Fitufordómar í heilbrigðisþjónustu

Fitufordómar eru fyrirfram gefin, neikvæð viðhorf og staðalmyndir um feitt fólk. Því hefur verið haldið fram að slíkir fordómar séu síðasta tegund leyfilegra fordóma í vestrænum samfélögum sökum þess að þeir finnast á öllum stigum samfélagsins og kalla ekki fram reiði eða hneykslun á sama hátt og aðrir fordómar. Skemmst er þess að minnast þegar bókin Tíu litlir negrastrákar var endurútgefin hér á landi fyrir nokkkrum árum og hávær mótmæli spruttu fram þar sem mörgum þótti forkastanlegt að halda slíkum kynþáttafordómum að börnum. Aftur á móti koma fitubrandarar og neikvæð framsetning feitra einstaklinga reglulega fram í öllu fjölmiðlaefni, þar á meðal barnaefni, án þess að það veki nein sérstök viðbrögð innan samfélagsins. 

Þegar fordómar eru hluti af almennum samfélagsviðhorfum þá finnast þeir allsstaðar. Rannsóknir hafa sýnt að fitufordómar koma fyrir allt frá leikskóla til háskóla, í einkalífi, atvinnulífi, fjölmiðlum og innan heilbrigðisþjónustunnar. Fitufordómar í heilbrigðisþjónustu birtast með ýmsum hætti en rannsóknir hafa meðal annars sýnt að feitt fólk er gjarnan álitið erfiður sjúklingahópur og takmarkaður árangur af þyngdartapi frekar rakinn til persónulegra misbresta en þess að megrunaraðferðir séu gagnslitlar eða óraunhæfar. Algengar staðalmyndir um feitt fólk eru að það sé matgráðugt, latt, veiklundað og skorti sjálfsaga.

Fordómar og mismunun koma ekki alltaf fram með áberandi hætti eins og ókurteisi eða særandi framkomu. Ein birtingarmynd fitufordóma er til dæmis þegar hvers kyns kvillar, verkir eða vanlíðan er sjálfkrafa rakin til holdafarsins. Þessi viðbrögð kunna að virðast skynsamleg í ljósi þess að offitu fylgir aukin hætta á ýmsum sjúkdómum en þó ber að hafa í huga að veikindi geta auðvitað átt sér aðrar og fleiri orsakir. Ef sjúklingur fær sífellt þau viðbrögð að kvillar hans séu til komnir einfaldlega „af því hann er svo feitur“ getur hann upplifað það sem svo að verið sé að gera lítið úr kvörtunum hans eða jafnvel kenna honum um ástand sitt. Slík  reynsla getur verið bæði særandi og niðurlægjandi auk þess sem hætta skapast á því að aðrar mögulegar skýringar á heilsubrestum fari ógreindar með alvarlegum og jafnvel óafturkræfum afleiðingum.

Bent hefur verið á að fitufordómar í heilbrigðisþjónustu geti haft alvarleg áhrif á meðferð, klínískar ákvarðanir og umönnun feitra. Sömuleiðis geti neikvætt viðmót og skömm vegna vaxtarlags orðið til þess að feitt fólk leiti síður eftir faglegri ráðgjöf, meðferð og þjónustu heilbrigðiskerfisins. Nokkrar rannsóknir benda til þess að svo geti verið. Til dæmis sýndi bandarísk rannsókn að frestun og afpöntun læknisskoðana fór vaxandi með aukinni þyngd meðal kvenna. Helstu ástæðurnar voru skömm vegna holdarfars og löngun til þess að komast hjá yfirlestri læknis varðandi þyngdina. Í annarri rannsókn kom fram að feitar konur nýttu sér síður forvarnarmeðferð á borð við brjóstaskoðun, leggangaskoðun og strokusýnatöku við krabbameinsleit. Því er brýnt að auka vitund og umræðu um fitufordóma í heilbrigðisþjónustu og finna leiðir til að vinna gegn þeim. Við Yale háskóla er sérstök stofnun starfandi sem hefur m.a. það hlutverk að rannsaka, fræða og vinna gegn fordómum og mismunun á grundvelli holdafars. Á heimasíðu þessarar stofnunar er að finna ýmsan fróðleik og upplýsingar um hvernig sporna megi gegn fitufordómum innan heilbrigðisþjónustunnar: www.yaleruddcenter.org. Sömuleiðis er að finna ýmsan fróðleik á heimasíðu bandarísku NAAFA samtakanna (www.naafa.org), sem eru baráttusamtök fyrir réttindum og lífsgæðum feitra.

Mikilvægt er að notendur heilbrigðisþjónustunnar séu meðvitaðir um birtingarmyndir fitufordóma og takist á við þá frekar en að láta þá brjóta sig niður. Hér á eftir fara nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga ef fólk telur sig hafa orðið fyrir eða óttast að mæta neikvæðum viðhorfum:

  • Ekki kenna þér um. Manneskja sem verður fyrir fordómum á það aldrei skilið og ber ekki ábyrgð á því. Ef þú hefur orðið fyrir neikvæðu viðmóti eða óréttlæti vegna holdafars þíns þá er sökin hvorki þín né líkama þíns heldur manneskjunnar sem beitir þig slíku ranglæti.
  • Vertu vel upplýst(ur) og stattu með sjálfri/sjálfum þér. Ef þú berð virðingu fyrir þér er líklegt að aðrir geri það líka. Aflaðu þér upplýsinga um það sem hrjáir þig en hafðu í huga að þrátt fyrir að holdafar þitt geti verið áhrifaþáttur er ekki þar með sagt að þyngdin sé það eina sem skiptir máli. Grannt fólk glímir líka við kvilla sem gjarnan eru tengdir við offitu vegna þess að fleiri þættir koma til en bara holdafarið. Spurðu meðferðaraðila þinn hvaða aðrir þættir geti haft áhrif á ástand þitt og hvað grannri manneskju í sömu aðstæðum yrði ráðlagt.
  • Leitaðu raunhæfra lausna. Ef þér er ráðlagt að grennast, veltu þá fyrir þér fyrri tilraunum til þyngdartaps og hvernig árangur þeirra hefur verið. Niðurstöður langtímarannsókna benda til þess að það geti verið mjög erfitt að viðhalda þyngdartapi til lengri tíma og því er vert að velta fyrir sér öðrum möguleikum. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að heilsubót hlýst af bættum lifnaðarháttum þrátt fyrir takmarkaðar breytingar á líkamsþyngd. Ef til vill væri það raunhæfara markmið. Ef þyngdartap verður við að breyta lífsvenjum þá er það gott og gilt en ef það gerist ekki þá er engin ástæða til þess að hætta. Heilbrigðar lífsvenjur hafa ríkulegt gildi í sjálfum sér og hafa jákvæð áhrif á heilsu, líðan og lífsgæði óháð þyngdartapi. 
  • Þekktu rétt þinn. Notendum heilbrigðisþjónustunnar er ráðlagt að kynna sér lög um réttindi sjúklinga (sem finna má hér: http://www.althingi.is/lagas/136b/1997074.html). Heilbrigðisþjónustan er til staðar fyrir þig og þú átt rétt á kurteislegu viðmóti, skýrum svörum við spurningum þínum, ítarlegri skoðun og raunhæfum og gagnreyndum meðferðarkostum. Hver manneskja er einstök og aðstæður eru ólíkar. Þú átt rétt á því að þér sé mætt með skilningi og stuðningi hvar sem þú ert stödd eða staddur og þér hjálpað til heilbrigðis.
  • Ef þú telur þig hafa orðið fyrir ranglæti eða mismunun innan heilbrigðisþjónustunnar skaltu ekki hika við að láta vita. Þú getur rætt málið beint við þann sem hlut á að máli og útskýrt hvernig framkoma viðkomandi særði þig eða lítilsvirti. Það getur verið ákjósanleg leið af því stundum áttar fólk sig hreinlega ekki á því að það hafi sagt eða gert eitthvað sem ber merki um fordóma. Einnig getur þú komið ábendingum til yfirstjórnar heilbrigðisstofnunar, t.d. yfirlæknis eða yfirhjúkrunarfræðings á heilsugæslustöð. Að lokum getur þú sent formlega kvörtun til Landlæknis. Á heimasíðu Embættis landlæknis er að finna ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir notendur heilbrigðisþjónustunnnar ásamt leiðbeiningum um hvernig skuli bera sig að við kvartanir: www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/notendur-heilbrigdisthjonustu. Allt löggilt heilbrigðisstarfsfólk, hvort sem það starfar á heilbrigðisstofnun eða einkastofu, lýtur eftirliti og umsögn Landlæknis.

Afar mikilvægt er að fólk láti í sér heyra ef það er ósátt við þá meðferð eða framkomu sem það fær innan heilbrigðisþjónustunnar því allir þurfa að standa vörð um að heilbrigðiskerfið sé gott og réttlátt. Ef einhver sýnir þér óréttlæti er líklegt að svo verði einnig um aðra þar til einhver gerir athugasemd við framkomu viðkomandi.

Þrátt fyrir að hér hafi sérstaklega verið fjallað um fitufordóma í heilbrigðisþjónustu er því ekki haldið fram að slíkir fordómar séu meiri á þeim vettvangi en annars staðar. Staða þessara mála er þannig að flest okkar hafa þessa fordóma í einhverjum mæli, jafnvel þeir sem sjálfir eru feitir, enda er  meðvitund og umfjöllun um þetta málefni aðeins nýlega hafin. Í því samhengi er vert að hafa hugfast að í flestum tilfellum stafa fordómar ekki af illsku heldur af fáfræði. Svarið er því aukin vitund, umræða og rétt viðbrögð.

Höfundur greinar er Sigrún Daníelsdóttir, Cand.Psych
Sálfræðingur

Birt í Gigtinni 1. tbl. 2013