Fjölvöðvagigt (Polymyalgi) og risafrumuæðabólga (Arteritis temporalis)

Hvað er fjölvöðvagigt og risafrumuæðabólga?

Þessir sjúkdómar eru nátengdir bandvefssjúkdómum, þar sem bólgubreytingar leggjast helst á meðalstórar og stórar slagæðar og í einhverjum tilfellum á liðhimnur. Í þessari grein eftir Torben Grube Christensen, sérfræðing í gigtarlækningum á Gigtarmiðstöð Roskilde í Danmörku (ReumaKlinik Roskilde),er fjallað um þessa sjúkdóma, einkenni, orsakir, horfur og rannsóknir. 

Hvað er fjölvöðvagigt og risafrumuæðabólga?

Þessir sjúkdómar eru nátengdir bandvefssjúkdómum, þar sem bólgubreytingar leggjast helst á meðalstórar og stórar slagæðar og í einhverjum tilfellum á liðhimnur.

Einkenni

Í fjölvöðvagigt færð þú verki og stífni í hálsi, öxlum og jafnvel í rassi og lærum sem byrjar frekar skyndilega og án þess að þú vitir afhverju. Einkenin eru oftast verst á morgnana og það er oft erfitt að lyfta handleggjunum yfir höfuðið. Mikill bjúgur getur einnig myndast á ristum og handarbökum. Meira en helmingur sjúklinga finna einnig fyrir þreytu, lystarleysi, þyngdartapi og fá jafnvel vægan hita.

Í risafrumuæðabólgu geta sömu einkenni komið fram, en sjúkdómurinn hefst oftast með höfuðverk, eymslum í höfuðkúpu, verkjum við að tyggja, skyntruflunum í handleggjum eða svima. Hjá örfáum sjúklingum byrjar sjúkdómurinn á skyndilegu sjónleysi, en þá oftast aðeins á öðru auga.

Horfur

Fjölvöðvagigt lýsir sér, eins og áður sagði, sem skyndilegir verkir og stífni í aðalvöðvahópum líkamans; í hálsi,  öxlum og herðum, mjaðmasvæði og lærum. Meðferð við fjölvöðvagigt er lyfjagjöf með nýrnabarkahormónum (bólgueyðandi sterar) og hefur meðferðin áhrif innan fárra daga. Það getur tekið ár áður en sjúklingur verður einkennalaus, en flestir ná sér að fullu.

Risafrumuæðabólga er mun alvarlegri sjúkdómur þar sem það geta komið fram alvarleg einkenni í þeim líffærum sem fá blóð úr sjúkum æðum. Ef sjúkdómurinn fer í æð sem veitir blóði í sjóntaugina eða í sjónu augans, þá getur það í versta tilfelli leitt til sjónleysis.
Meðferð með nýrnabarkahormónum (bólgueyðandi sterum) í nokkuð háum skömmtum stöðvar sjúkdóminn, en meðferðin getur ekki leiðrétt þann skaða á sjón ef sjóntap hefur orðið.

Hverjir fá sjúkdóminn?

Fjölvöðvagigt og risafrumuæðabólga leggjast eingöngu á einstaklinga sem eru komnir yfir fimmtugt og 80% af sjúklingunum eru komnir yfir sextugt þegar sjúkdómurinn kemur fram. Konur sem fá sjúkdóminn eru tvöfalt fleiri en karlar. Tíðni sjúkdómsins er breytileg efitir landsvæðum, en sjúkdómurinn er þó algengastur í Norður – Evrópu, sérstaklega á Norðurlöndunum.

Orsakir sjúkdómanna?

Orsakir beggja þessarra sjúkdóma eru óþekktar.

Skoðun og rannsóknir

Blóðrannsóknir sýna nánast alltaf hækkun á blóðsökki og/eða CRP (mælir bólgubreytingar í líkamanum). Í fjölvöðvagigt getur blóðsökkið þó verið eðlilegt hjá 10% sjúklinga. Einnig getur komið fram vægt blóðleysi.

Hægt er að sýna fram á risafrumuæðabólgu með því að taka vefsýni (í staðdeyfingu) úr gagnaugaslagæðinni (arteria temporalis). Í vefsýninu er svo hægt að sjá dæmigerðar bólgubreytingar, t. d. fjölfruma „risafrumur“, sem hafa einmitt gefið sjúkdómnum nafn sitt. Í nokkrum tilfellum er hægt að sjá vísbendingar um bólgubreytingar í axlarliðum með venjuegri ómskoðun eða með segulómskoðun (MRI).

Önnur rannsóknaraðferð er sneiðmyndataka sem getur í einhverjum tilfellum sýnt fram á bólgubreytingar í ósæð og fleiri stórum slagæðum líkamans og er hún framkvæmd þegar ekki hefur tekist að sýna fram á sjúkdóminn með vefsýnatöku.

Oft verða sjúklingar samt, sérstaklega með fjölvöðvagigt, að sætta sig við minna áreiðanlegar vísbendingar um sjúkdóminn. Í þeim tilfellum er það þó líklegast fjölvöðvagigt sem þú ert með ef meðferð með nýrnabarkahormónum (bólgueyðandi sterar eins og prednisolon) slær mjög fljótt á einkennin. Það er ekki óalgengt að heyra sjúklinga tala um að það hafi verið eins og fyrir „kraftaverk“ að einkennin voru horfin strax næsta morgun eftir að meðferð hófst.

Meðferð við fjölvöðvagigt og risafrumuæðabólgu

Hvað get ég gert sjáf/ur?

Þú skalt fara til læknis ef þú finnur fyrir þeim einkennum sem hér hefur verið lýst. Bæði vegna þess að einkennin geta verið merki um fjölvöðvagigt eða risafrumuæðabólgu, sem eru með réttri meðferð tiltölulega vægir sjúkdómar, en einnig vegna þess að það getur verið nauðsynlegt að gangast undir frekari rannsóknir til að útiloka aðra sjúkdóma sem geta jafnvel verið alvarlegir.

Almennt um meðferð

Aðallyfið við báðum sjúkdómum eru töflur sem innihalda nýrnabarkahormónið prednisolon (bólgueyðandi sterar). Í fjölvöðvagigt er byrjunarskammtur oftast um 10-20 mg á dag, en í risafrumuæðabólgu eru skammtarnir ívið hærri eða um 1 mg/kg líkamsþyngdar daglega. Lyfjaskammturinn er svo minnkaður, þegar einkenni og blóðpufur koma eðlilega út, en það er gert hægt og yfir nokkra mánaða tímabil. Ef það er gert of hratt, er hætta á að sjúkdómurinn blossi aftur upp.

Hjá u.þ.b. helmingi sjúklinga tekur það um 1/2 - 2 ár að hætta allri meðferð, en hinn helmingurinn mun þurfa að halda áfram á litlum steraskammti til að forðast einkenni sjúkdómanna.
Ýmsar rannsóknir benda til að sterameðferð, í bland við lyfið methotrexat, geti minnkað þörfina á sterunum ásamt því að minnka líkur á endurkomu sjúkdómsins. Í einstaka tilfellum getur meðferð með leflúnómíði (Arava) komið til greina.

Til að koma í veg fyrir beinþynningu, sem getur komið upp við inntöku á sterum, er mælt með að kalk og D-vítamin sé tekið inn á meðan á meðferð stendur. Læknirinn getur sent tilvísun í beinþéttnimælingu, þar sem hægt er að sjá beinþéttni þína. Ef merki eru um minnkandi beinþéttni getur verið þörf á að bæta við lyfjum (bisfosfónatar) til að auka beinþéttnina aftur.

Ef þú ert með risafrumuæðabólgu ert þú í meiri hættu á að fá blóðtappa. Þess vegna er mælt með að þú takir daglega acetylsalicylsyre (hjartamagnyl), t.d. 75 mg á dag.

Ef þú hefur fleiri spurningar skaltu ræða við heimilislækninn þinn.

 

Höfundur greinar:
Torben Grube Christensen, sérfræðingur í gigtarlækningum á Gigtarmiðstöð Roskilde í Danmörku (ReumaKlinik Roskilde)
Greinin er tekin af https://min.medicin.dk/Adresser/Forfatterereferenter/1663 og er þýdd og birt með góðfúslegu leyfi hans. Sunna Brá Stefánsdóttir, verkefnastjóri GÍ, þýddi.
Birtist fyrst í Gigtinni, 1. tbl. 2017