Fjölvöðvagigt (Polymyalia Rheumatica)
Grein eftir Halldór Steinsson gigtarlækni
Fjölvöðvagigt leggst helst á miðaldra og eldra fólk. Algengustu einkenni eru verkir og stirðleiki í herðum, öxlum, mjöðmum og lærum. Erlendis er fjölvöðvagigt talin fjórum til fimm sinnum algengari hjá konum en körlum. Á Íslandi reyndust 57% sjúklinga kvenkyns.
Almennt
Fjölvöðvagigt er sjúkdómur sem veitt hefur verið vaxandi athygli á undanförnum árum. Hann hefur vafalítið fylgt mannkyninu í aldir þótt ekki sé honum óyggjandi lýst fyrr en 1888. Sjúkdómurinn varð ekki almennt þekktur fyrr en á sjötta áratugnum, 1957, en þá var honum gefið nafnið "polymyalgia rheumatica".
Einkenni og tíðni
Fjölvöðvagigt leggst helst á miðaldra og eldra fólk. Algengustu einkenni eru verkir og stirðleiki í herðum, öxlum, mjöðmum og lærum. Stundum fylgir máttleysi þannig að fólk á erfitt með að ganga stiga eða rísa upp af stól. Liðverkir eru oftast ekki áberandi, né heldur sjáanlegar liðbólgur enda þótt oft megi sýna fram á þær með geislunarmyndum. Engu að síður sjást stundum liðbólgur hvenær sem er á sjúkdómstímanum. Getur þá verið ómögulegt að greina sjúkdóminn frá liðagigt. Reyndar hafa þessir tveir sjúkdómar fundist samtímis hjá sama sjúklingi þótt ekki sé það algengt.
Gagnaugaslagæðabólga
Nátengd fjölvöðvagigt er gagnaugaslagæðabólga (arteritis temporalis) sem oft sést samtímis fjölvöðvagigtinni. Könnun hér á landi sýndi að 52% sjúklinga með greinda gagnaugaslagæðabólgu voru einnig með einkenni fjölvöðvagigtar. Jafnframt greindist gagnaugaslagæðabólga hjá 19% fjölvöðvargigtarsjúklinga. Eru þetta svipaðar tölur og erlendis. Þótt gagnaugaslagæðabólga í sínu auðgreinanlegasta formi komi fram sem þykknun og eymsli gagnaugaslagæða, oftast samfara höfuðverk og dragi af því nafn, er nú þekkt að sjúkdómurinn getur lagst á flestar æðar í efri hluta líkamans, allt frá nýrum til heila, og valdið þar stíflum og óbætanlegum skaða. Við vitum einnig að þessi sjúkdómur hlýtur að vera algengari en tölur sýna þar sem rannsóknartækni er ekki fyrir hendi til vefjagreiningar í æðakerfinu öllu. Um gagnaugaslagæðabólgu gildir það sama og um fjölvöðvagigt. Einkennin geta verið margbreytileg. Stundum aðeins langvinnt slen og hiti.
Tíðni
Eins og að framan segir er fjölvöðvagigt sjúkdómur efri áranna. Tíðni fer vaxandi fram yfir sjötugt. Sjúkdómurinn hefur þó greinst hjá sjúklingum á fertugsaldri og yngsti sjúklingur í athugun okkar hér var 44 ára gamall.
Kynjamunur
Erlendis er fjölvöðvagigt talin fjórum til fimm sinnum algengari hjá konum en körlum. Á Íslandi reyndust 57% sjúklinga kvenkyns. Einungis 43% voru karlar. Hvort íslenskar konur fá sjúkdóminn sjaldnar eða hvort íslenskir karlar fá hann oftar en þekkist í nálægum löndum en ókannað mál. Algengistölur eru ekki þekktar hér á landi og reyndar óábyggilegar frá öðrum löndum þar sem greining hefur verið ýmsum annmörkum háð. Með aukinni vitneskju um sjúkdóminn ætti þó sjúkdómsgreiningin að verða áreiðanlegri og tölur marktækari. Nýtíðni erlendis hefur verið talin tvö til tíu tilfelli árlega miðað við 100 þúsund íbúa.
Fyrsta greining
Ég hef reynt að grennslast fyrir um það hvenær þessir sjúkdómar voru fyrst greindir á Íslandi. Fyrstur virðist Valtýr Albertsson læknir hafa greint gagnaugaslagæðabólgu í sjúklingi 1961. Árin 1964 og 1966 koma þessir sjúkdómar fyrst fram í skýrslum Landspítala og Landakotsspítala og æ tíðar eftir það.
Orsakir og meðferð
Orsakir fjölvöðvagigtar eru ókunnar. Getgátur eru um að sýkingar sem ákveðnir einstaklingar svari á þennan hátt. Þekkt er að hjón eða nánir ættingar veikist um svipað leyti og hefur það leitt til vangaveltna um mögulega smitun. Ekkert hefur þó sannast í þeim efnum enn.
Rannsóknir til greiningar eru engar sérhæfðar, þ.e.a.s. engin rannsókn er til sem greinir fjölvöðvagigt með vissu. Til stuðnings eru helst hækkanir á blóðsökki og bólguhvítuefnum í sermi. Þetta þýðir þó ekki að ekki þurfi að rannsaka sjúklinginn. Frekar hitt að meiri rannsóknir þurfi til að útiloka aðra sjúkdóma en ella. Þar sem fjölvöðvagigtarsjúklingur á fyrir höndum langa meðferð er ákaflega mikilvægt að greiningin sé vel staðfest áður en meðferð er hafin. Í meginatriðum byggist greiningin á einkennasamstæðum fundnum við viðtal og skoðun, helst hækkuðu blóðsökki þótt ekki sé það algilt og útilokun annarra sjúkdóma þar sem einkennin eru svipuð.
Gagnaugaslagæðabólga er sannanleg sé sýni frá gagnaugaslagæð jákvætt. Neikvætt sýni útilokar hins vegar ekki sjúkdóminn sem getur verið dreifður um fleiri æðar. Sem dæmi má nefna að helmingur sjúklinga með gollurshúsbólgu af völdum gagnaugaslagæðabólgu hafði ekki finnanlegar breytingar í gagnaugaslagæðum.
Talið er að fjölvöðvagigt læknist af sjálfu sér eftir ákveðið árabil sem þó er misjafnlega langt, frá einu ári til meira en tíu ára. Fyrstu athuganir á sjúkdómnum gáfu til kynna skemmri tíma en þær síðari og e.t.v. eru ekki öll kurl komin til grafar. Meðalmeðferðarlengd hóps íslenska sjúklinga á tímabilinu 1970 til 1984 reyndist vera um þrjú ár. Komið getur fyrir að sjúkdómurinn virðist læknaður og sjúklingurinn sé einkennalaus í nokkra mánuði en fái svo einkenni á ný. Þau eru þá oft vægari og svara meðferð vel.
Þótt fjölvöðvagigt sé ekki meðhöndluð eru varanlegar skemmdir ekki alvarlegar. Helst er um skerta hreyfigetu í öxlum og mjöðmum að ræða, „frostnir liðir". Þá má oft laga með sjúkraþjálfun og sterainnspýtingum. Aðalástæða meðferðar er því líðan sjúklingsins sem oft er mjög slæm. Einkennin hverfa oftast sem dögg fyrir sólu eftir fárra daga sterameðferð.
Systir fjölvöðvagigtarinnar, sem e.t.v. reynist vera eitt einkenna hennar, gagnaugaslagæðabólgan, getur hins vegar verið lífshættuleg án meðferðar. Heilaskemmdir, blinda, kransæðastífla og nýrnaskemmdir geta hlotist af svo eitthvað sé nefnt. Þar sem gagnaugaslagæðabólga er aldrei útilokuð með þeim rannsóknaraðferðum sem við höfum í dag verður alltaf að gera ráð fyrir því að hún kunni að vera fyrir hendi samfara fjölvöðvagigtinni. Því er nauðsynlegt að hefja meðferð sem allra fyrst til þess að koma í veg fyrir varanlegar vefjaskemmdir.
Aðallyf gegn þessum sjúkdómum eru „barksterar" og í sumum tilfellum „Imuran" eða „Dapsone". Fylgjast þarf reglulega með líðan, líffærastarfsemi og laga lyfjaskammta að heilsu sjúklingsins. Oftast má svo smádraga úr lyfjanotkun með tímanum uns henni er alveg hætt þegar sjúkdómurinn er horfinn.
Höfundur er Halldór Steinsson, gigtarlæknir.