BÓLGUGIGT OG HJARTAÁFÖLL - AUKIN ÁHÆTTA – NÝJAR LEIÐBEININGAR

Grein eftir Þorvarð Jón Löve, gigtarlækni

Bólgugigt er sá flokkur gigtsjúkdóma þar sem sjálfsónæmi sem veldur viðvarandi bólgum og skemmdum er lykilþáttur í meingerð sjúkdómsins. Til þessa flokks teljast til dæmis iktsýki, sóragigt, hryggikt og rauðir úlfar, en slitgigt og vefjagigt eru ekki bólgugigtarsjúkdómar. Þessi pistill, eftir Þorvarð Jón Löve, gigtarlækni, fjallar eingöngu um tengsl bólgugigtar við hjartasjúkdóma, en engin slík tengsl eru þekkt í slitgigt eða vefjagigt.

Fyrstu vísbendingarnar – rauðir úlfar

Grunur um það að tengsl gætu verið á milli rauðra úlfa og þess að fá hjartaáfall vaknaði fyrir mörgum áratugum, og nefna má að rannsóknir Helga Jónssonar gigtlæknis á sjúklingum  í Svíþjóð árið 1989 gáfu þá þegar til kynna að hjartaáföll væru níu sinnum algengari meðal sjúklinga með rauða úlfa en almennings þar í landi. Þessi niðurstaða hefur verið staðfest og slípuð nánar til með síðari rannsóknum, og svo virðist sem sjúlingar með rauða úlfa séu með 2-3 sinnum meiri hættu á hjartaáföllum en almenningur.

Þessar fyrstu niðurstöður ollu því að farið var að leita skýringa á þessu fyrirbæri. Þótt þessi áhrif kynnu að skýrast að öllu leyti af sjálfum sjúkdómnum renndi rannsakendur í grun að hér gæti verið um afleiðingar langvinnrar bólgu að ræða. Því var ráðist í það að kanna í fleiri sjúkdómum sem valda langvinnri bólgu hvort svo kynni að vera. Iktsýki var rannsökuð næst á eftir rauðum úlfum. Þetta var ekki síst vegna þess að iktsýkin er algengust allra bólgugigtarsjúkdóma og því hægara um vik að rannsaka hana en suma aðra gigtsjúkdóma.

Iktsýki eykur áhættu á hjartaáföllum

Gerður hefur verið mikill fjöldi rannsókna á tengslum iktsýki við hjartasjúkdóma, og niðurstöðurnar eru allar á einn veg. Eftir að leiðrétt hefur verið fyrir hefðbundnum áhættuþáttum kransæðasjúkdóma á borð við reykingar, sykursýki og blóðfitu stendur eftir að iktsýki er sjálfstæður áhættuþáttur fyrir hjartaáföll. Áhættuaukningin er um 50% umfram almenning með svipaða áhættuþætti. Það sem vekur athygli við þessa niðurstöðu er að þessi áhætta er af svipaðri stærðargráðu og sú aukning á hættu á hjartaáfalli sem tengist því að vera með sykursýki. Þess vegna hefur verið kallað eftir viðbrögðum frá samtökum gigtlækna svo hægt verði að leiðbeina sjúklingum og læknum þeirra um hvernig best sé að bregðast við þessum upplýsingum.

Evrópusamtök gigtlækna (EULAR) sendu nýverið frá sér ítarlegar leiðbeiningar um það hvernig sérfræðinefnd sem starfaði á vegum félagsins mælir með að tekið sé á þessum málaflokki. Að sumu leyti byggja niðurstöður þeirra á sterkum gögnum, en að nokkru leyti er um að ræða túlkun þeirra á niðurstöðunum og huglægt mat á því hvað rétt er að gera við þær að svo stöddu. Þetta kemur til af því að þótt sannað sé að þeir sem eru með iktsýki hafi sem hópur aukna hættu á hjartaáföllum hefur engin rannsókn verið gerð sem sýnir að hægt sé að minnka hættuna á hjartaáföllum með því að nota til dæmis blóðfitulækkandi lyf. Það sem evrópsku gigtlæknasamtökin hafa lagt til er að við hefðbundið mat á 10 ára áhættu á kransæðasjúkdómum verði niðurstaðan margfölduð með stuðlinum 1,5 og sú niðurstaða síðan notuð til grundvallar meðferðarákvörðunum. Jafnframt er mælt með að sjúklingar með iktsýki láti gera slíkt áhættumat, en það er oftast framkvæmt af annað hvort heimilislækni eða hjartalækni. Það er hins vegar nokkur hughreysting í því að nýlegar rannsóknir benda til þess að meðferð við iktsýki sem beinist að því að draga úr sjálfsónæmissvarinu virðast jafnframt draga úr þessari auknu áhættu á hjartaáföllum. Frekari rannsóknir þarf þó að gera áður en hægt er að slá því föstu að meðferð við bólgugigtinni sjálfri sé fullnægjandi meðferð við þessari auknu áhættu.

Íslenskar rannsóknir

Nýleg rannsókn á öðrum sjálfsónæmissjúkdómi, risafrumuæðabólgu, sem gerð var hér á landi í samvinnu Gunnars Tómassonar gigtlæknis og Hjartaverndar, rennir stoðum undir þá hugmynd að bólgusjúkdómar sem valda viðvarandi bólgum auki hættuna á hjartaáföllum, hvaða nafni sem þeir nefnast, en Gunnar fann einmitt að áhættan fyrir hjartaáföll var 50% hærri hjá þessum sjúklingum. Leiðbeiningar þær sem evrópunefnd gigtlækna gaf út nýverið ná þó ekki til risafrumuæðabólgu.

Hins vegar leggur sérfræðinganefnd evrópusamtaka gigtlækna til svipaðar leiðbeiningar fyrir sjúklinga með hryggikt og sóragigt eins og þær sem lýst er hér að ofan fyrir iktsýki, en viðurkennir jafnframt að ekki eru fullnægjandi gögn til grundvallar þeim hluta leiðbeininganna. Varðandi sóragigtina er þó vísað til þess að það er vel þekkt að húðsjúkdómurinn sóri, og þá sérstaklega slæmur sóri, eykur áhættuna á hjartaáföllum í svipuðum mæli og iktsýki gerir. Þar sem gögn skortir til að staðfesta þessi tengsl í sóragigt hefur sá sem þetta ritar hafið undirbúning að því að rannsaka hvort þessi tengsl séu til staðar í framhaldi af fyrri rannsóknum á sóragigt hér á landi. Fengist hefur styrkur frá Evrópusambandinu til þess að skoða þetta á Íslandi í samstarfi við Björn Guðbjörnsson gigtlækni og Hjartavernd, og jafnframt verður skoðaður gagnagrunnur frá Bretlandi með þetta í huga. Niðurstöðurnar ættu að liggja fyrir innan fárra ára og varpa þá vonandi ljósi á það hvort hér sé um tengsl við allar bólgugigtir að ræða eða hvort tengslin séu bundin við ákveðna sjúkdóma.

Það er því ljóst að nýjar og nýlegar upplýsingar um tengsl sjúkdóma sem valda viðvarandi bólgu og hjartaáfalla ásamt nýlegum leiðbeiningum Evrópusamtaka gigtlækna munu í framtíðinni leiða til aukins samstarfs heimilislækna, hjartalækna, gigtlækna, húðlækna og ef til vill fleiri sérfræðinga um meðferð þessara sjúklinga hvað varðar áhættu á kransæðasjúkdómum. Það er von okkar sem stundum gigtlækningar á Íslandi að þær rannsóknir sem við stundum hér muni geta komið að gagni við að skýra þessa mynd og leiðbeina okkur til framtíðar.

Höfundur er Þorvarður Jón Löve, gigtarlæknir. 

Birtist í Gigtinni 1. tbl. 2012