Vefjagigt og andleg líðan

Grein eftir Eggert S. Birgisson, sálfræðing.

Í gegnum tíðina hefur verið ríkjandi sú hefð að flokka sjúkdóma sem annað hvort andlega eða líkamlega og reynt hefur verið að skipa vefjagigt í annan hvorn flokkinn. Margir hafa viljað flokka vefjagigt sem andlegan sjúkdóm vegna þeirrar andlegu vanlíðanar sem fylgir henni. Enn aðrir hafa viljað flokka vefjagigt sem líkamlegan sjúkdóm. Samkvæmt læknisfræðilegri hefð þarf einhvers konar breyting á starfsemi eða byggingu vefja og líffæra eða lífefnafræðileg merki að vera til staðar svo hægt sé að flokka ákveðið ástand sem sjúkdóm. 

Ekki hefur enn tekist að sýna fram á að vefjagigt fylgi slíkar einstakar breytingar og því erfitt að kalla hana sjúkdóm með góðu móti. Það fylgja því einnig ákveðin vandkvæði að kalla vefjagigt andlegan sjúkdóm því þó að andleg einkenni sem fylgja vefjagigt séu mörg þá virðast líka verða breytingar á miðtaugakerfinu hjá þeim sem eru með vefjagigt. Niðurstaðan hefur því orðið sú að vefjagigt er flokkuð sem heilkenni sem þýðir að þegar ákveðin einkenni eru til staðar og hafa verið það í ákveðinn tíma hjá manneskju er hægt að greina ástandið sem vefjagigt.

Það virðist liggja ljóst fyrir að það er ekki gott fyrir framgang rannsókna á vefjagigt eða meðferðar við henni að flokka hana samkvæmt þessari hefð og haga rannsóknum og meðferð eftir því. Enda láta flestir sem fást við rannsóknir á vefjagigt og meðferð við henni þetta ekki trufla sig og gera sér grein fyrir því að hvernig sem vefjagigt er flokkuð þá eru vandamálin fyrir þá sem þjást af henni þau sömu.

Mikið hefur verið skrifað um hvernig vefjagigt lýsir sér eða hvaða einkenni fólk með vefjagigt hefur og hverjar gætu verið orsakir vefjagigtar. Eins og með allt annað sem ekki hefur verið skilgreint til hlítar þá hefur fólk mismunandi skoðanir á orsökum vefjagigtar en flestir eru þó líklega sammála um að verkirnir sem fylgja vefjagigt orsakast af röskun á starfsemi miðtaugakerfisins sem kallast miðlæg næming. Miðlæg næming hefur í för með sér að fólk er viðkvæmara fyrir sársauka eða hefur lægri sársaukaþröskuld. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um uppruna og orsakir vefjagigtar. 

Konur eru í meirihluta þeirra sem greinast með vefjagigt og í rannsóknum eru þær allt að sex sinnum fleiri. Af hverju kynjaskipting er á þessa leið er ekki vitað nákvæmlega en líklega er þar margt sem hefur áhrif. Kynhormón gætu haft áhrif og gert konur móttækilegri fyrir einkennum vefjagigtar, það er einnig mögulegt að karlar leiti sér síður aðstoðar við einkennum vefjagigtar af einhverjum ástæðum eða læknar greini karla sjaldnar með vefjagigt. Hver sem ástæðan er þá er það staðreynd að konur eru í meirihluta þeirra sem greinast með vefjagigt.

Fyrir þá sem fást við vefjagigt er eins og ljóst er af framansögðu líklega best að líta ekki á hana sem annaðhvort líkamlegan eða andlegan sjúkdóm heldur sem ástand sem orsakast af líkamlegum, andlegum og félagslegum þáttum. Líkan af vefjagigt sem inniheldur þessa þrjá þætti gerir ráð fyrir bæði líkamlegum og andlegum orsökum verkja og gerir einnig ráð fyrir því að verkir og önnur einkenni vefjagigtar geti hafist vegna erfða, áfalls eða sjúkdóms og sé svo viðhaldið af samverkan líffræðilegra, sálrænna og félagslegra þátta.

Þætti þessa líkans má setja í þrjá flokka. Þá sem geta gert fólk berskjaldað fyrir vefjagigt, þá sem geta hrint vefjagigt af stað og þá sem geta viðhaldið vefjagigt. Með þess háttar flokkun er gert ráð fyrir að allir þessir þættir verki saman og geti haft áhrif á upptök og þróun vefjagigtar. Af niðurstöðum rannsókna má leiða að því líkur að svo sé en þó verður alltaf að hafa í huga að hver manneskja er einstök og að ekki gildir það sama fyrir alla. Þess vegna er líklegt að einhvers konar sambland af þessum þáttum eigi við í hverju tilviki fyrir sig en að hjá engum tveim manneskjum með vefjagigt sé endilega um sömu atburðarás eða áhrifavalda að ræða.

Í töflu 1 má sjá þessa flokka og þætti innan þeirra sem hafa verið nefndir sem áhrifavaldar í upptökum og þróun vefjagigtar. 

Tafla 1. Þættir sem hafa áhrif á upptök og þróun vefjagigtar


Þættir sem geta gert fólk berskjaldað fyrir vefjagigt

 

Þættir sem geta hrint vefjagigt af stað

 

Þættir sem geta viðhaldið vefjagigt

 

Erfðir

 

Áföll, slys og veikindi, þar með talið þunglyndi og kvíðaraskanir

 

Lífeðlisfræðilegir ferlar

 

Reynsla af sjúkdómum í æsku

 

Streita í vinnu og einkalífi

 

Hugmyndir um vefjagigt

 

Persónuleikaeinkenni, til dæmis miklar áhyggjur af heilsu

 

Vöðvaspenna

 

Streita, þunglyndi og kvíði

Skortur á trúnaðarvinum

 

Sjúkdómar

 

Athafnaleysi eða óvirkni

 

Lítil hæfni til að leysa úr vandamálum sem koma upp

Uppeldisaðstæður og tengsl við ástvini og ættingja Ófullnægjandi svefn

 

Ættingjar og vinir, styrking á sjúklingshlutverkinu og vantrú

 

Áföll, vanræksla, misnotkun og ofbeldi í æsku

 

 

Langvinnur ágreiningur eða ósamkomulag og erfið sambönd

 

Viðbrögð lækna og áhrif annarra meðferðaraðila

 


Til að taka dæmi um það hvernig þessir þættir geta verkað saman þá er hægt að taka dæmi um konu á miðjum aldri sem ólst upp við það að móðir hennar hafði mikla verki og var oft veik. Á heimili hennar var ekki mikið talar um tilfinningar eða þær tjáðar með hlýju og ástúð. Þarna eru komnir inn í sögu þessarrar konu tveir þættir úr líkaninu, það eru erfðir og uppeldisaðstæður og tengsl við ástvini og ættingja sem geta gert hana berskjaldaða fyrir vefjagigt. Snemma á unglingsárum verður þessi kona fyrir kynferðislegri misnotkun en talar aldrei um það af skömm eða af ótta við að verða ekki trúað. Það verður til þess að sjálfsmynd konunnar verður mjög brotin og hún fer síðar eða um miðjan þrítugsaldurinn að finna fyrir þunglyndi auk þess sem hún er í starfi þar sem streita er mikil. Þá er kominn til sögunnar enn annar þáttur sem getur gert konuna berskjaldaða fyrir vefjagigt eða kynferðisleg misnotkun auk þess sem hún fer síðar að finna fyrir þunglyndi og streitu sem geta hrint vefjagigt af stað. 

Upp úr þessu fer konan að finna fyrir einkennum vefjagigtar eins og verkjum, þreytu, höfuðverk og meltingartruflunum. Að auki byrjar hún að missa svefn og finna fyrir mikilli vöðvaspennu vegna streitu. Nú hefur konan heyrt um vefjagigt eftir að hafa farið til heimilislæknis og annarra lækna án þess að fá að vita hvað það er sem hrjáir hana. Hún fer því til gigtarlæknis og fær þá greiningu að hún sé með vefjagigt. En þó konan sé búin að fá greiningu leysir það ekki vandann sem hún glímir við, úrræði eru enn ekki svo mörg. Konan hefur tekið eftir því að þegar hún hreyfir sig mikið eða reynir mikið á sig á annan hátt þá versna einkennin mikið. Hún telur því að besta ráðið við vefjagigt sé mikil hvíld. 

Enn hefur konan ekki fengið viðeigandi meðferð við þunglyndi og streitu sem hrjáir hana né tjáð sig um kynferðislegu misnotkunina sem hún varð fyrir. Hér eru komnir þrír þættir sem geta viðhaldið vefjagigtinni en þeir eru í fyrsta lagi of mikil hvíld þegar hæfileg hreyfing og hæfileg hvíld væri það rétta. Í öðru lagi hefur verið sýnt fram á að þunglyndi geti stuðlað að og viðhaldið einkennum vefjagigtar og í þriðja lagi hefur það góð áhrif á einkenni vefjagigtar að tjá sig um áföll en það dregur úr streitu sem aftur dregur úr einkennum vefjagigtar. Dæmið um konuna er tilbúið en það getur þó átt við margt fólk með vefjagigt, að minnsta kosti að hluta til. Dæmið sýnir einnig fram á það hvað vefjagigt er flókið fyrirbæri og hversu margra þátta þarf að taka tillit til þegar kemur að meðferð.

Það er ágætt til skýringar að setja það fram myndrænt hvernig líkamlegir, andlegir og félagslegir þættir tengjast og hafa áhrif á einkenni vefjagigtar. Á mynd 1 má sjá myndræna framsetningu á þessum tengslum.

Myndræn framsetning

Mynd 1. Tengsl Líffræðilegra-, andlegra- og félagslegra þátta og einkenna vefjagigtar.

Samkvæmt þessu er því ljóst að vefjagigt er allt annað en einfalt fyrirbæri og þegar kemur að meðferð verður að taka tillit til margs. Ákjósanlegast væri að að meðferð kæmu gigtarlæknar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar til þess að hægt væri að fást við alla þá þætti sem stuðla að og viðhalda vefjagigt. Í fæstum tilfellum er það svo að allar þessar fagstéttir komi að meðhöndlun vefjagigtar hjá hverjum og einum sjúklingi. En þrátt fyrir það er margt hægt að gera og viðhorf sjúklinga sjálfra hafa mikið um það að segja hvernig meðferð mun ganga. Trúi fólk að hér sé um ólæknandi sjúkdóm að ræða sem það sjálft geti engin áhrif haft á eru batahorfur verri. Trúi fólk aftur á móti því að það sjálft geti með lifnaðarháttum sínum og lífsstíl haft einhver áhrif eru batahorfur betri.

Sálfræðileg meðferð við vefjagigt snýst í fyrsta lagi um að mynda gott samband sem byggt er á trausti og trúnaði á milli sálfræðings og skjólstæðings. Það er mikilvægt að skjólstæðingur fái nægan tíma til að tjá sig og segja frá líðan sinni og að sálfræðingur fái góða og tæmandi sögu skjólstæðings. Meðferðin byggist einnig á samvinnu og með því að þekkja sögu skjólstæðings síns og óskir hans eða hennar á sálfræðingur auðveldara með að sérsníða meðferð og koma með tillögur sem geta verið gagnlegar. Séu þunglyndi, kvíði eða streita til staðar er mikilvægt að veita viðeigandi meðferð við því. Það getur verið nauðsynlegt að ræða áföll hafi skjólstæðingur orðið fyrir þeim og eins að bæta svefnvenjur og auka virkni og hreyfingu smám saman. 

Að kenna vandamálalausnir og bjargráð getur líka verið mjög gagnlegt þar sem lítil vandamál geta vaxið og orsakað mikla streitu kunni fólk ekki að takast á við þau. Fræðsla fyrir aðstandendur er einnig ákaflega mikilvæg þar sem þeir þurfa að vita hvað vefjagigt er og hvernig þeir geta hjálpað til við meðferð. Það er einnig sárt fyrir þá sem eru með vefjagigt að mæta vantrú eða skilningsleysi hjá sínum nánustu.

Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að sálfræðileg meðferð við vefjagigt getur gagnast mikið en alltaf þarf að taka tillit til þess að enginn er eins og að sérsníða þarf meðferð að hverjum og einum. Meðferð getur tekið mislangan tíma en algengast er líklega að fólk þurfi frá sex og upp í sextán tíma. Nú orðið er algengt að stéttarfélög taki þátt í kostnaði vegna sálfræðimeðferðar. Fyrir þá sem ekki vinna eða eru öryrkjar þá er stundum hægt að fá styrk frá félagsþjónustu til að sækja sálfræðimeðferð.


Höfundur: Eggert S. Birgisson sálfræðingur.