Liðaktín og skyld efni - virka þau við slitgigt?

Miðað við þann gífurlega vanda sem slitgigt er, hafa framfarir í meðferð sjúkdómsins verið ótrúlega hægar. Áfangasigrar hafa unnist með nýjum lyfjum í mörgum gigtarsjúkdómum og má þar nefna iktsýki og beinþynningu, en hornsteinar lyfjameðferðar við slitgigt í dag eru verkjalyf og bólgueyðandi lyf eins og verið hefur alla síðustu öld. Mikil leit fer nú fram að lyfjum sem geta haft áhrif á gang sjúkdómsins, þ.e. lyfjum sem geta hægt á slitgigtinni. Í dag er vitað um nokkra tugi lyfja sem virðast geta hægt á slitgigt í dýrum og/eða hafa jákvæð áhrif á brjóskfrumur í ræktun. Í þessum flokki má telja innihaldsefnin í liðaktíni.

Lyfjaleit

Miðað við þann gífurlega vanda sem slitgigt er, hafa framfarir í meðferð sjúkdómsins verið ótrúlega hægar. Áfangasigrar hafa unnist með nýjum lyfjum í mörgum gigtarsjúkdómum og má þar nefna iktsýki og beinþynningu, en hornsteinar lyfjameðferðar við slitgigt í dag eru verkjalyf og bólgueyðandi lyf eins og verið hefur alla síðustu öld. Mikil leit fer nú fram að lyfjum sem geta haft áhrif á gang sjúkdómsins, þ.e. lyfjum sem geta hægt á slitgigtinni. Í dag er vitað um nokkra tugi lyfja sem virðast geta hægt á slitgigt í dýrum og/eða hafa jákvæð áhrif á brjóskfrumur í ræktun. Í þessum flokki má telja innihaldsefnin í liðaktíni.

Um liðaktín

Liðaktín inniheldur tvö efni, glúkósamín súlfat og kondróítín súlfat sem bæði virðast geta haft áhrif á slitgigt. Þessi efni eru betur rannsökuð en önnur efni í hópi fæðubótarefna en skýringin er sú að þau eru framleidd og seld sem lyf í Evrópu og þar hafa verið gerðar töluverðar rannsóknir á þeim. Í Bandaríkjunum og hér á Íslandi flokkast þau hinsvegar sem fæðubótarefni. Efnasamsetningarnar eru aftur á móti gamlar og vel þekktar og möguleikar á einkaleyfi takmarkaðir. Því hafa lyfjafyrirtæki ekki mikinn áhuga á því að kosta til dýrum rannsóknum til þess að staðfesta áhrif þeirra. Fyrir nokkrum árum leitaði greinarhöfundur endurtekið til lyfjaframleiðenda og bauðst til þess að gera stóra rannsókn á kondróítín súlfati hér á landi með litlum tilkostnaði, en svörin voru þau ein að ekki væri gert ráð fyrir fé til rannsókna á þessu lyfi.

Áhrif Glúkósamíns á slitgigt

Í líkamanum framleiða brjóskfrumur amínósýruna glúkósamín, en þessi amínósýra er hráefni til viðgerðar á brjóski. Líklegt er talið að áhrif efnisins megi rekja til hvatningar á brjóskfrumur. Fyrstu rannsóknirnar sem bentu til þess að lyfið drægi úr slitgigtareinkennum og að aukaverkanir væru afar sjaldgæfar voru birtar um 1980. Síðan hefur birst fjöldi rannsókna um áhrif efnisins á einkenni slitgigtarsjúklinga. Glúkósamín hefur einnig jákvæð áhrif á brjóskfrumur í ræktun og þróun slitgigtar í tilraunadýrum. Fremur litlar vísbendingar eru þó til um að glúkósamín hægi á þróun slitgigtar í mönnum en þó eru til einstaka rannsóknir sem benda í þá átt.

Áhrif Kondróítín súlfats á slitgigt

Kondróítín súlfat er eitt algengasta byggingarefnið í liðbrjóski. Verkun kondróítíns í liðum er talin felast í því að það hemji niðurbrotshvata sem brjóta niður brjósk í sjúkum liðum. Einnig hefur verið sýnt fram á að bæði kondróítín og glúkósamín hemja framleiðslu níturoxíðs (NO) í liðum, en sú framleiðsla er aukin við slitgigt og virðist vera skaðleg brjóski. Andstætt því sem vitað er um glúkósamín eru til nokkrar allgóðar rannsóknir sem benda til þess að kondroítín súlfat geti hægt á slitgigt í útlimaliðum í mönnum og dýrum.

Blanda beggja efna

Algengt er að framleiðendur fæðubótarefna í Bandaríkjunum steypi bæði glúkósamín og kondróítín saman í töflur. Blandan virðist hafa meiri hvetjandi áhrif á brjóskfrumur í ræktun en hvort efnið um sig. Einnig virðist efnablandan hafa mikil hemjandi áhrif á þróun slitgigtar í dýratilraunum, bæði hjá hundum og kanínum. Til eru líka nokkrar rannsóknir sem sýna fram á góð áhrif á einkenni slitgigtar í útlimaliðum í fólki. Engin áhrif sáust hins vegar á slitgigt í baki. Í öllum þessum rannsóknum þoldist lyfjablandan vel og aukaverkanir voru mjög sjaldgæfar. Því miður var engin af þessum rannsóknum gerð með nákvæmlega sömu blöndu og er í Liðaktíni, en til eru nokkur mismunandi form bæði af glúkósamíni og kondróítíni. Að sögn forsvarsmanna Heilsuhússins sem selur Liðaktín, er um að ræða bandaríska framleiðslu frá ábyrgum framleiðenda.

Vandamál

Mér finnst það fagnaðarefni að þessi blanda skuli nú vera fáanleg hér á landi, en að mínu mati er hún vænlegri kostur fyrir slitgigtarsjúklinga en margt annað sem á boðstólum er. Tvennt skyggir þó á, annars vegar er ekki víst að rannsóknir þær sem taldar eru upp hér framan sé hægt að heimfæra á mismunandi blöndur efnanna og hins vegar hinn mikli skortur sem hér er á eftirliti með innihaldi fæðubótarefna. Til eru mörg dæmi um að fæðubótarefni innihaldi ekki það sem gefið er upp í innihaldslýsingu, og það á meðal annars við um ofangreind efni. Einnig eru dæmi þess að fæðubótarefni við gigt innihaldi beinlínis hættuleg efni sem geta og hafa valdið dauðsföllum.

Óviðunandi ástand

Margt bendir til þess að kondróítín og glúkósamín séu ódýr og örugg efni sem gætu gagnast hinum mikla fjölda fólks sem þjáist af slitgigt. Rannsóknir á efnunum hafa hins vegar einkennst af skorti á fjármagni til þess að staðfesta áhrif þeirra, en lögmál lyfjaiðnaðarins eru þeim andstæð. Því hafa opinberir aðilar í Bandaríkjunum (NIH) ákveðið að standa fyrir stórri rannsókn á notkun glúkósamíns og kondróítíns hjá slitgigtarsjúklingum á þessu ári. Þetta eru góð tíðindi, en eftir þessa rannsókn verður vonandi hægt að slá föstu hver staða þessara efna verður í framtíðinni. Ég reikna einnig með að fleiri fæðubótarefni verði rannsökuð með vísindalegum aðferðum á næstu árum, en í síðasta hefti tímarits samtaka slitgigtarvísindamanna (Osteoarthritis and Cartilage) birtist rannsókn á engiferi, en það virtist ekki hafa áhrif á einkenni slitgigtar.

Framhaldið

Þó svo að ég fagni því að lyfjablanda af glúkósamíni og kondróítíni sé nú fáanleg á Íslandi, er erfitt fyrir mig sem lækni að mæla með efni sem selt er án nokkurrar ábyrgðar á innihaldi, en hérlendis er engin aðstaða til þess að gera stikkprufur á innihaldi fæðubótarefna. Ég tel að það hljóti að vera til hagsbóta fyrir alla, sjúklinga, seljendur og stjórnvöld að komið sé á einhvers konar eftirliti sem getur fylgst með efnum af þessu tagi. Ég vil enda þennan pistil með því að lofa framhaldi þegar niðurstöður úr stóru amerísku rannsókninni liggja fyrir.