknarstofnunarinnar (Arthritis Research Campaign, ARC). Greinin nefnist á ensku: Complementary and Alternative Medicines for the Treatment of Rheumatoid Arthritis, Osteoarthritis and Fibromyalgia. Slóðin inn á þessa grein er:
http://www.arc.org.uk/arthinfo/patpubs/6300/6300.asp

Greinin er löng og ítarleg og einkar fróðleg lesning um þetta efni. Höfundar greinarinnar hafa m.a. kannað ítarlega hvaða óhefðbundin lyf og fæðubótarefni hafa verið prófuð með tvíblindum rannsóknum sem meðferð við slitgigt.

Hér er ekki tóm til að nefna öll þau efni og efnasambönd sem prófuð hafa verið gegn slitgigt. Ég mun nefna rétt þau helstu sem hafa skilað svo eða svo jákvæðum árangri í meðferð slitgigtar. Ljóst er að ýmis þekkt óhefðbundin lyf hafa til þessa ekki verið prófuð með viðurkenndum aðferðum gegn slitgigt. Þar má nefna t.d. aloe vera, sólhatt (echinacea), melatonin og Jóhannesarjurt (St John's wort). Önnur hafa verið prófuð og reynst lítt eða ekki betri en lyfleysa. Má þar nefna glitbrá (feverfew), olíu úr sólberjafræjum (blackcurrant seed oil) og smáskammtalækningar (homeopathy).

Nokkur óhefðbundin lyf og efni hafa reynst vera mun betri en lyfleysa gegn slitgigt og í sumum tilfellum sambærileg við hefðbundin bólgu-eyðandi gigtarlyf eins og Voltaren. Hér á eftir verður gerð grein fyrir nokkrum þeim óhefðbundnu lyfjum sem best hafa reynst í þessu sambandi.

Capsaicin hlaup

Capsaicin er virkt efni í chilli kryddi og er unnið úr þessari kryddjurt. Capsaicin hlaup er borið á húð og dempar flutning sársaukaboða frá slitnum liðum inn í mænuna. Þrjár tvíblindar rannsóknir hafa verið birtar þar sem capsaicin hlaup var borið saman við lyfleysuhlaup í meðferð slitgigtar. Þar reyndist capsaicin hlaupið fjórum sinnum virkara en lyfleysa til að dempa verki og liðeymsli í slitgigt. Þá veldur capsaicin hlaup einungis mjög óverulegum aukaverkunum.

SAMe

S-adenosylmethionin (SAMe) er náttúrulegt efni sem finnst í mannslíkamanum. Það hefur m.a. þýðingu fyrir framleiðslu hormóna og taugaboðefna. Efnið er talið hafa verkjastillandi áhrif og einnig mun SAMe örva framleiðslu á kollageni og próteoglýkönum sem eru mikilvægir þættir í liðbrjóski. Hægt er að kaupa SAMe hylki sem fæðubótarefni í apótekum í Bretlandi. SAMe hefur verið töluvert rannsakað sem meðferð við slitgigt. Ellefu tvíblindar rannsóknir liggja fyrir þar sem SAMe var borið saman við lyfleysu eða við bólgu-eyðandi lyf. Niðurstöðurnar sýna að SAMe var marktækt betra en lyfleysa og hliðstætt bólgu-eyðandi lyfjum við að bæta úr fötlun af völdum slitgigtar. Þá var SAMe nokkurn veginn jafn gott og bólgu-eyðandi lyf til að slá á slitgigtarverki.

Engifer

Engifer (ginger) jurtin kemur frá Kína, Suðaustur-Asíu, Vestur-Afríku og eyjum í karabíska hafinu. Jurtalyfið engifer er unnið úr stilk plöntunnar. Sýna má fram á að engifer hindrar efni í líkamanum sem auka á liðbólgur. Einnig eru salicylöt í engifer sem draga úr verkjum af völdum ýmiss konar bólgu. Engifer hefur verið prófað gegn slitgigt í skömmtum sem eru á bilinu 510-1000 mg á dag. Þrjár tvíblindar rannsóknir liggja fyrir sem sýna að engifer er mun betra en lyfleysa til að slá á slitgigtarverki. Einnig slær engifer á fötlun sem tengist slitgigt. Þá hefur engifer engar slæmar aukaverkanir.

Chondroitin súlfat

Chondroitin súlfat er flókin fjölsykrusameind sem finnst víða í mannslíkamanum. Chondroitin súlfat er m.a. mikilvægt efni í liðbrjóski. Dýrartilraunir benda til að chondroitin geti hindrað niðurbrot á liðbrjóski og örvað ferli sem gera við skemmt liðbrjósk. Þegar chondroitin súlfat er gefið sem fæðubótarefni, er skammturinn 800-1200 mg á dag. Til eru niðurstöður úr 19 rannsóknum þar sem chondroitin var borið saman við lyfleysu við meðferð slitgigtar. Niðurstöður þessara rannsókna eru nokkuð misvísandi en meirihluti rannsóknanna sýndi þó að chondroitin sló á verki og minnkaði þörf sjúklinganna fyrir hefðbundin verkjalyf. Þá hefur chondroitin yfirleitt engar slæmar aukaverkanir en getur þó valdið magakveisu og höfuðverkjum.

Glúkósamín súlfat

Þetta efnasamband finnst í mannslíkamanum en er oftast unnið úr skelfiski eða búið til í efnaverksmiðjum. Glúkósamín gegnir m.a. mikilvægu hlutverki við uppbyggingu á liðbrjóski, sinum og liðböndum. Dýratilraunir hafa sýnt að gjöf glúkósamíns getur tafið fyrir niðurbroti á liðbrjóski og hjálpað til að byggja upp brjósk. Glúkósamín súlfat er selt í apótekum og heilsubúðum sem 400 mg hylki. Venjulegur skammtur er þrjú hylki á dag. Glúkósamín súlfat hefur verið mikið rannsakað sem meðferð við slitgigt. Að minnsta kosti 20 samanburðarrannsóknir hafa verið birtar þar sem glúkósamín súlfat var borið saman við lyfleysu sem meðferð við slitgigt. Niðurstöðurnar eru raunar ekki allar á sama veg. Glúkósamín virðist slá betur á verki en lyfleysa. Athyglisvert er þó að vönduðustu rannsóknirnar, þar sem mikið var lagt upp úr að sjúklingarnir vissu alls ekki hvort þeir fengu glúkósamín súlfat eða lyfleysu, gáfu ekki til kynna að glúkósamín súlfat væri betra en lyfleysa til að slá á verki og fötlun af völdum slitgigtar. Þá hafa a.m.k. þrjár rannsóknir verið birtar sem sýna að glúkósamín súlfat er jafn gott eða betra en bólgu-eyðandi gigarlyf til að slá á verki og fötlun í slitgigt. Glúkósamín súlfat hefur yfirleitt fáar og vægar aukaverkanir. Helst má þar nefna magakveisu, hægðatregðu, niðurgang, höfuðverki og útbrot.

Lokaorð

Slitgigt er erfiður sjúkdómur og úrræði hefðbundinnar læknisfærði duga þar oft lakar en skyldi. Því er eðlilegt að hinir mörgu sem þjást af slitgigt leiti hjálpar annars staðar. Þar á meðal má nefna óhefðbundin lyf. Við erum smám saman að læra meira og meira um áhrif þessara óhefðbundnu lyfja og efna á sjúkdóma eins og slitgigt. Rannsóknir hafa sýnt að ýmis efni úr þessum flokki geta hjálpað sjúklingum með slitgigt, að minnsta kosti að ákveðnu marki. Bæði heilbrigðisstarfsfólk og þeir sem þjást af slitgigt verða að hafa augun opin fyrir nýjungum á þessu sviði.


Ingvar Teitsson, dr. med.,sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum,
Sjúkrahúsinu á Akureyri. Greinin birtist í Gigtinni 1.tbl. 2009.