Slitgigt - Arthrosis

Grein eftir Helga Jónsson, gigtlækni. Birtist í Gigtinni, 1.tbl.1995.

Almennt

Slitgigt (arthrosis) er algengasti liðasjúkdómurinn og má segja að allir sem lifa fram á efri ár fái þessa gigt. Miðað við reynslu annarra þjóða má reikna með því að hægt sé að greina slitgigt með röntgenmyndum hjá að minnsta kosti 40% Íslendinga. Slitgigtareinkenni eru þó ekki jafn algeng en talið er að um það bil 15% af þjóðinni hafi einkenni sjúkdómsins. Einkennin eru algengari hjá konum. Oftast leggst slitgigtin á hryggjarliði, hné, hendur og mjaðmarliði.

Sjúkdómseinkenni

Einkenni sjúkdómsins eru fyrst og fremst verkir í liðum, oft tengdir áreynslu, en bólga og morgunstirðleiki eru ekki eins áberandi og við iktsýki. Einkennin eru oftast sveiflukennd og í byrjun er oft um að ræða væg köst tengd áreynslu hjá miðaldra fólki. Kvöld- og næturverkir eru algengir og einnig finna sjúklingar oft fyrir veðurbreytingum. Smám saman vilja einkennin þó verða meira samfelld en andstætt iktsýki er þetta hægfara sjúkdómur og horfur sjúklinga eru almennt betri. Svokölluð „Heberdens" slitgigt í höndum er sérstaklega algeng hjá konum um og eftir miðjan aldur en hún einkennist af rauðum og aumum hnútum við ystu fingurliði. Þessu fylgja oft einkenni frá þumli og veiklað grip.

Orsakir slitgigtar

Stundum eru ástæður slitgigtar í einstökum liðum augljósar, t.d. við meðfædda galla í stoðkerfi, eftir áverka eða bólgu sem valdið hafa ójöfnum á liðflötum. Mun algengara er þó að orsakir slitgigtar séu óþekktar. Þó er vitað að auknar líkur eru á því að fólk fái slitgigt eftir því sem aldurinn færist yfir, ef nánir ættingjar eru með slíka gigt, ef líkamsþyngd er óeðlilega mikil og einnig ef fólk stundar vissa tegund erfiðrar líkamlegrar vinnu.

Meðferð

Meðferð sjúkdómsins er margþætt. Hægt er að draga úr einkennum með lyfjameðferð, hjálpartækjum og sjúkra- og iðjuþjálfun. Auk þess hafa skurðaðgerðir gjörbreytt horfum sjúklinga með slæma slitgigt í mjöðmum, hnjám og öxlum en gerviliðaaðgerðir á þessum liðum eru nú algengar.

Stórauknar rannsóknir

Á síðustu árum hefur þekking á orsökum slitgigtar og meðferð stóraukist. Liðspeglanir og segulómunartæki gefa betri möguleika til að fylgjast með gangi sjúkdómsins en hægt er með röntgenmyndum. Rannsóknir á dýrum og lifandi brjóskfrumum hafa leitt í ljós að liðbrjósk hefur mun meiri hæfileika til að endurnýja sig en talið hefur verið. Þetta gefur vísbendingar um að hafa megi áhrif á gang slitgigtar með lyfjum. Nýlega hafa borist hingað til lands lyf frá Mið-Evrópu, en þau eru talin geta aukið nýmyndun á liðbrjóski og hamlað niðurbroti þess. Miklar vonir eru bundnar við meðferð með þessum lyfjum en hópur sjúklinga með hratt vaxandi slitgigtareinkenni fær nú slíka meðferð á göngudeild Landspítala.

Um höfund greinarinnar

Helgi Jónsson er doktor í gigtlækningum og starfar sem sérfræðingur á Gigtardeild LSH.