Slitgigtarskólinn

Umfjöllun Gunnars Viktorssonar, sjúkraþjálfara um Slitgigtarskólann. 

Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar mæla fyrir um að þjálfun, sjúklingafræðsla og þyngdarstjórnun (ef þörf er á) skuli vera grunnmeðhöndlun við slitgigt í mjöðm og hné. Þrátt fyrir það sýna rannsóknir að mikið vantar upp á að öllum slitgigtarsjúklingum bjóðist meðferð sem uppfylli þessar leiðbeiningar. Hluti af ástæðunni kann að vera að það vanti heildstæða valkosti sem séu lagaðir að þessum sjúklingahópi og uppfylli á raunhæfan hátt fyrirmæli klínísku leiðbeininganna. Slitgigtarskólinn er nýjung hér á landi og eru m.a. markmið hans og hlutverk umfjöllunarefnið í þessari grein. 

Inngangur

Alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar mæla fyrir um að þjálfun, sjúklingafræðsla og þyngdarstjórnun (ef þörf er á) skuli vera grunnmeðhöndlun við slitgigt í mjöðm og hné1;2;3. Þrátt fyrir það sýna rannsóknir að mikið vantar upp á að öllum slitgigtarsjúklingum bjóðist meðferð sem uppfylli þessar leiðbeiningar4;5. Hluti af ástæðunni kann að vera að það vanti heildstæða valkosti sem séu lagaðir að þessum sjúklingahópi og uppfylli á raunhæfan hátt fyrirmæli klínísku leiðbeininganna6.

Í Svíþjóð hefur slíkur heildstæður valkostur, Bättre Omhändertagande av patienter med Artros (BOA) reynst vera vel framkvæmanlegur og árangursríkur til að minnka verki og auka lífsgæði sjúklinga. Frá 2008 hafa yfir 15.000 sjúklingar verið skráðir í BOA7.

Godt Liv med Artrose i Danmark (GLA:D) er áhrifarík dönsk útgáfa af slíku fjölþættu meðferðartilboði8.  GLA:D meðferð er nú í boði víða í Danmörku og nýtur stuðnings danska gigtarfélagsins.

Sex íslenskir sjúkraþjálfarar sem hafa farið á GLA:D námskeið við Syddansk Universitet í Óðinsvéum hafa tekið sig saman um að bjóða upp á samskonar meðferð á Íslandi.  Afraksturinn af vinnu hópins er Slitgigtarskólinn sem til stendur að kynna í þessari grein.

Slitgigtarskólinn

Slitgigtarskólinn er í boði hjá Sjúkraþjálfaranum ehf í Hafnarfirði, Sjúkraþjálfun Reykjavíkur ehf  og  Eflingu sjúkraþjálfun ehf á Akureyri. Heimasíða Slitgigtarskólans er slitgigt.is.

Ábending fyrir þátttöku í Slitgigtarskólanum er:

  • Liðeinkenni frá mjöðm og /eða hné sem hafa leitt til þess að einstaklingur leitar til heilbrigðiskerfisins.

Frábendingar fyrir þátttöku í Slitgigtarskólanum:

  • Aðrar orsakir fyrir einkennum (t.d. æxli, bólgusjúkdómur í lið, sequele eftir  mjaðmabrot).
  • Ef önnur einkenni eru meira vandamál en liðeinkennin (t.d. langvarandi almennir verkir eða vefjagigt).
  • Vegna þess hve fræðsla og leiðbeiningar eru mikilvægur þáttur hentar Slitgigtarskólinn ekki sem meðferð fyrir þá sem ekki skilja íslensku.

UpphitunFræðsla og þjálfun sjúklinga í Slitgigtarskólanum

Fræðsla og þjálfun í Slitgigtarskólanum byggir á nýjustu rannsóknum og að auki á hugmyndum og óskum frá sjúklingum og þjálfurum. Meðferðarhluti námskeiðsins  byrjar á tveimur fræðslutímum fyrir sjúklingana og  síðan fylgir sex vikna þjálfun. Í fræðslutímunum sem sjúkraþjálfari  sér um er leitast við að veita þátttakendum innsýn í sjúkdóminn og meðferðina með sérstakri  áherslu á þjálfun og sjálfshjálp. Fræðslutímarnir eru skipulagðir þannig að sjúklingarnir taka virkan þátt með spurningum og reynslusögum, meðal annars til að auka samheldni og hópefli meðal þátttakenda.

Eftir að námskeiðinu lýkur er þátttakendum ráðlagt  að halda áfram þjálfun og vera líkamlega virkir til að viðhalda árangrinum til lengri tíma.

Mat og prófun

Í byrjun og eftir að hafa farið í gegnum fræðslu og þjálfun (eftir 3 mánuði ) eru allir þátttakendur í  Slitgigtarskólanum metnir með tveimur spurningalistum. Annar er útfylltur af sjúkraþjálfara, hinn af þátttakandanum sjálfum og að auki undirgengst hver þátttakandi tvö próf til að meta líkamsástand.

Þátttakendur fá  svo  sendan spurningalista eftir 12 mánuði.

Svona fer þjálfunin fram

Þjálfun í Slitgigtarskólanum fer fram í hóp undir stjórn sjúkraþjálfara sem farið hefur á GLA:D námskeið. Æft er tvisvar í viku um sex vikna skeið. Í ákveðnum tilfellum hefur GLA:D  þjálfun farið fram sem sjálfsæfingar heimavið, en reynslan sýnir að það er tvöfalt meiri árangur af hópþjálfun með sjúkraþjálfara. Notast er við gagnreynda þjálfunaraðferð svo kallaða  NEMEX þjálfun (NeuroMuscular Exercise)9.                                                              

Stuðst er við Visual analog skala til að stjórna ákefð æfinga. Verkur upp í 2 á VAS er grænn eða öruggur verkur, verkur frá 2 upp í 5 er ásættanlegur. Verkur yfir 5 er hinsvegar sagður mikill verkur eða rauður og er ekki ásættanlegur. Fari verkur endurtekið yfir 5 við eða eftir æfingar þarf að minnka álagið. Jafnframt gildir að aukist verkur við og eftir æfingar verður hann að vera komin niður á það stig sem hann var fyrir æfingu innan 24 tíma. Hver þátttakandi  færir æfingadagbók þar sem skráð er verkja- og erfiðleikastig hverrar æfingar.

Hver æfingatími stendur í 60 mínútur og skiptist í þrjá hluta; upphitun, stöðvaþjálfun og slökun.

Upphitun

UpphitunUpphitun felur í sér 10 mínútur á þrekhjóli eða göngubretti. Álagið er lagað að einstaklingnum og er aukið á þessum 10 mínútum upp að því sem einstaklingurinn upplifir sem „nokkuð erfitt“.

Stöðvaþjálfun

Stöðvaþjálfunin samanstendur af fjórum stöðvum með áherslu á;

  • stöðuleika í bol/líkamstöðu
  • líkamsstöðu- og hreyfistjórnun
  • vöðvastyrk í ganglimum
  • starfrænar æfingar

Glaid3Oftast eru tvær æfingar gerðar á hverri stöð. Hver æfing er framkvæmd í 2-3 settum með 10-15 endurtekningum. Fylgst er með því að hver sjúklingur æfi með því álagi sem hentar honum. Það eru þrjú erfiðleikastig fyrir hverja æfingu. Þegar einstaklingur framkvæmir æfingu auðveldlega með góðri hreyfistjórnun færist hann upp um erfiðleikastig.  Æfingarnar eru gerðar fyrir báða fætur  þó áherslan sé á þann fót sem veikur er fyrir. Sumar æfingarnar eru gerðar fyrir framan spegil til að fá sjónræna endurgjöf frá hreyfingunni.

Slökun

Þessi hluti felur í sér gönguæfingar áfram og afturá bak, í um 10 metra í hvora átt, fyrir Slökunframan spegil. Ennfremur vöðvateygjur fyrir framvert og aftanvert læri, annaðhvort standandi með stuðningi eða liggjandi.  Þessi hluti ætti að taka um 10 mínútur í framkvæmd. 

Lokaorð

Framkvæmd  Slitgigtarskólans hefur gengið vel  á  Íslandi og þátttakendur verið mjög ánægðir með fræðsluna og þjálfunina. Það hefur sýnt sig að jafnvel einstaklingar með langt genginn sjúkdóm hafa gagn af námskeiðinu. Kemur mörgum á óvart hvað mikið þeir geta lagt á sig við æfingar ef rétt er að þeim staðið og hve mikil áhrif það hefur til að minnka verki og bæta líkamsástand. Engu að síður er staðreynd að búast má við betri árangri því fyrr sem þjálfun er hafin.  Mikilvægt er því að beina fólki með liðeinkenni frá hné og mjöðm sem fyrst í viðeigandi fræðslu og gagnreynda þjálfun.

 Gunnar Viktorsson, sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfarinn ehf, Hafnarfirði

 Heimildir

1. Fernandes L, Hagen KB, Bijlsma JW, Andreassen O, Christensen P, Conaghan PG, et al. EULAR recommendations for the non-pharmacological core management of hip and knee osteoarthritis. Ann Rheum Dis 2013; 72:1125-1135.

2. Sundhedsstyrelsen. Knæartrose – nationale kliniske retningslinjer og faglige visitationsretningslinjer. Sundhedsstyrelsen 2012.

3. Zhang W, Moskowitz RW, Nuki G, Abramson S, Altman RD, Arden N, et al. OARSI recommendations for the management of hip and knee osteoarthritis, Part II: OARSI evidence-based, expert consensus guidelines. Osteoarthritis Cartilage 2008; 16:137-162.

4. DeHaan MN, Guzman J, Bayley MT, Bell MJ. Knee osteoarthritis clinical practice guidelines -- how are we doing? J Rheumatol 2007; 34:2099-2105.

5. Snijders GF, den Broeder AA, van Riel PL, Straten VH, de Man FH, van Hoogen FH, et al. Evindence-based tailored conservative treatment of knee and hip osteoarthritis: between knowing and doing. Scand J Rheumatol 2011; 40:225-231.

6. Grol R, Grimshaw J. From best evidence to best practice: effective implementation of change in patients' care. Lancet 2003; 362:1225-1230.

 7. Thorstensson C, Dahlberg L. [BOA annual report 2012]  2013; 3

 8. Skou ST, Odgaard A, Rasmussen JO, Roos EM. Group education and exercise is feasible in knee and hip osteoarthritis. Dan Med J 2012; 59:A4554.

 9. Ageberg E, Link A, Roos EM: Feasibility of ne uromuscular training in patients with severe hip or knee OA: the individualized goal-based NEMEX-TJR training program. BMC Musculoskelet Disord 2010, 11:126

Birt í Gigtinni, 1. tbl. 2015