Fæðubótaefni

Grein eftir Magnús Jóhannsson, lækni og prófessor emeritus

Fæðubótarefni flokkast sem matvæli og eru, eins og nafnið gefur til kynna, ætluð til að bæta upp eitthvað sem við fáum ekki nægjanlega mikið af með því að borða venjulegan mat. Almenningur eyðir mjög miklum fjármunum í fæðubótarefni og þess vegna er brýnt að fá á hreint hvort þau geri eitthvað gagn. 
Í þessari grein fjallar Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor emeritus, um fæðubótaefni og hvort gagn geti verið af þeim. 

Hvers vegna fæðubótarefni?

Flestir sem nota fæðubótarefni eru að líkindum heilbrigt fólk í leit að forvörnum og betri heilsu. Til viðbótar eru sjúklingar með langvinna eða ólæknandi sjúkdóma, sjúklingar sem hafa ekki fengið þá þjónustu í heilbrigðiskerfinu sem þeir vildu fá og einnig þeir sem stunda íþróttir. Ekki er í þessum stutta pistli fjallað um síðastnefnda hópinn.

Hverju er lofað?

Í auglýsingum er lofað hinu og þessu sem iðulega fær ekki staðist og stundum er um að ræða hreint skrum. Á Íslandi gilda Evrópureglur um hvað má og hvað má ekki segja í kynningarefni fyrir fæðubótarefni. Það má t.d. ekki lofa lækningu við tilteknum sjúkdómum þó að slíkt sé iðulega gert.

Rannsóknir og vitnaleiðslur

Algengt er að í auglýsingum vitni fólk um að það hafi fengið bata eftir notkun fæðubótarefnis. Ekki skal það dregið í efa en fyrir bata af þessu tagi geta legið fjölmargar ástæður og vitnaleiðslur geta aldrei komið í stað vandaðra rannsókna. Stundum er fólki borgað fyrir að vitna og þekkt dæmi eru fyrir því að frægir einstaklingar (íþróttastjörnur, kvikmyndaleikarar, stjórnmálamenn, o.s.frv.) vitna gegn greiðslu. Stundum er í auglýsingum sagt að rannsóknir hafi sýnt þetta eða hitt en þegar uppgefnar heimildir eru skoðaðar kemur iðulega í ljós að lítil eða jafnvel engin innistæða er fyrir fullyrðingunum. Í nýlegu dæmi var innflytjandi krafinn um heimildir fyrir fullyrðingum um virkni, hann skilaði lista með ríflega 20 heimildum en einungis fáeinar voru niðurstöður rannsókna og engin þeirra fjallaði um áhrif viðkomandi fæðubótarefnis á menn.

Geta fæðubótarefni verið skaðleg?

Flest fæðubótarefni eru af fullnægjandi gæðum og skaðlaus. Á þessu er því miður nokkuð af undantekningum þar sem vara inniheldur efni eins og þungmálma eða lyf, sem ekki er getið í innihaldslýsingu. Á hverju ári eru fæðubótarefni tekin af markaði í Evrópu af þessum ástæðum; algengasta ástæðan er íblöndun lyfja til að varan fái virkni. Stundum vantar líka efni sem varan á að innihalda. Dæmi um annars konar varasama virkni eru fæðubótarefni með hormónavirkni sem getur verið varasöm (t.d. fæðubótarefni unnin úr tófú eða öðrum sojaafurðum). Grænt te sem drykkur er eflaust hollt en þegar búið er að draga úr því virk efni og setja í töflur eða hylki getur það valdið lifrarskemmdum. Margir efast um ágæti andoxunarefna og ekki hefur verið sýnt fram á með rannsóknum að þau bæti heilsuna. Út frá fræðilegu sjónarhorni gætu andoxunarefni verið skaðleg við vissar aðstæður en ekki hefur verið sýnt fram á slíkt með óyggjandi hætti. Beta-karóten er gula litarefnið í sumum tegundum grænmetis (gulrótum, sætum kartöflum o.fl.), það breytist í A-vítamín í líkamanum og hefur fleiri verkanir. Beta-karóten getur við vissar aðstæður aukið hættu á krabbameini.
Fæðubótarefni hafa aukaverkanir sem eru sennilega vanmetnar; í bandarískri rannsókn kom t.d. í ljós að einungis um 1% aukaverkana fæðubótarefna skiluðu sér inn í skráningarkerfin.

Fæðubótarefni við slitgigt

Við slitgigt hafa einkum verið notuð þrjú fæðubótarefni: glúkósamín, kondróitín og hýalúronsýra. Glúkósamín var lengi notað sem fæðubótarefni en breyttist í lyf (Glucomed) þegar sýnt var fram á verkjaminnkun við slitgigt í hné. Glúkósamín gerir hugsanlega gagn hjá sumum einstaklingum með slitgigt í öðrum liðum en hné. Á vegum Alþjóðasamtaka rannsakenda slitgigtar (OARSI) og Fæðuöryggisstofnunar Evrópu (European Food Safety Authority, EFSA) hafa verið gerðar úttektir á kondróitíni og hýalúronsýru til inntöku. Niðurstaðan var að þessi fæðubótarefni séu líklega með öllu gagnslaus við slitgigt þegar þau eru tekin inn. Hýalúronsýru er stundum sprautað í liði og gerir það visst gagn hjá sumum sjúklingum.

Hvað er hægt að ráðleggja?

Þeir sem borða reglulega hollan og fjölbreyttan mat, sem er hæfileg blanda af kjöti, fiski, kornmeti, grænmeti og ávöxtum, fá nokkurn veginn allt sem þarf. Að taka til viðbótar inn fjölvítamín, steinefnablöndur, prótínvörur eða ýmis efni úr jurtaríkinu er óþörf sóun á fjármunum. Einu þekktu undantekningarnar eru D-vítamín og kalk (kalsíum). Allir ættu að taka inn D-vítamín og þeir sem eru komnir yfir miðjan aldur ættu líka að taka inn kalk. Ráðlagður dagskammtur (RDS) fyrir kalk handa fullorðnum er 800 mg. RDS fyrir D-vítamín handa fullorðnum er 20 míkróg (800 ein.) en ýmsir hafa fært rök fyrir því að þörfin fyrir þetta vítamín sé talsvert meiri og dagleg neysla 100 míkróg (4000 ein.) er með öllu hættulaus. Þessu til viðbótar er hægt að mæla með lýsi.

Þar að auki eru til langvinnir sjúkdómar sem leiða til skorts á vissum vítamínum (t.d. B12) eða steinefnum (t.d. járn) sem þörf er á að bæta upp en þá erum við farin að tala um lyf en ekki fæðubótarefni. 

Höfundur er Magnús Jóhannsson, læknir og prófessor emeritus. 

Birt í Gigtinni 2. tbl. 2015