Vefjagigt - að skilja ósýnilega verki

Grein eftir Arnór Víkingsson, gigtarlækni

Á síðustu 150 árum í sögu læknisfræðinnar  hafa á hverjum tíma verið einn eða fleiri sjúkdómar sem nutu ekki velþóknunar læknastéttarinnar eða  samfélagsins í heild og það þótti  jafnvel óvirðulegt að vera haldinn slíkum sjúkdómi.  Nægir þar að nefna berkla, geðsjúkdóma, alnæmi, offitu og áfengissýki.    Fjölmargir hafa mátt lifa við fordóma lærðra sem leikra af þessum sökum.   Með aukinni þekkingu og ekki síst bættum meðferðarmöguleikum hefur þessi neikvæða afstaða breyst,  sjúkdómarnir fengið formlegan sjúkdómsstimpil og almenningur tekið sjúklingana og vandamál þeirra í sátt.
Vantrú á tilvist vefjagigtar og fordómar í garð sjúklinganna hafa svifið yfir þjáningavötnum einstaklinganna allt fram á þennan dag.  Það er raunar ótrúlega stutt síðan vestrænir læknar skilgreindu vefjagigt sem ákveðinn sjúkdóm eða heilkenni (syndrome). Í þessari grein eftir Arnór Víkingsson, gigtarlækni, er fjallað um vefjagigtina, einkenni hennar, orsakir og meðferð.

Umræðan hófst fyrir alvöru á áttunda áratug síðustu aldar og það var síðan árið 1990 sem bandarísku gigtlæknasamtökin gáfu út skilmerki sín fyrir vefjagigt.  Athugið, það eru aðeins rúm tuttugu ár síðan !   Hvernig má það vera?  Var vefjagigt ekki til fyrir fimmtíu eða hundrað árum?  Jú vissulega, en fyrir þessa tíma vantaði ýmis púsl í heildarmyndina; menn tengdu ekki saman hin margvíslegu einkenni vefjagigtar, s.s. stoðkerfisverki, svefntruflanir, iðraólgu,  þunglyndi , hand-/fótkulda og fótaóeirð.  Og ekki  hjálpaði það vefjagigtarsjúklingum að tilvist og magn þessara einkenna er  illmælanlegt samkvæmt  hefðbundnum mæliaðferðum læknisfræðinnar – blóðrannsóknum og röntgenmyndum.   Fyrir vikið hafa vefjagigtarsjúklingar þvælst um innan heilbrigðiskerfisins, safnað í bakpokann sinn ýmsum sjúkdómsgreiningum (misréttum) og fengið ófullnægjandi lausn á vandamálum sínum.  
En ég hef góðar fréttir að færa:  Viðurkenning á tilvist vefjagigtar er orðin almenn, skilningi okkar á orsökum, eðli og afleiðingum hennar vex hratt og vitneskja um hvaða meðferðarleiðir eru ákjósanlegastar skýrist óðum.

Í þessum pistli ætla ég að skýra fyrir lesendum núverandi stöðu þekkingar okkar á vefjagigt í þeim tilgangi að gefa þeim hlutdeild í þeirri sannfæringu minni að í dag og enn frekar á næstu árum verði hægt að létta talsvert á svartnætti því sem hefur umleikið marga vefjagigtarsjúklinga.

 Hvað er vefjagigt?  Samkvæmt skilgreiningu bandarísku gigtlæknasamtakanna frá 1990 er sá einstaklingur með vefjagigt sem hefur langvinna stoðkerfisverki í öllum fjórum líkamshelmingunum (þ.e. bæði ofan og neðan við nafla, bæði í hægri og vinstri hlið líkamans), með áberandi einkenni frá búksvæði (hálsi, herðum, mjóbaki og rasskinnum) ásamt því að vera með ellefu eða fleiri af átján kvikupunktum til staðar við líkamsskoðun.   Svokallaðir kvikupunktar eru staðsettir á skilgreindum vöðva- og sinafestusvæðum sem gjarnan eru sár viðkomu hjá vefjagigtarsjúklingum, jafnvel við lítinn eða miðlungs þrýsting.  Þannig er í raun ótrúlega auðvelt að greina vefjagigt.     Það sem er hins vegar öllu erfiðara  í mati á einstaklingum með vefjagigt er að  ákveða hvort viðkomandi sé jafnframt með aðra sjúkdóma samfara, t.d. liðagigt, rauða úlfa eða vanstarfsemi í skjaldkirtli.  Mikilvægt er að greina slíka sjúkdóma og meðhöndla því þeir ýta undir vefjagigtareinkennin.

Einkenni vefjagigtar. 

Í vefjagigt sést afar fjölbreytt flóra einkenna (sjá mynd 1 á bls. 6) sem við fyrstu sýn virðast mörg hver eiga lítið sameiginlegt en með vaxandi þekkingu á eðli vefjagigtar er þessi flókna og oft furðulega sjúkdómsmynd að verða skiljanlegri.  
Allir vefjagigtarsjúklingarnir eru með langvinna stoðkerfisverki.   Algengastir eru þrálátir seiðingsverkir í hálsi  og herðum sem og í mjóbaki og á utanverðum mjaðmasvæðum.  Auk þess eru margir með verki í upp- og framhandleggjum, stundum með dreifðum verkjum í höndum og samfarandi kraftleysi/klaufsku.   Verkir í lærum og kálfum eru einnig algengir, einnig verkir í iljum og tábergi.   Þannig eru sumir vefjagigtarsjúklingar „alverkja”.  Margir segja verkina að öllu jöfnu vera 5-7 stig á 10-skala en aðrir skora verkina 8-9 stig.   Til viðbótar þessum stöðugu verkjum kvarta margir yfir stirðleika  í skrokknum sem getur verið æði hamlandi.   Þannig segjast margir sjúklingar vakna endurtekið um nætur bara við það að snúa sér í rúminu.   Eins draga verkir  með stirðleika oft úr hreyfifærni á morgnanna. 
Þreyta eða orkuleysi hrjáir velflesta vefjagigtarsjúklinga.   Stundum er þreytan minniháttar en umtalsverður fjöldi sjúklinga kvartar yfir lamandi þreytu sem þá verður stærsta vandamál einstaklingsins.   Í slæmum tilfellum hefur starfsorkan minnkað úr hefðbundnum 14-16 klst niðrí 2-4 klst á sólarhring.   Margt er á huldu um orsakir þessa þrúgandi orkuleysis en hjá mörgum sjúklingum er líklegt að umtalsverðar svefntruflanir eigi þar stóran hlut að máli.   Vefjagigtarsjúklingar hafa sterka tilhneigingu til að sofa mjög laust og vakna nokkrum sinnum að nóttu.   Sumir eiga jafnframt erfitt með að festa svefn á kvöldin og aðrir hafa tilhneigingu til að vakna snemma vegna verkja og stirðleika í skrokknum.  Þessir einstaklingar vakna yfirleitt ekki úthvíldir á morgnana.
Út frá ofansögðu er auðvelt að skynja vanlíðan meðalslæms vefjagigtarsjúklings sem er kannski 30 - 60 mínútur að koma sér í þægilega hvíldarstellingu í rúminu á kvöldin, er með andvara á sér hálfa nóttina og vaknar auk þess 3-4 sinnum.   Staulast síðan fram úr rúminu á morgnana verkjaður, stirður og vansvefta, og hugsar með kvíða til vinnudagsins þar sem aðalmarkmiðið er að þrauka daginn af frekar en að njóta vinnunnar.  Við höfum mörg upplifað slíka daga, t.d. þegar börnin okkar voru lasin og óróleg næturlangt.  Stóri munurinn er hins vegar sá að vefjagigtarsjúklingar upplifa þessa líðan flesta daga.  
Þessi staða skýrir þá staðreynd að í vestrænum samfélögum  eru meðallífsgæði vefjagigtarsjúklinga verri en flestra annarra sjúklingahópa, þar með talið sjúklinga með liðagigt, slitgigt, krabbamein og hjartasjúkdóma.
Með tímanum greinast um 30% vefjagigtarsjúklinga með þunglyndi og jafnvel hærra hlutfall með kvíðaröskun.   Í mörgum tilfellum eru depurð og kvíði afleiðing langvinnra verkja og þreytu en stundum er undirliggjandi depurð og/eða kvíðaröskun stór orsakaþáttur í tilurð og þróun vefjagigtar.
Á mynd 1 er langur listi einkenna frá ýmsum líffærakerfum, s.s. hægðaóregla, tíð þvaglát, hraður hjartsláttur, mígreni höfuðverkir, hand- og fótkuldi.  Sammerkt öllum þessum einkennum eru tengsl við ósjálfráða taugakerfið.  Þessi veigamikli hluti taugakerfisins sér um alla sjálfvirka (ósjálfráða) starfsemi líffæra, þ.e. þá starfsemi líkamans sem meðvitund okkar stjórnar ekki.  Í heilbrigðum einstaklingum sinnir ósjálfráða taugakerfið hlutverki sínu þegjandi og hljóðalaust daga sem nætur án þess að við verðum mikið vör við það.   Bróðurparturinn af vefjagigtarsjúklingum hafa hins vegar einkenni um vanstarfsemi í ósjálfráða taugakerfinu í  einu eða fleiri líffærakerfum.   Þessi vanstarfsemi er á starfrænum grunni, ekki vegna vefjaskemmda.   Þar sem starfsemi ósjálfráða taugakerfisins er nátengd streitustöðvum heilans, aukast þessi einkenni iðulega samfara andlegu álagi. 

Orsakir og eðli vefjagigtar.  

Líklega hefur hver einasti vefjagigtarsjúklingur velt því fyrir sér hvers slags fyrirbæri vefjagigt eiginlega sé og ekki fundið gott haldbært svar.   „Af hverju ertu alltaf svona veik” spyr vinurinn.   „Ég er með vefjagigt”.   „Hvað er það?” spyr vinurinn.   „Það er ….. (bla, bla, bla..)  svarar sjúklingurinn, oft af lítilli sannfæringu.    Staða þessara sjúklinga er talsvert ólík stöðu t.d. sjúklinga með kransæðasjúkdóm þar sem með blóðprufum, hjartalínuriti, áreynsluprófi og kransæðamyndatöku er hægt að staðfesta og kortleggja sjúkdóminn gaumgæfilega og segja til um hvað skuli gera til að stemma stigu við honum.  Í kransæðasjúkdómi er einnig búið að skilgreina fjölmarga áhættuþætti.   Við vitum að erfðir, röskun í efnaskiptum (t.d. sykursýki, hækkað kólesteról), vissir atferlisþættir (t.d. streita) og umhverfisþættir (t.d. tóbak) auka áhættu á að fá kransæðasjúkdóm og með þessari þekkingu er á markvissan hátt mögulegt að spyrna við fótum.     Vefjagigtin sést ekki utan á fólki, mælist ekki í blóði, kemur ekki fram á röntgenmyndum og þrátt fyrir mikla verki og vanlíðan hefur hún ekki áhrif á líf sjúklinganna.  Vefjagigtin er að mörgu leyti ósýnileg öllum; aðstandendum, vinum, samfélaginu og oft á tíðum einstaklingnum sjálfum.    En þegar betur er að gáð (og það kemur á óvart) eru orsakaþættir í vefjagigt af svipaðum toga og almennt gildir um langvinna sjúkdóma.   Erfðaþáttur virðist sterkur - dóttir vefjagigtarkonu hefur áttfaldar líkur á að fá vefjagigt.  Efnaskiptaþættir s.s. sykursýki, vanstarfsemi í skjaldkirtli og offita er algengari á meðal vefjagigtarsjúklinga, atferlisþættir s.s. streita, kvíði og depurð hafa verulega áhrif í vefjagigt og umhverfisþættir s.s. slys og slæmar sýkingar virðast eiga verulegan þátt í að koma vefjagigtarferlinu á flug í yfir 50% tilfella. 

Þegar við fáum sáran verk er eðlilegt að verða óttasleginn.   Verkur er jú mikilvægasta aðvörunarmerki líkamans um yfirvofandi hættuástand, jafnvel lífshættu.   Ef ástæða skyndilegs verks er ekki ljós, förum við til læknis.    Við tökum sáran, skyndilegan verk alvarlega, enda full ástæða til.  Vefjagigtarsjúklingar hafa í áratugi farið með verkina sína til lækna, verið skoðaðir gaumgæfilega, farið í ýmsar rannsóknir og að lokum fengið hughreystandi klapp á öxlina frá lækninum með þeim orðum að „þetta er ekkert alvarlegt.   Það er engin bólga, drep eða skemmd í bakinu þrátt fyrir þessa slæmu verki”.   Allt er þetta satt og rétt hjá lækninum.   En hver er þá ástæðan fyrir þessum verkjum?   Lengi hafa læknavísindin átt erfitt með að skýra á fullnægjandi hátt eðli vefjagigtarverkja en nú eru að verða straumhvörf í þekkingu okkar.
Lífeðlisfræði verkja.  Verkur verður að öllu jöfnu til í einhverju líffæri líkamans (t.d. lið, vöðva, hjarta, ristli eða gallblöðru) við einhvers konar áreiti eða áverka á líffærið.   Þetta má kalla verkjauppsprettuna.   Verkjaboðin ferðast síðan eftir sársaukataugum frá líffærinu til mænunnar.   Í mænunni fer fram frumúrvinnsla verkjaboðanna.  Mjög væg verkjaboð (t.d. 5 stig af 100 mögulegum) stöðvast þarna og við finnum ekkert fyrir verk.   Sterkari verkjaboð (t.d. 20 stig af 100 mögulegum) eru send áfram frá mænunni til heilans þar sem verkjastöðvarnar skynja verkinn og við finnum samstundis til sársauka.  Um leið og við finnum til sendir heilinn boð niður til mænunnar með þau fyrirmæli að dempa eða slökkva á frekari verkjaboðum (verkjahömlunarkerfi miðtaugakerfisins).   Verkurinn er nefnilega búinn að gegna sínu veigamesta hlutverki í þessu ferli  - að láta meðvitund einstaklingsins vita af mögulegri hættu, alveg á sama hátt og öskrandi brunabjallan vekur grun um hugsanlegan eld.  Einstaklingurinn getur nú brugðist við hættunni; tekið fingurinn af brennheitri hellunni, slegið geitunginn af húðinni o.s.frv.  Haldi verkjaáreitið áfram (t.d. við beinbrot sem er um 6 vikur að gróa) myndast tímabundin verkjaofurnæming á svæðinu.   Þetta eru eðlileg og hjálpleg viðbrögð sem fær einstaklinginn til að hlífa svæðinu og flýta þannig fyrir að meinið grói heilt.   Þetta verkjasvörunarferli líkamans er í senn flókið og undursamlegt kerfi sem á hverjum degi, jafnvel á hverri klukkustund, vinnur að því að halda líkamsstarfseminni í jafnvægi við hin endalausu innri og ytri áreiti.
Í vefjagigt hefur starfsemi þessa flókna kerfis raskast.  Lítil verkjauppspretta (t.d. væg tognun, daglegt álag á liði, byrjandi slitgigt í fingri) sem skorar 5 stig af 100 mögulegum berst til verkjaúrvinnslustöðva í mænunni þar sem óþörf og óheppileg mögnun verkjaboða á sér stað þannig að þegar þau berast til verkjakjarna heilans er styrkur verkjaboðanna orðinn mun meiri, t.d. 20 stig.  Vefjagigtarsjúklingurinn skynjar því áreitið sem verk á meðan heilbrigður einstaklingur myndi ekki vita af því eða upplifa áreitið í mesta lagi sem mild óþægindi.  Verkjahömlunarkerfi miðtaugakerfisins sem á að slökkva á verknum er einnig bilað í vefjagigt.  Fyrir vikið slokknar á verkjasvörun miklu seinna en eðlilegt er og vefjagigtarsjúklingurinn finnur fyrir verk löngu eftir að áreitið er horfið.  
Þessi endurtekna verkjaskynjun sem hlýst af ofangreindri röskun stuðlar að því að með tímanum getur  þróast dreifð og vaxandi verkjaofurnæming, líkt og gerist við beinbrot.   Munurinn er þó sá að í beinbroti er verkjaofurnæmingin tímabundin en í vefjagigt yfirleitt til frambúðar.  Hálshnykkur hjá heilbrigðum einstaklingi er líklegur til að valda tímabundnum óþægindum en hafi viðkomandi tilhneigingu til vefjagigtar geta verkir og stirðleiki á hálssvæði orðið viðvarandi vegna ofannefnds ferlis og síðan breiðst út um allan líkamann.  Á þeim tímapunkti er viðkomandi kominn með vefjagigt.  Hálshnykkur er þannig ein af mörgum kveikjum vefjagigtar.
Fjölmargir þættir stuðla að því að magna eða dempa verkjaskynjun í gegnum verkjakerfi líkamans.  Meginreglan er sú að allt sem stuðlar að vanlíðan, streitu eða þreytu eykur verkjaskynjun (þ.e. lækkar sársaukaþröskuldinn) en andleg vellíðan, jafnvægi og líkamshreyfing dregur úr verkjaskynjun.  Bólguferli lækka sársaukaþröskuldinn.  Allir hafa upplifað það að vera aumir í líkamanum við snertingu eða lítinn þrýsting þegar viðkomandi er með 39˚C og „flensu”.

Í samantekt þá er hægt að tala um að einstaklingur sé erfðafræðilega útsettur fyrir að fá vefjagigt, hugsanlega í gegnum gen sem hafa áhrif á sársaukaskynjun eða streituþol.  Í gegnum langvinnt álag - líkamlegt, andlegt og/eða félagslegt – er hætta á að verkjakerfi líkamans verði viðkvæmara/brothættara þannig að einstaklingurinn finni oftar til og af minna tilefni.   Komi til skyndilegs áfalls geta langvinnir vægir verkir og þreyta á stuttum tíma breyst yfir í viðvarandi verki sem einstaklingurinn hefur ekki lengur stjórn á.   Hann er kominn með vefjagigt.   Sé ekkert að gert eru líkur á að ástandið versni því langvinnir verkir skapa meiri verki og þreytu sem skapa meiri langvinna verki.

Meðferð vefjagigtar. 

Meðferðarárangur í eldri rannsóknum var í einu orði sagt skelfilegur.   Sjúklingar með slæman sjúkdóm máttu búast við um 10% bata á næstu 5 árum eftir greiningu.   Með aukinni þekkingu á eðli vefjagigtar hefur árangurinn batnað en þó er enn talsvert í land að hann geti talist góður.  
Lykillinn að betri meðferðarárangri er einstaklingsmiðuð, samþætt meðferð þar sem reynt er að vinna á öllum þeim þáttum sem stuðla að aukinni virkni sjúkdómsins.   Það dugar ekki að vera bara í sjúkraþjálfun eða taka bara lyf.   Þessu er nákvæmlega eins farið í vefjagigt eins og í kransæðasjúkdómi þar sem sjúklingurinn þarf samhliða að taka lyf til að lækka blóðfitu/þynna blóðið/minnka álag á hjartað, stunda líkamshreyfingu, grenna sig og koma jafnvægi á líkamsstarfsemina.  Hjartasjúklingur sem einungis tekur blóðfitulækkandi lyf  en sleppir öðru er mun líklegri til að fara illa út úr sjúkdómnum.

Áður en meðferðaráætlun er ákveðin er nauðsynlegt að meta og ákvarða helstu þætti sem viðhalda vefjagigtinni eða hindra bata:  Leita að verkjauppsprettum, meta áhrifaþætti sem lækka sársaukaþröskuld hjá viðkomandi, meta líkamlega, andlega og félagslega heilsu, meta ástand stoðkerfis, vinnuumhverfi og líkamsþol, meta gæði svefns.
Lykilþættir meðferðar eru sex og þarf að huga vel að öllum þáttunum:
1.  Fræðsla um sjúkdóminn.   Mikilvægasti þáttur meðferðarinnar.   Þekking dregur úr ótta og óvissu sem er alltaf slæm til langframa.   Þekkingin gerir sjúklingnum kleift að ná valdi yfir sjúkdómsástandinu og verða gerandi í meðferðarferlinu. 
2.  Líkamshreyfing er sennilega næst mikilvægasti þáttur meðferðarinnar.   Mátuleg hreyfing styrkir „niðurnítt” stoðkerfi vefjagigtarsjúklinga, eykur þol og orku, bætir geðheilsu og  dregur úr verkjum.  Nánar er fjallað um þennan þátt í annarri grein í þessu tölublaði.
2.  Hugræn atferlismeðferð kemur næst í röðinni hvað varðar mikilvægi.   Meðferðin miðar m.a. að því að ná stjórn á verkjasvöruninni og  ná slökun.  Það ætti ekki að koma á óvart að hvoru tveggja þróast gjarnan í óæskilegan farveg hjá  alverkja og þreyttum einstaklingum.   Þjáður og pirraður einstaklingur er ekki líklegur til að ná góðum bata.   Nánar er fjallað um þennan þátt meðferðarinnar í annarri grein í þessu tölublaði.
3.   Lífsstílsbreytingar.   Vefjagigt snýst um að ná góðu jafnvægi í líkamanum, forðast það sem eykur álag á líkamsstarfsemina.   Vefjagigtarsjúklingar eru að meðaltali tveimur líkamsþyngdarstuðlum fyrir ofan meðaltal.   Offita getur augljóslega haft slæm áhrif á stoðkerfi líkamans.   Rétt og gott mataræði þar sem áhersla er lögð á neyslu grænmetis og ávaxta stuðlar að betra jafnvægi og vonandi minnkandi þyngd þar sem það á við.  Neyslu efna sem hafa hvetjandi áhrif á þreytt taugakerfi vefjagigtarsjúklinga á að halda í lágmarki.   Þar með talið er neysla hvít sykurs, koffein-innihaldandi drykkja og tóbaks.
4.  Svefnbætandi aðgerðir.  Svefntruflanir hrjá meginþorra vefjagigtarsjúklinga og rannsóknir hafa sýnt að sterkt samband er á milli mikilla svefntruflana annars vegar og verkja, stirðleika og þreytu hins vegar.   Stoðkerfisverkir og svefntruflanir hafa neikvæð áhrif á hvort annað – verkir hindra djúpan svefn og stytta heildarsvefntímann, svefnleysi lækkar sársaukaþröskuld og eykur þannig verkjanæmi.   Til eru fjölmargar leiðbeiningar um svefnbætandi aðgerðir sem vert er fyrir sjúklinga að kynna sér (t.d. á www.vefjagigt.is).  
5.  Lyfjameðferð.   Þar til á allra síðustu árum hafa rannsóknir á ágæti lyfja í meðferð vefjagigtar verið bæði fáar og smáar í sniðum og fyrir vikið reynst erfitt að fá klárar niðurstöður um notagildi þeirra.   Enn í dag eru engin lyf formlega skráð á Íslandi við vefjagigt.    Nokkrar vandaðar rannsóknir hafa verið gerðar á síðustu árum í Bandaríkjunum á gagnsemi Lyrica® (pregabalin) og Cymbalta® (duloxetin) í vefjagigt og í kjölfarið voru bæði lyfin viðurkennd og skráð af Lyfjastofnun Bandaríkjanna sem gagnleg lyf í vefjagigt.
Hvaða vefjagigtarsjúklinga eiga að fara á lyf við sjúkdómnum?    Ekkert einhlítt svar er til við þessari spurningu.    Í fyrsta lagi er hugsanleg lyfjameðferð aðeins hjálp eða stuðningur við aðra meðferð sem er fyrirhuguð, s.s líkamshreyfingu, svefnbætandi aðgerðir og slökun.   Nánast aldrei ætti að ávísa lyfjum í vefjagigt nema önnur meðferðarúrræði séu jafnframt virk.  Í öðru lagi er lyfjum aldrei ávísað við „vefjagigt” heldur til að bæta skilgreind einkenni eða vandamál sjúklingsins.  Hér fyrir neðan er stuttur listi yfir mögulega lyfjameðferð í vefjagigt. 
a.  Áberandi verkjaofurnæmi:  Íhuga pregabalin, duloxetin eða amitryptilin.   Þessi lyf hafa fjölþætt áhrif á verki: Draga úr mögnun verkjaboða, auka verkjahemlun miðtaugakerfisins og bæta gæði svefns.  Samkvæmt rannsóknum má vonast eftir 30-40% minnkun í verkjum og samfara því auknum lífsgæðum.  Athugið að hefðbundin verkjalyf hafa lítil sem engin áhrif á þennan mikilvægasta verkjaþátt vefjagigtarinnar.  Notagildi verkjalyfja er því takmarkað (sjá b-lið).
b.   Virkar verkjauppsprettur (sbr á bls  3 ) .  Dæmi um slíkt eru sjúklingar með liðagigt eða slæma slitgigt í hné samhliða vefjagigtinni.   Í báðum tilfellum getur verið mikilvægt að dempa verkjaboðin sem streyma frá hnénu.  Hér kemur til greina að nota bólgueyðandi gigtarlyf, paracetamól eða tramadól.   Fyrirfram eru ekki hægt að segja til um hvort verkjalyfin hjálpi.   Slíkt kemur í ljós við lyfjatökuna. 
c.  Lamandi þreyta:  Engin lyf eru líkleg til að hjálpa þessu erfiða vandamáli nema ef orsakir þreytunnar liggja í alvarlegum svefntruflunum eða fótaóeirð.
d.  Svefntruflanir:  Sé lyfjameðferðar þörf er æskilegast að nota pregabalin, gabapentin eða þríhringlaga geðdeyfðarlyf .   Þessi lyf hafa tilhneigingu til að dýpka svefn og bæta þannig gæði hans og auka líkur á að sjúklingurinn vakni endurnærður.   Lyfin eru ekki ávanabindandi.   Alloft eru stuttverkandi svefnlyf notuð (t.d. zopiclon og zolpidem) en engar rannsóknaniðurstöður eru til sem sýna að stuttverkandi svefnlyf hjálpi vefjagigtarsjúklingum til langframa. 
e.  Þunglyndi/kvíði:  Meðhöndlast eins og hjá öðrum einstaklingum með þessa kvilla.

 Ekki verður farið nánar út í gagnsemi og aukaverkanir einstakra lyfja en þegar verið er að ræða um hugsanlega lyfjatöku í vefjagigt er mikilvægt fyrir sjúklinginn að hafa eftirfarandi í huga:

  •   Forðast öfgar í viðhorfum til lyfja – ekki ofnota lyf, ekki hafna lyfjum.  
  •  Lyf eiga að skoðast sem hjálpartæki meðfram annarri meðferð.   
  • Byrja á mjög lágum lyfjaskammti og auka síðan í samráði við lækni. 
    Vefjagigtarsjúklingar geta verið mjög næmir fyrir áhrifum lyfja, bæði jákvæðum áhrifum og aukaverkunum.  Aukaverkanir eru oft mestar fyrstu 2-4 dagana en dvína þá eða jafnvel hverfa alveg.
  • Endurmeta gagnsemi lyfjanna í samráði við lækni.   Samkvæmt rannsóknum batnar vefjagigtarsjúklingum allt að 30% við sýndarlyfsmeðferð. Jákvæð áhrif sem læknirinn og sjúklingurinn röktu til lyfjameðferðarinnar gætu hafa verið sýndaráhrif.

Sjúkratilfelli I
Helena er 42 ára gömul kona sem kvartar um vaxandi stoðkerfisverki síðustu 2 ár, einkum á háls- og herðasvæði og í mjóbaki.  Fyrri saga um „vöðvabólgur” alveg frá unglingsárum.   Er stirð og verkjuð á morgnana en skánar upp úr kl 9.   Finnur til vaxandi þreytuverkja síðdegis og á kvöldin.  Fær alloft verri verkjaskot og þarf þá að hætta iðju sinni og jafnvel leggjast fyrir um stund.  Svefn hefur verið slakur síðustu mánuði – vaknar iðulega 4 sinnum á nóttu og er alls ekki úthvíld á morgnana.  Orkuleysi háir Helenu talsvert og hún á í vaxandi erfiðleikum með að komast í gegnum vinnudaginn.   Aðspurð um líkamshreyfingu segist hún fara í gönguferðir 2-3 sinnum í viku en er að öðru leyti alltof orkulaus og verkjuð til að sinna hreyfingu.   
Við líkamsskoðun er Helena með 13 af 18 kvikupunktum jákvæða við skoðun.   Herðar, upp-/framhandleggir, mjóbak, mjaðma-/lærsvæði eru hvellaum við lítinn þrýsting þannig að Helena kippist við.   10 mínútum eftir létta þreifingu á mjúkvefjasvæðum finnur hún enn til sársauka þar sem þrýst var á.  Lögð voru fyrir hana þunglyndis- og kvíðamatslistar og skoraði hún eðlilega á þeim.
Umræða:  Helena uppfyllir skilmerki fyrir vefjagigt.   Hún er með mikla verkjaofurnæmingu og slakan svefn.  Hún virðist lítið hafa gert í vandamálum sínum og ýmis viðbrögð hennar eru öfug við það sem æskilegt væri.   Þreyta og stoðkerfisverkir kallar nefnilega á aukna líkamsþjálfun – ekki minni.   Mikilvægt er þó að fara mjög gætilega af stað og oft undir leiðsögn því annars gæti Helenu versnað.  Einnig eru viðbrögð hennar við verkjaköstum ekki rétt.   Viðbrögðin benda til þess að verkirnir stjórni of mikið athöfnum hennar.   Hér kemur hugræn atferlismeðferð að góðum notum.   Vegna svefntruflana og mikillar verkjaofurnæmingar kemur vel til greina að reyna lyfjameðferð með t.d. amitryptilíni eða pregabalíni.

Sjúkratilfelli II.
Guðrún er 22ja ára gömul kona sem kvartar um verki í hálsi, herðum og upp í hnakka.   Fær oft höfuðverki.  Verkirnir byrjuðu þegar Guðrún var 14 ára en versnuðu talsvert fyrir 2 árum í kjölfar aftanákeyrslu.  Aðspurð segist Guðrún einnig fá verkjaseiðing í mjóbak en það truflar hana miklu minna.  Guðrún segist að öðru leyti vera heilsuhraust.   Við nánari eftirgrennslan nefnir hún að háls- og höfuðverkir versni talsvert í 5-7 daga í kringum tíðablæðingar.   Eins kemur fram að 16 ára gömul varð Guðrún fyrir kynferðislegu ofbeldi.  Svefn er viðunandi.
Líkamsskoðun staðfestir sjúkdómsgreininguna vefjagigt.   Mat á geðheilsu bendir til felmturröskunar og áfallastreitu.
Umræða:  Hér er ung kona með vefjagigt.   Samkvæmt sögu hennar og frekara mati eru nokkrir áberandi heilsufarsþættir sem hafa stuðlað að eða ýkja einkenni vefjagigtarinnar:  Kvíði og streita mögulega tengt kynferðislegri misnotkun, hálshnykksáverki og höfuðverkjaköst tengd tíðablæðingum.  Meðferðaráætlun ætti að felast í góðri fræðslu á eðli vefjagigtarinnar hjá Guðrúnu, líkamsþjálfun, úrvinnsla á felmturröskun og áfallastreitu.   Einnig kæmi til greina kvenhormónameðferð til að stöðva tímabundið tíðablæðingar og þar með vonandi draga úr höfuðverkjum.  Líkur eru á að síðar þegar aðrir þættir vefjagigtarinnar og andlegra heilsu hafa skánað, gæti Guðrún hætt á „pillunni” án þess að fá höfuðverkjaköst.

 Athugið að einkennalistinn er ekki tæmandi

A.  Einkenni sem nánast allir hafa
Útbreiddir stoðkerfisverkir
Stirðleiki
Þreyta
Svefntruflanir

Einkenni sem allir hafa
Áberandi á nóttunni og morgnana
Vaknar þreyttur eða búinn með orkuna fljótt
Sefur laust, vaknar oft yfir nóttina
B.  Geðheilsa og hugsun
Þunglyndi
Kvíði
Heilaþoka

Ýmist orsakaþáttur eða afleiðing vefjagigtar
Ýmist orsakaþáttur eða afleiðing vefjagigtar
Fylgir gjarnan þreytu og streitu

C. Einkenni tengd ósjálfráða taugakerfinu

         Hjarta- /æðakerfi
         Öndunarfæri
         Meltingarfæri
         Þvagfæri/kynfæri
         Húð
         Háls, nef, eyru
         Ónæmiskerfi
         Taugakerfi


Hraður hjartsláttur, lágur blóðþr., hand-/fótkuldi
Hósti, hæsi, andþyngsli, takverkur
Kviðverkir, hægðaóregla, fæðuóþol, ógleði
Tíð þvaglát, blöðruverkir, slæmir tíðaverkir
Þurrkur, roði, þroti, kláði
Suð, hella svimi, nefstífla, slímhúðarþurrkur
Flensulíðan, lengi að jafna sig eftir sýkingu
Fótapirringur, dofi, jafnvægisleysi,
Arnór Víkingsson, gigtarlæknir

Birt í Gigtinni, 1. tbl. 2010