VIRK- starfsendurhæfing

VIRK vinnur að starfsendurhæfingu í samstarfi við stéttarfélög, atvinnurekendur, lífeyrissjóði, þjónustuaðila í starfsendurhæfingu og stofnanir velferðarkerfisins. Á vegum VIRK starfa sérhæfðir ráðgjafar staðsettir hjá stéttarfélögum víða um land. Þjónusta VIRK er því til staðar á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins, er einstaklingsmiðuð og einstaklingum að mestu kostnaðarlaus.

logo-vikrHlutverk og markmið VIRK

Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingarþjónustu. Tilgangur með þjónustu á vegum VIRK er að aðstoða fólk við að komast til vinnu. Um er að ræða markvissa ráðgjöf og þjónustu á sviði starfsendurhæfingar sem krefst fullrar þátttöku viðkomandi einstaklings.

Markmið VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku. Þeir sem hafa rétt á þjónustu VIRK eru þeir einstaklingar sem ekki geta sinnt starfi sínu eða tekið þátt á vinnumarkaði vegna hindrana af völdum heilsubrests. Jafnframt þurfa þeir að vera með beiðni eða vottorð frá lækni og hafa það að markmiði að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði eða að auka þátttöku sína á vinnumarkaði.

Allar upplýsingar um starfsemi VIRK má finna á www.virk.is

Tekið af síðu Virk í febrúar 2016