Bandvefssjúkdómar og staðbundinn æðakrampi „Raynauds heilkenni“ - Hagnýt ráð
Svala Björgvinsdóttir þýddi.
Staðbundinn æðakrampi orsakast af truflun í taugastjórnun á æðasamdrætti og blóðflæði við hitabreytingu. Í stað þess að smáar slagæðar víkki út við kulda eins þær eiga að gera, þá dragast þær saman og hindra blóðflæði út í fingur og tær og jafnvel hjá sumum til nefbrodds og eyrnasnepla. Það er einstaklingsbundið hversu oft köstin koma. Sumir fá kast einu sinni til tvisvar á ári, meðan aðrir fá köst oft á dag. Orsök Raynauds heilkennis er óþekkt, en kuldi, hitabreytingar, streita og kvíði geta komið kasti af stað.
Staðbundinn æðakrampi orsakast af truflun í taugastjórnun á æðasamdrætti og blóðflæði við hitabreytingu. Í stað þess að smáar slagæðar víkki út við kulda eins þær eiga að gera, þá dragast þær saman og hindra blóðflæði út í fingur og tær og jafnvel hjá sumum til nefbrodds og eyrnasnepla. Franski læknirinn Maurice Raynaud lýsti fyrst staðbundnum æðakrampa, á 19. öld, og þaðan kemur nafnið „Raynauds heilkenni“.
Staðbundinn æðakrampi kemur í köstum. Þegar blóðflæðið minnkar þá verður húðin á einum eða fleiri fingrum og tám hvítleit, mislit og stundum dofin. Þegar blóðflæðið verður aftur eðlilegt verður húðin rauð eða fjólublá á litinn og jafnvel bólgin. Þessu getur fylgt sársauki, en þetta er ekki hættulegt. Það getur tekið blóðflæðið frá nokkrum mínútum upp í nokkra tíma að verða alveg eðlilegt aftur.
Það er einstaklingsbundið hversu oft köstin koma. Sumir fá kast einu sinni til tvisvar á ári, meðan aðrir fá köst oft á dag.
Orsök Raynauds heilkennis er óþekkt, en kuldi, hitabreytingar, streita og kvíði geta komið kasti af stað.
Staðbundinn æðakrampi er oft fylgisjúkdómur bandvefssjúkdóma. Um 20-25% sjúklinga með rauða úlfa og um 95% sjúklinga með herslimein eru með staðbundinn æðakrampa sem fylgisjúkdóm.
Um 5% almennings er með staðbundinn æðakrampa án fylgis við bandvefssjúkdóm (Morbus Raynaud). Hann lýsir sér þannig að æðarnar í húðinni draga sig saman við kulda án nokkurrar ástæðu.
Læknandi meðferð er ekki þekkt, en ýmis æðavíkkandi lyf geta minnkað einkennin.
Vert að vita
- Staðbundinn æðakrampa er aðallega hægt að fyrirbyggja með því að forðast kulda, hitabreytingar og streitu.
- Við kulda bregst líkaminn við með því að beina blóðinu til innri líffæra eins og hjarta og heila. Því verður minna blóðflæði til að hita upp útlimi eins og fingur og tær.
- Þekking um hvernig hægt er að viðhalda líkamshita er mikilvæg. Klæddu þig þannig að þú skýlir öllum líkamanum, áður en þér verður kalt. Fleiri þunn lög af fötum hlýja betur en eitt þykkt lag.
- Þú verður alltaf að vernda þá líkamshluta sem eru í beinni snertingu við kulda. Þetta á við um hendur, fætur, háls, höfuð og aðra líkamshluta sem geta orðið fyrir kulda. Um bert höfuð tapast 20% af líkamshitanum.
- Ullarfatnaður einangrar líkamshita þrátt fyrir að hann sé blautur eða rakur. Óhreinn ullarfatnaður missir mikið af hitaeinangrandi eiginleikum.
- Fatnaður úr angóru-ull er hlýrri en úr venjulegri ull af sauðfé, en ekki eins slitsterkur.
- Bómullarfatnaður heldur að þér kulda ef hann verður rakur eða blautur.
- Þegar maður blotnar notar líkaminn orku til að þurrka sig. Við það verður blóðflæðið til handa og fóta lélegra og maður upplifir sig gegnkaldan.
- Vindur eða trekkur leiðir til ofkælingar.
Hagnýt ráð til að fyrirbyggja staðbundinn æðakrampa
Utandyra
- Skipulegðu náið það sem þú ætlar að gera utanhúss áður en þú ferð út þegar kalt er í veðri og komdu í veg fyrir að þér verði kalt á höndum og fótum.
- Hafðu fatnað og skó á hlýjum stað. Hitaðu gjarna sokka og vettlinga áður en þú ferð í þá. Farðu í skó og utanyfirfatnað 4-5 mínútum áður en þú ferð út þannig að þú sért búin/n að hita þig upp.
- Við hreyfingu/virkni svitnar maður og líkaminn kólnar af rakanum sem leiðir til erfiðleika við að halda á sér hita. Vertu helst í ullarfatnaði næst húðinni, eða nærfötum sem halda raka frá sér.
- Reyndu að koma í veg fyrir að verða blaut/ur eða rök/rakur á höndunum
- Notaðu vettlinga í staðinn fyrir hanska yfir vetrartímann. Með því að nota vettlinga geta fingurnir hlýjað hver öðrum. Við leggjum til að þið notið tvö pör af vettlingum; ulllarvettlinga innst og vindþétta vettlinga yst.
- Gott er að nota belgvettlinga úr ull eða flísefni sem ná yfir úlnliðina í viðbót við aðra vettlinga.
- Gott er að nota prjónaða úlnliðshlíf eða úr þæfðri ull yfir úlnliði og jafnvel ökkla.
- Notaðu hanska yfir vor- og sumartímann. Vertu meðvituð/meðvitaður um að þröngir hanskar geta hindrað blóðflæðið. Komdu í veg fyrir þrýsting eða líkamsstöður sem geta leitt til verra blóðflæðis til fingra, eins og t.d. þegar maður ber þunga plastpoka eða heldur á tösku/veski í hendinni. Notaðu í staðinn bakpoka eða tösku á hjólum.
- Notaðu hanska við bílkeyrslu þannig að kalt stýrið kæli ekki fingurna. Hægt er að setja stýrishlíf yfir stýrið.
- Notaðu rúma skó með plássi fyrir auka innlegg og fleiri lög af þunnum sokkum. Skór með hitaeinangrandi innleggjum verja fæturna gegn kulda frá jörðinni. Skór úr Goretex “anda” og eru vatnsþéttir. Á skóvinnustofum og í íþróttavöruverslunum fást yfirleitt mismunandi tegundir af innleggjum, t.d. úr ull eða sem eru hitaeinangrandi.
Innandyra
- Hafðu ullarteppi undir lakinu í rúminu.
- Nauðsynlegt getur verið að sofa við lokaðan glugga yfir vetrartímann.
- Notaðu ullarnærföt á daginn og jafnvel á nóttunni. Dýrustu ullarnærfötin þurfa ekki endilega að vera þau bestu. Fyrir viðkvæma húð er best að nota treyjur eða síðbuxur úr ullar-silkiblöndu. Þessi nærföt eru dýrari og þarf yfirleitt að þvo í höndum.
- Gott getur verið að sofa með eitthvað um hálsinn til að koma í veg fyrir síspennu.
- Notaðu belgvettlinga úr ull eða flís ef þér verður kalt innandyra.
- Notaðu gjarnan stóran og góðan baðslopp til að halda að þér hita eftir bað eða heita sturtu.
- Oft er kalt í herbergjum með loftkælingu. Hafðu með auka peysu eða sjal á staði þar sem loftkæling er, eins og t.d. í bíó, leikhúsi, verslunum og á flugferðum.
Í eldhúsinu
- Notaðu hanska eða grillhanska þegar þú tekur á áhöldum sem eru köld. Það getur verið gott að hafa hanska hangandi við frystinn og ísskápinn.
- Þvoðu kartöflur og grænmeti í volgu vatni. Þeir sem eru með húðþurrk ættu að nota bómullarhanska inn í gúmmíhönskum þegar verið er við vinnu í vatni. Bómullarhanskar fást í apótekum.
- Notaðu glös sem eru einangruð þegar þú ert með kalt vatn.
- Veldu handföng með kuldaeinangrandi efnum, t.d. úr tré eða gúmmí.
Í vinnunni
- Athugaðu hvort vinnustaðurinn er með blástur frá loftræstikerfi eða loftkælingu.
- Vertu ekki þar sem er raki og kuldi.
- Við atvinnu utanhúss er mikilvægt að geta tekið hlé í upphituðu herbergi.
- Taktu með þér hitabrúsa með heitum drykk.
- Forðastu að vinna með blautar hendur, taktu með þér hanska ef þörf er á.
Hitunarútbúnaður
Með hitunarútbúnaði er átt við mismunandi tegundir hluta sem geta hjálpað fólki til að viðhalda líkamshita. Þetta getur t.d. verið rafmagnsteppi, mismunandi tegundir af hitabökstrum og hitaplötum, hitapokar með heitu vatni og vettlingar með rafmagnshitaþráðum.
Vert að vita
- Fyrir flestar tegundir hitunarútbúnaðar þarf maður að borga sjálf/ur. Athugaðu hvað er til að slíku í veiði-, sportvöru- og bifreiðaverslunum.
- Hafðu samband við iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara eða félagsráðgjafa og fáðu upplýsingar um hvort hægt sé að sækja um aðstoð til Tryggingastofnun ríkisins í sambandi við hitunarútbúnað sem hjálpartæki.
Hagnýt ráð í sambandi við notkun hitaútbúnaðar
Innandyra
- Hægt er að mæla með rafmagnsteppi til að hita upp rúmið ca. 15 mínútum áður en komið er að því að fara að sofa. Ístaðinn fyrir rafmagnsteppi er líka hægt að vera með hitapoka við fótagaflinn á rúminu. Rafmagnsteppi fást í raftækjaverslunum.
- Hiti í baðherbergisgólfi getur reynst vel til að hita upp fæturna ef manni er kalt.
- Á ferðalögum er hægt að nota litla hárþurrku til að ná upp hita í fingurna. Taktu eftir að það er mismunandi eftir löndum hvaða rafmagnsspenna er til staðar og hvernig rafmagnsklær eru notaðar.
- Hrísgrjónabakstrar, upphitaðir í örbylgju- eða bökunarofni, hafa góð og notaleg hitaáhrif á hendur eða fætur í ca. 20 mínútur. Maður getur útbúið þannig bakstra sjálf/ur. Bakstrarnir eru saumaðir úr mjúku efni í þeirri stærð sem maður vill og síðan er pokinn fylltur að 3/4 hlutum með grautarhrísgrjónum. Upphitunartími í örbylgjuofni fer eftir stærð bakstursins. Prófaðu þig áfram. Byrjaðu á að setja 30 sekúndur á fullum hita og auktu varlega hitann þar til baksturinn er um það bil 40 gráðu heitur. Þegar baksturinn er hitaður upp í bökunarofni þarf að reikna með lengri upphitunartíma. Fylgstu með – annars geta hrísgrjónin brunnið við!!!
- Einnig er hægt að kaupa sérhannaða hitabakstra m.a. fyrir axlir, bak, hendur og fætur hjá Gigtarfélaginu. Í apótekum eru til gelpokar/plötur sem bæði er hægt að nota heitar og kaldar.
Utandyra
- Litlar hitaplötur (bakstrar), gel eða „handhitarar“ halda á manni hita í ca. 40 mínútur og er hægt að nota í stuttri útiveru. Hitaplöturnar er hægt að nota margsinnis og endurhita aftur. Einnig eru til aðrar tegundir lítilla hitapakka sem notaðar eru til að viðhalda hita á höndum. Þær duga í 8-12 klst og eru ætlaðir til lengi útiveru. Þessar hitapakkar eru nokkuð dýrari í notkun, þar sem ekki er hægt að endurhita þær.
- Hitainnlegg í skó - eru sérstök innlegg með litlum „poka“ í sem staðsettur er undir táberginu. Hitapakka er smeygt í pokann og heldur hann hita í ca. 4 klst. Hitapakkinn sjálfur er einnota, en hægt er að kaupa auka hitapakka til að setja inn í innleggin. Sjá heimasíðu: www.chevalier.se.
- Einnig eru til innlegg með hitaplötu sem er staðsett undir táberginu og hituð með NiMH-rafhlöðu sem hægt er að endurhlaða. Fjórar hitastillingar eru á hitaplötunni og á lægsta hita heldur hún hita í tæpa 4 tíma. Til eru tvær gerðir af þessari tegund innleggs, M3 og M4. Munurinn á þessum tveimur tegundum liggur í stærð batterísins.
- Þessi innlegg fást m.a. í sérverslun skotveiðimannsins, Hlað og hjá Elnet Tækni. Sjá einnig ýmsar tegundir hitunartækja á heimasíðu: www.hotronic.com.
- Vettlingar, hanskar eða skóinnlegg með innsaumuðum rafmagnsþráðum geta verið nauðsynleg til að viðhalda hita utandyra. Einnig eru til skór sem eru með hitasóla sem fylgir hleðslutæki til að endurhlaða. Þessa hluti virðist vera erfitt að fá á Íslandi en er hægt að nálgast t.d. í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. Sjá heimasíður: www.bewellshop.com og www.cypromed.no.
- Notaðu skinn á stýri og bílsæti. Upphituð bílsæti geta verið nauðsynleg í köldum bíl. Ef slíkt er ekki til staðar, þá er hægt að kaupa rafmagnsmottur sem settar eru undir áklæðið bæði í sæti og á sætisbaki. Þær fást í bifreiðaverslunum. Einnig er til stýrishlíf með hitaleiðslu í sem er tengd við sígarettukveikjara í bílnum.
- Bílahitarar eru til sem hægt er að setja upp í bílnum til að forhita hann áður en farið er af stað. Hægt er að setja hitann af stað með fjarstýringu áður en hann er settur í gang. Bílahitarar fást m.a. hjá Bílasmiðnum.
- Gashitara er hægt að nota til að hita upp yfirbyggðar svalir eða verönd þegar maður vill njóta sumarkvölda utanhúss. Hægt er að kaupa gashitara m.a. í byggingarvöruverslunum og í Garðheimum og Blómavali.
Önnur atriði sem geta haft áhrif á staðbundinn æðakrampa
Vert að vita
- Kaffi, tóbak og sum lyf, t.d. mígrenlyf og blóðþrýstingslyf (betablokkari), leiða til þess að æðarnar draga sig saman.
- Við stórar máltíðir vill mikið af blóðflæðinu fara í meltingarferlið. Lélegt blóðflæði til útlima eins og fingra og táa veldur því að maður finnur fyrr fyrir kulda.
- Hreyfing, notkun vöðva og regluleg þjálfun bætir blóðflæðið og eykur hitatilfinningu.
- Nálarstunga gagnast sumum vel.
Hagnýt ráð til að fyrirbyggja staðbundinn æðakrampa
- Slepptu því að reykja, einnig að vera í kringum aðra sem reykja.
- Reyndu að forðast streitu.
- Athugaðu aukaverkanir lyfja í sambandi við samdrátt æðanna.
- Borðaðu reglulega og lítið í einu svo að líkaminn haldi betur jafnri hitaframleiðslu.
- Sumir finna meira fyrir kulda ef þeir borða kaldan mat og drekka eitthvað kalt rétt áður en þeir fara út.
- Forðastu að vera lengi í sömu stöðu. Hreyfðu fæturna, stattu upp og gakktu um. Þegar þú ert ekki að nota hendurnar skaltu hreyfa þær reglulega.
- Ráðleggingar um æfingar sem hægt er að gera þegar manni er kalt: Lyftu öxlunum hratt upp og niður þar til þér fer að hlýna.
- Sumum reynist vel að gera slökunaræfingar til að bæta blóðflæðið.
- Nudd getur aukið blóðflæðið og hitatilfinninguna. Árangurinn verður bestur þegar hægt er að blanda saman nuddi og þjálfun.
- Heitt bað, fóta- og handabað, gjarna með góðum ilmolíum, eykur vellíðan og bætir gegnumstreymi blóðsins.
Hagnýt ráð við köstum
- Hitaðu tær og fingur varlega upp
- Haltu kalda líkamshlutanum undir volgu vatni, ekki of heitu, þar til húðlitur verður eðlilegur aftur.
- Hitaðu fingurna í handarkrikanum eða á maganum.
Svala Björgvinsdóttir verkefnastjóri fræðslu og útgáfu GÍ þýddi greinina úr norsku, og staðfærði að íslenskum aðstæðum, með leyfi Norska Gigtarfélagsins sem gaf hana út sem bækling árið 2003. Á frummálinu er titillinn: SLE og Raynaudsfenomen – praktiske råd og tips. Höfundar: Randi Nossum og Siri Darre.