Réttindi

Samfélagsleg réttindi

Langvinnur gigtarsjúkdómur hefur margvísleg áhrif á líðan og fjárhagsafkomu. Útgjöld sem tengjast sjúkdómnum, s.s. fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf, verða oft meiri en maður reiknar með og ef sjúkdómurinn veldur því að starfsgeta minnkar, tímabundið eða til langframa hefur það mikil áhrif á fjárhagsafkomu. 

Við leggjum til að fólk kanni rétt sinn sem fyrst, bæði hjá því opinbera og sveitafélagi viðkomandi, svo og áunnin réttindi hjá vinnuveitenda, stéttarfélagi og lífeyrissjóði.  

Félagsþjónusta sveitarfélaga

Sveitarfélög skulu sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum um þjónustu sveitarfélaga. Félagsþjónusta sveitarfélaga heyrir undir velferðarráðuneytið sem hefur eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögbundna þjónustu. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og stuðla að velferð á grundvelli samhjálpar. Allar upplýsingar má finna á vef Velferðaráðuneytisins

Landssamtök lífeyrissjóða

Hjá Landssamtökum lífeyrissjóða er hægt að nálgast upplýsingar um lífeyrismál og lífeyrissjóði. Á vef Landssamtakanna er hægt að nálgast bæklinginn Lífeyrissjóðurinn þinn - upplýsingarit um lífeyrismál.